Fara í efni

Með Ástarþökk frá Agli – og síðan Birni

Það vakti nokkra athygli þegar Egill Helgason fjölmiðlamaður með meiru, kvaddi þá félaga í frjálshyggjunni,  Hannes Hólmstein og Jón Steinar Gunnlaugsson í þætti sínum "Silfri Egils" fyrir stuttu með þeim hjartnæmu orðum að hann kynni þeim  "ástarþakkir fyrir komuna" og vonaðist til að sjá þá hið allra fyrsta að nýju. Það eru fleiri ástfangnir en Egill Helgason. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra fellur í stafi og einnig Morgunblaðið í dag, sunnudag sem síterar í Björn af heimasíðu hans. Þar segir: "Líklega segir það meira en flest annað um áherslur íslenskra fjölmiðla, að í fyrsta sinn í sögu ljósvakamiðla fengu tveir frjálshyggjumenn að sitja saman fyrir svörum hjá Agli Helgasyni í þættinum Silfur Egils á Stöð 2 sunnudaginn 22. febrúar 2004 og ræða pólitískar hugsjónir sínar.
Í þættinum ræddu þeir dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor og Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og prófessor, við Egil í tilefni af því, að hinn 19. febrúar voru 25 ár liðin frá útgáfu bókarinnar Uppreisn frjálshyggjunnar. Kjartan Gunnarsson, núverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og þáverandi formaður Heimdallar, stóð að útgáfu bókarinnar. Egill Helgason á heiður skilinn fyrir að leiða þessa tvo góðu málsvara frjálshyggjunnar fram í þætti sínum og gefa þeim tækifæri til að segja skoðun sína og leggja mat á þróun þjóðfélagsins, án þess að einhver yfirlýstur vinstri- eða ríkisforsjársinni tæki einnig þátt í umræðunum....Það er til marks um næma tilfinningu Egils Helgasonar fyrir mikilvægum straumum í íslensku þjóðlífi að kalla þá Hannes Hólmstein og Jón Steinar til viðtals ..."

Er ástæða til taka undir með þessum hamingjuóskum Agli til handa með "næma tilfinningu" fyrir íslenskum stjórnmálum? Getur það verið rétt hjá Birni Bjarnasyni að það sem íslenskt þjóðfélag þurfi nú helst á að halda sé að leyfa talsmönnum peningafrjálshyggjunnar að fabúlera gagnrýnislaust um þróun undangenginna ára? Byggir lýðræðið ekki á því að allar hugmyndir þurfi að standast umræðu og skoðun? Ég hefði haldið að pólitísk stefna sem ekki þolir gagnrýni og umræðu geti varla stuðst við sterk rök. Í einræðisríkjum tíðkast einræða af þessu tagi. Stjórnlyndir menn hrífast af slíku.