Fara í efni

Mörður spígsporar um á bananahýði

Í Morgunblaðinu í gær er fjallað um fund sem Samfylkingin efndi til í umboði Alþýðuflokks Reykjavíkur (sem ég hélt að hefði verið lagður til hvílu) um "eftirlaunafrumvarpið" margfræga þar sem Alþingi festi í lög umframréttiindi ráðherrum til handa sérstaklega og þingmönnum almennt einnig. Enginn í þingflokki VG studdi þetta frumvarp þegar það var afgreitt sem lög. Það  verður hins vegar ekki sagt um þingflokk Samfylkingarinnar. Þar studdu sumir frumvarpið, aðrir sátu hjá en einng kom fram stuðningur við frumvarpið. Ég hef talsvert fjallað um þetta frumvarp í ræðu og riti  en heldur hlíft Samfylkingunni í þeirri umfjöllun, einfaldlega látið hana liggja á milli hluta, ekki séð ástæðu til að gera hana að blóraböggli í þessu máli. Mörður Árnason alþingismaður lætur sér hins vegar ekki nægja að taka á þessum máli með tilliti til þess sem gerðist innan eigin flokks heldur reynir hann að beina  vandræðagangi  þeirra Samfylkingarmanna inn á aðrar brautir. Þær sýnast mér  vera nokkuð hálar. Lesendur Morgunblaðsins  fengu í gær tækifæri til þess að fylgjast með Merði feta sig út á sleipt bananahýðið. Ekki reyndist hann mjög stöðugur á fótunum. Í Morgunblaðsfrétt segir eftirfarandi og er vitnað í Mörð: " Hann segir að þetta mál hafi sýnt að Samfylkingin geti tekið á erfiðumj málum eftir samráð og pólitískt mat. Þessi afgreiðsla sýni líka að Samfylkingin hlusti á fólkið í landinu og gerð sé ríkari krafa til flokksins en til dæmis Vinstrri grænna. Það sé eðlilegt þar sem Samfylkingin geti leitt næstu ríkisstjórn en VG ekki."
Auðvitað á ekki að hlæja að mönnum sem skrikar fótur á bananahýði. En annað hvort er þessi yfirlýsing Marðar fyndin eða hlægileg.
Við hann vil ég segja þetta: Ræðum "eftirlaunafrumvarpið" á málefnalegum forsendum.  Að mínum dómi stenst þetta frumvarp ekki skoðun hvernig sem á það er litið. Það þarf engar ráðleggingar utan úr bæ, ekki "að hlusta á fólkið í landinu" til að sjá að þetta frumvarp er fullkomlega siðlaust, sérréttindalöggjöf sem á sér enga réttlætingu. Endanleg niðurstaða hjá  þingflokki VG varð sú að enginn í þingflokknum studdi málið! Samfylkingin var hins v egar sundruð. Gerir það hana hæfa til að leiða ríkisstjórn? Hlýtur þetta ekki að vera grín? Eða er þetta bara göngulag eins og gerist á bananahýði?