MJALLHVÍT OG DVERGARNIR Í WASHINGTON
Takk fyrir greinina um Trump og evrópska gestkomendur hans í byrjun vikunnar sem senn er liðin.
Myndin úr Hvíta húsinu er sláandi.
Auðvitað veit ég að hún er ekki af Mjallhvíti og dvergunum sjö.
Ég veit að sá í miðjunni er hann Dónald og alls engin Mjallhvít og að með honum á myndinni eru einum fleiri en dvergarnir sjö voru og ekki einu sinni dvergar.
En ég get ekki að því gert að finnast eitthvað ævintýralega absúrd við þessa mynd, eitthvað úr Grimms-ævintýri. Þau voru skrifuð til að leiða börnum fyrir sjónir hve hættulegt gæti verið að ráfa um í skógi þar sem margar hættur leyndust.
Kannski má skoða þessa mynd með litlum íslenskum börnum til þess að kenna þeim hve varasamur þessi félagsskapur er og hve margar hættur fylgi því að binda trúss sitt við hann. Og mikið er það rétt hjá þér að því fyrr sem við hættum því þeim mun betra.
Þetta eru nefnilega fulltrúar nýlenduvelda gamalla og nýrra og í gegnum tíðina hefur þeirra réttlæti ekki verið til eftirbreytni.
Sunna Sara