Fara í efni

MENN HÆTTI AÐ STINGA HÖFÐINU Í SANDINN - STÓRIÐJAN ER VANDINN

Í leiðara Morgunblaðsins í dag segir: "Sú ákvörðun hins þekkta alþjóðlega matsfyrirtækis Standard & Poor's að lækka lánshæfismat ríkissjóðs er óneitanlega umtalsvert áfall fyrir ríkisstjórnina. Þótt lánshæfismatið sé nú hið sama og það var fyrir ári – en það var hækkað í millitíðinni – breytir það engu um neikvæð áhrif þessarar ákvörðunar. Hún getur leitt til þess að lánakjör íslenzka ríkisins versni. Hún getur leitt til þess að lánakjör íslenzku bankanna lækki...Við eigum að líta á ákvörðun þessa alþjóðlega matsfyrirtækis sem viðvörun til okkar. Ábendingu um að hægja á ferðinni."

Í leiðara Fréttablaðsins segir: "Lækkun Standard and Poor's á lánshæfismati íslenska ríksins eru grafalvarleg tíðindi, en ættu ekki að koma á óvart. Lausatök hafa verið í rekstri ríkisins og stjórnvöld hafa skell skollaeyrum við viðvörunum og ábendingum um úrbætur sem nauðsynlegar eru. Þegar menn berja höfðinu nógu oft við steininn er það einu sinni svo að augljóslega gefur hausinn eftir fremur en steinninn. Niðurstaðan er að jólagjöf efnahagsstjórnarinnar í ár er hækkandi fjármagnskostnaður fólks og fyrirtækja á Íslandi... Fjáraukalög, afturköllun aðgerða til að draga úr þenslu og hik við að gera nauðsynlegar úrbætur á íbúðalánamarkaði voru auðvitað til þess fallin að draga úr trausti þjóðarinnar á alþjóðamörkuðum. Það er ekki ofmælt að tala um lausatök í stjórn efnahagsmála þegar ekkert er gert til að mæta augljósri og skynsamlegri gagnrýni á efnahagsstjórnina."

Leiðarahöfundum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins ber saman um að nýtt lánshæfismat matsfyrirtækisins Standard & Poor's sé alvarleg tíðindi fyrir íslenskt efnahagslíf því fyrir okkur sem þjóð, hvort sem er ríki, sveitarfélög, fyrirtæki eða einstaklinga er afleiðingin sú að lánsfé sem við öflum erlendis verður okkur dýrara, fjármagsnkostnaður okkar eykst. Matsfyrirtækið nefnir lausatök í ríkisfjármálum í aðdraganda kosninga sem helsta bölvaldinn. Morgunblaðið hvetur til þess að hægt verði á ferðinni og Fréttablaðið vill að við drögum úr þenslu. Þótt ekki skrifi ég upp á augljósa löngun þess síðarnefnda að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef skal tekið undir með leiðarahöfundum þessara tveggja blaða um nauðsyn aðhaldssamra aðgerða. En hvað skal gera?

Að mínum mati er augljóst að beina ber sjónum að þeim ákvörðunum stjórnvalda sem mestri þenslu valda. Hinn 14. desember kom fram hjá Greiningardeild KB banka að alls hafi "fjárfesting í áliðnaði numið um 30-35% af landsframleiðslu síðustu þrem árum sem hefur haft allmikil áhrif á innlenda eftirspurn á þessum tíma." Augljóslega er stefnt að því að stækkun álversins í Straumsvík og framkvæmdir við virkjanir vegna hennar hefjist af fullum krafti á næsta ári. Því miður virðist að svo eigi að búa um hnúta að kosning íbúa í Hafnarfirði sé hugsuð sem eins konar sýndargjörð því augljóslega er reynt að þrengja umgjörð kosninganna sem frekast er unnt. Í fyrrgreindu mati Greiningardeildar KB banka segir: "Fjárfesting tengd stækkun Alcan og virkjunarframkvæmdum hleypur á bilinu 150 mö.kr., eða 15% af VLF 2005. Ljóst er að framkvæmdir af slíkri stærðargráðu hafa töluverð áhrif á þjóðarútgjöld á næstu þremur árum. Þetta mun, að öðru óbreyttu, hægja á vaxtalækkunarferli Seðlabankans og styðja við gengi krónunnar. Heildaráhrif framkvæmdanna á hagkerfið, þ.e. hve mikið af auknum þjóðarútgjöldum mun breytast í þenslu eða hagvöxt, veltur hins vegar á aðstæðum í efnahagslífinu á framkvæmdatímanum, einkum þróun einkaneyslu og vexti ríkisútgjalda." ( Sjá nánar HÉR)
Daginn eftir þessa greiningu, hinn 15. desember, var síðan tilkynnt að Landsvirkjun hefði náð samkomulagi við Alcan um raforkuverð vegna stækkunar í Straumsvík.

Þegar lánshæfismat Standard & Poor's var birt segir Greiningardeild KB banka að í ljósi þess hve mikið sé í húfi fyrir íslenskt efnahagslíf að viðhalda góðu lánstrausti í útlöndum "hefðu stjórnvöld átt að róa að því öllum árum að reyna að styrkja fremur en veikja forsendur fyrir lánshæfismati landsins á síðustu mánuðum. Það er nú ljóst að það var ekki gert og aðhaldsleysi í fjárlagagerð hefur nú kallað fram lækkun lánshæfismatsins…" (Sjá nánar  HÉR)

En bíðum við. Er það fyrst og fremst fjárlagagerðin sem veldur þessu? Er ekki augljóst að væntingar um ríkisstyrkta fjárfestingu í stóriðju, sem nemur 15% af landsframleiðslunni, eru þegar farnar að hafa þensluvaldandi áhrif og að þegar framkvæmdir síðan hefjast muni þensla umfram verðmætasköpun halda áfram að grafa undan þjóðarhag? Og eru ekki fleiri álver einmitt á færibandinu? Þess vegna er ástæða til að spyrja hvort menn séu ekki að sameinast um að stinga höfðinu í sandinn. Hvernig stendur á því að leiðarahöfundar Morgunblaðsins og Fréttablaðsins benda ekki á þessar augljósu staðreyndir? Og hvers vegna botnar Greiningardeild KB banka, sem skilmerkilega hefur fjallað um stóriðjuþensluna og afleiðingar fyrir efnahagslífið, ekki eigin röksemdafærslu og segir hreint út: BURT MEÐ STÓRIÐJUÁFORMIN! Í mínum huga liggur þessi krafa í augum uppi. Annað væri þjóðhagslegt glapræði.