Fara í efni

MERKIISDAGUR Í SÖGU ÞJÓÐARINNAR

Fyrsti desember er merkisdagur í sögu þjóðarinnar. Þann dag árið 1918 gengu sambandslögin í gildi og Íslendingar urðu frjálst og fullvalda ríki. Þetta gerðist eftir þrotlausa sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar um rúmlega aldar skeið.
Með stjórnarskránni 1874 hafði löggjafarvaldið að nýju verið flutt til Íslands og árið 1904 höfðum við fengið heimastjórn með íslenskum ráðherra, búsettum á Íslandi. Smiðhöggið á sjálfstæði Íslands var síðan rekið með stofnun lýðveldis og sambandsslitum við dönsku krúnuna árið 1944.  Þar með voru utanríkismál einnig komin undir íslenskt löggjafar og framkvæmdavald en ekki Dani eins og kveðið hafði verið á um í sambandslögunum frá 1918.
Við stofnun lýðveldis árið 1944 þótti það koma mjög til álita að gera 1. desember að þjóðhátíðardegi Íslendinga en sem kunngt er varð sú hugmynd ofan á að velja afmælisdag Jóns Sigurðssonar, hinn 17. júní.

Hvers virði er sjálfstæðið?

Í mínum huga er fullveldisdagurinn gott tilefni til þess að íhuga hvers virði sjálfstæði þjóðarinnar er. Værum við ef til vill eins vel stödd – eða jafnvel betur – með því að afsala okkur sjálfstæði, finna okkur skjól í stærra ríki? Hefðum við sætt okkur við það til langframa að Danir færu með okkar utanríkismál, kæmi það ef til vill til álita nú að fallast á að stefna okkar í utanríkismálum yrði mótuð í Brussel, höfuðstöðvum Evrópusambandsins? Þetta er ekki sagt af tilefnislausu því margir eru þess mjög fýsandi sem kunnugt er, að Ísland gangi í hið nýja evrópska stórríki  í mótun sem Evrópusambandið óneitanlega er. Þar færist nú allt í átt til samræmdar utanríkisstefnu.
Í mínum huga erum við Íslendingar, þjóð sem býr yfir sterkri sjálfsvitund, ríkri sögulegri hefð og frjóum menningararfi, betur settir sem sjálfstæð þjóð í samfélagi þjóða en sem sundruð hjörð einstaklinga á markaðstorgi, hvort sem því torgi er stýrt austan eða vestan Atlantsála, frá Brussel eða Washington. Íslendingar eru álíka fjölmennir og úthverfi í stórborg. En viljum við skipta? Að sjálfsögðu ekki. Við skulum aldrei vanmeta þann kraft sem menningararfurinn og sjálfstæði þjóðarinnar veitir okkur. Sjálfstæðið er fjöregg sem okkur ber að varðveita. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Fagnað með hægð og hófsemd

Áttatíu og níu ár eru nú liðin frá því Íslendingar öðluðust fullveldi. Árið 1918 var annars viðburðaríkt, og fyrir margt fólk, örlagaríkt ár.  
Veturinn 1917-1918 var einhver sá kaldasti sem landsmenn höfðu mátt þola og hefur jafnan síðan gengið undir nafninu frostaveturinn mikli. Kötlugos hófst 12. október með jökulhlaupi yfir Mýrdalssand. Það eirði engu sem í vegi þess varð og eyddi gosið og hlaupið bæjum á Suðurlandi. Aska skemmdi tún og haga og víða féll búfénaður. Þá er að geta spánsku veikinnar, sem svo var nefnd, en hún herjaði á þjóðina á þessum tíma. Spánska veikin var í reynd óvenju skæður inflúensufaraldur, sem varð mörg hundruð manns að fjörtjóni. Þessar hamfarir og hörmungar urðu til þess að fullveldinu var fagnað með hægð og hófsemd enda hvíldi skuggi þessara atburða þá yfir þjóðinni.