Fara í efni

MIKILVÆG YFIRLÝSING


Fréttastofa Sjónvarps sagði frá því í kvöldfréttum að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, vildi að þjóðin hefði vald til að ákveða hvaða mál færu í þjóðartkvæðagreiðslu. Þetta er stórfrétt. Fréttastofan kom hins vegar ekki auga á hana. Svo upptekin var hún af slagsmálunum við forsetann að meira vægi fékk sú yfirlýsing Jóhönnu að þar með yrði málskotsrétturinn tekinn af honum. Það er þó smámál ef hitt nær fram að ganga að þjóðin ákveði sjálf hvað hún tekur til beinnar ákvörðunar í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvað hún er reiðubúin að láta fulltrúa sína á þingi ákveða fyrir sína hönd. Ég spái því að í framtíðinni muni fólk horfa með forundran til okkar tíðar þegar enn er til fjölmargt fólk sem vill meina þjóðinni um þennan sjálfsagða rétt og áttar sig ekki á því að almenningur á réttinn - hann er það sem við köllum mannréttindi.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ákvað með þessari yfirlýsingu að eiga hlutdeild í framtíðinni; lýðræðisþjóðfélaginu sem er handan við hornið.  Nú er að sýna viljann í verki. Öll þurfum við að lyfta undir horn með forsætisráðherra í lýðræðisbaráttunni .
http://www.ruv.is/frett/vill-taka-synjunarvald-af-forseta