Fara í efni

MARGRÉTAR BJÖRNSDÓTTUR MINNST

Margrét Björnsdóttir
Margrét Björnsdóttir

Í dag er borin til grafar félagi minn úr verkalýðsbaráttunni til margra ára, Margrét Björnsdóttir frá Neskaupsstað. Í rúman aldarfjórðung var hún formaður Starfsmannafélags Neskaupsstaðar, í stjórn BSRB og ýmsum nefndum og ráðum á vegum bandalagsins. Í minningargrein í Morgunblaðinu í dag minnist ég Margrétar Björnsdóttur fáum orðum:

„Í BSRB eignaðist ég góða vini. Í þeim hópi var Margrét Björnsdóttir, sem lengi vel var formaður Starfsmannafélags Neskaupsstaðar, síðar Fjarðabyggðar eftir sameiningu sveitarfélaga á Austfjörðum árið 1998.

Margrét tók við formennsku í Starfsmannafélaginu árið 1986 og gegndi því starfi fram yfir aldamótin, en af formennskunni lét hún árið 2002.

Áður en Margrét settist í formannsstólinn hafði hún látið að sér kveða í verkalýðsbaráttunni  og í starfi henni tengdri. Sjálfur hafði ég komið inn á þennan vettvang í byrjun níunda áratugarins þegar ég varð varamaður í stjórn BSRB en þar sat ég  með hléi þar til ég tók við formennsku samtakanna árið 1988. Þar var þá fyrir í forystusveitinni  Margrét Björnsdóttir. Kynni okkar urðu því langvinn og á ég henni margt að þakka á langri sameiginlegri vegferð.     

Hún gegndi jafnan lykilhlutverki í kjarasamningum starfsmanna sveitarfélaganna, auk þess sem á hennar herðar voru sett ýmis önnur ábyrgðarstörf og þá iðulega fyrir heildarsamtökin. Margrét sat þannig um tíma í stjórn Styrktarsjóðs BSRB svo dæmi sé tekið.

Margrét Björnsdóttir var traust og yfirveguð. Á fundum talaði hún ekki að óþörfu en þegar hún tók til máls þá var á hana hlustað. Þótt hún væri mild manneskja þá var hún ákveðin og föst fyrir ef því var að skipta og ekki auðveldlega hnikað þegar hún taldi um grundvallarmál að ræða. Alltaf kom hún hreint til dyranna og þurfti því enginn að fara í grafgötur um hvar hún stóð.

Með okkur tókst góður vinskapur og á það einnig við um eiginmann hennar, Má Sveinsson. Hann stóð henni jafnan sem traustur bakhjarl en sjálfur gegndi hann einnig trúnaðarstörfum fyrir hreyfinguna. Hef ég grun um að aldrei hafi Már orðið til að draga úr baráttuandanum á heimilinu því hann var og er róttækur og baráttuglaður maður.

Ég átti þess kost að njóta gestrisni þeirra hjóna og fékk því að kynnast því hve hlýlega og af hve mikilli velvild og rausn þau tóku á móti gestum sínum.

Það er mikil eftirsjá að Margréti Björnsdóttur. Hún skilur eftir góðar minningar. Megi aðstandendur hennar og ástvinir vita að hún lét gott af sér leiða á sinni vegferð. Fyrir það leyfi ég mér að þakka fyrir hönd félaga hennar í BSRB um leið og ég votta eiginmanni og fjölskyldu samúð.
Ögmundur Jónasson,

fyrrverandi formaður BSRB"