Fara í efni

MENN TAKI EINA MAGNIL OG ...

Ágæti Ögmundur...
Ég rakst inná síðuna þína á netinu, sem ég tel mjög góða. Eftir að hafa lesið pistil þinn um “Læknisfræði eða hagsmunabarátta,” þá vil ég taka fullkomlega undir orð þín!
Þeir sem annað veifið fá þessa græðgikveisu ættu að skoða reynslu nærliggjandi landa, sem hafa farið út í einkabisnis með heilbrigðiskerfið og læknaþjónustu. Reynslan kennir að það hefur hvergi gengið blessunarlega. Ef læknar eru ekki á annað borð orðnir forfallnir aurasjúklingar, ættu þeir að lesa hvatningu og óð Hippocratesar, draga djúpt andann, taka eina magnil og skammast sín svolítið.

Íslenska hjúkrunarkerfið, sem komin er góð reynsla á, hefur lengi verið öðrum löndum til mikillar fyrirmyndar, og hafa Íslendingar ástæðu til að vera hreyknir af því.  Bandaríska heilbrigðiskerfið sem gróðahyggjufólkið einblínir á, er til dæmis margfalt dýrara og þyngra í vöfum bæði opinberi og einkaeignar þátturinn. Þá er auðvitað ekki verið ræða um þær stofnanir sem þjóna eingöngu ríku fólki og auðkýfingum sem þurfa ekki að hafa áhyggjur af kostnaðinum.  Svo skal benda á, að þó fólk tali um einkaframtak í heiðbrigðisgeiranum, þá eru það skattpeningar almennings sem halda því gangandi fjárhagslega og gerir þeim sem græða, mögulegt að græða enn meira á kostnað almennings, eins og þú bendir réttilega á Ögmundur .

Ég þekki til þess að í Vestur-Kanada var reynt að einkavæða þennan geira og það var farið geyst af stað og miklum árangri náð í að loka sjúkrahúsum sem ekki þóttu borga sig. Einkaaðilar fengu að bjóða í ýmis verkefni innan stofnananna, svo sem eldhúsvinnuna, þrif, öryggisvaktir, skrifstofuvinnu og jafnvel heildarrekstur þeirra. Læknar og hjúkrunarfólk fékk auðvitað að semja um kaup sitt á einstaklingsgrunni og verkalýðsfélögin voru útskúfuð. Það voru ýmsar aðferðir reyndar.  Sumar svo heimskulegar að ég mun ekki skýra frá þeim því lesandi mundi ekki trúa mér.

Nú hefur það gerst að sérfræðingurinn sem var ráðin til að stjórna breytingunum úr opinberum rekstri í prívat gróðafyrirtæki, hefur verið rekinn. Síðan hefur verið reynt að breyta aftur í opinberan rekstur þar sem hægt er, eins fljótt og hægt er, vegna allrar hagvæmni sem opinber rekstur hefur uppá að bjóða í þessari þjónustu, umfram einkabisnisinn. En þessi endurbreyting reynist mjög dýr. Það lítur út fyrir að vel rekið ríkisrekið heilbrigðiskerfi sé það langæskilegasta í heilbrigðisgeiranum, þarmeð sjúkrahúsin, þó svo að það megi kannski láta bjóða út einstök verkefni.
Líklegast er það vegna þess að það er eitthvað siðferðislega rangt við að hugsa aðeins um að græða á sjúku og hjálparvana fólki!
Helgi Geirsson