Fara í efni

Febrúarpistill frá Bandaríkjunum

Hver er áhrifamesti einstaklingurinn í heiminum í dag? Það má sannarlega halda því fram að það sé Ayatollah Ali Sistani, helsti leiðtogi Sjíita í Írak. Eins og sakir standa hefur hann lykilinn að því hvort stjórnmálaþróun Íraks verði friðsæl og samkvæmt áætlun Bandaríkjanna eða hvort aðrir þættir koma til með að flækja stöðuna. Þar af leiðandi gætu hugmyndir hans og aðgerðir (eða aðgerðaleysi) haft töluverð áhrif ekki bara á stöðuna í Írak og Mið-Austurlöndum almennt séð heldur einnig á framþróun forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Í dag er hann sá stjórnmálamaður sem Bush og  hans nánustu samstarfsmenn óttast mest enda virðist sem svo að hann sé óþekktur, óútreiknanlegur og þar af leiðandi óstöðugur. En þegar betur er að gáð er hann einmitt mjög rökréttur og hefur verið samkvæmur sjálfum sér síðustu 40 árin. Hann hefur einfaldlega allt aðra sýn á hvað sé æskilegt og óæskilegt í Írak  heldur en stjórnin í Washington. Og eitt af því sem hann telur vera óæskilegt eru afskipti Bandaríkjastjórnar af innanríkismálum Írak.

Sistani, sem er upphaflega frá Íran og talar enn arabísku með persneskum hreim, hefur verið æðstiklerkur Íraka síðan 1992.  (Hann er með ágætis vefsíðu, á ensku og frönsku, þar sem hægt er að lesa sér til um hann og hugmyndir hans (http://www.sistani.org)). Sistani hefur búið í Írak í um 50 ár en hann er 73 ára. Hann gekk í hefðbundinn sjíita skóla í Qum í Íran (þar sem Ayatollah Khomeini kenndi) og hefur því helgað líf sitt því að læra lög Islam and vera síðan áhrifamikill túlkandi þess. Einn af þeim titlum sem hann hefur  hlotið er “marja-e taqlid” eða “uppspretta eftirbreytni”, þ.e. sá sem ákvarðar ákjósanlega hegðun. Það má etv. líkja valdastöðu  Sistanis  nokkurn veginn við stöðu páfans en yfirlýsingar  frá embætti Sistanis hafa álíka mikið fordæmisgildi og álít páfans í trúarlegum efnum meðal kaþolikka.

 Ástæðan þess að staða Sistani er svona sterk er að hann hefur verið mjög samkvæmur hugmyndum sjíismans alla sína tíð. Eitt lykilhugtakið í sjíi Islam er “taqiyya” þ.e. að láta ekki á sér bera stjórnmálalega séð. Leiðtogar sjíita í Írak hafa litið á stjórnmálavafstur sem utan síns verksviðs og skilgreint hefðbundna stjórnmálaleiðtoga sem ólögmæta. Þeir hafa því  aldrei tekið þátt með beinum hætti í stjórnun landsins .Meðan að Ba´ath flokkurinn og Saddam Husayn réðu ríkjum, hélt Sistani sér eins langt frá Ba´ath flokknum  og hugsast gat. Sistani hafði því engin tengsl við Husayn og hefur því óflekkað mannorð hvað það varðar. Nú, eftir fall Saddam Husayn , hefur hann neitað að hitta nokkurn Bandaríkjamann. Hann hitti reyndar Sergio heitinn Vieira de Mello og virðist bera töluverða virðingu fyrir Sameinuðu þjóðunum. Hann krafðist þess til dæmis að starfsmenn Sameinuðu þjóðanna kæmu til Írak til að meta  það hvort að hægt væri yfirhöfuð að framkvæma kosningar þar í landi. Og hitti einmitt Kofi Annan Bush í Hvíta Húsínu og tilkynnti að starfsmenn Sameinuðu þjóðanna færu í kjölfarið til Írak. (Að þessu sinni verða þessir starfsmenn að gæta þess í hvíetna að vera ekki álitnir njósnarar eða strengjabrúður Bandaríkjastjórnar.)

Það á ekki að líta á yfirlýsingar og aðgerðir Sistani sem svo að hann sé í sóknarhug og ætli sér stóra hluti persónulega í framtíðarskipun landsins. Hann er ekki á því að stofna islamskt lýðveldi í Írak eins og er í Íran.  Frekar ber að líta á þátt Sistanis nú nýlega sem  varnarbragð, þ.e. hann lítur svo  á að Islam og staða sjíismans séu í hættu. Því beri að sýna mátt sinn í verki til að tryggja það að á þessu mikilvæga skeiði sé ekki litið framhjá þeim gildum og hugmyndum sem hann hefur í hávegum. Það sem var kannski merkilegast í atburðum síðustu vikna var ekki sú staðreynd að Sistani gat fengið yfir 100,000 manns í mótmælagöngur heldur frekar að hann gat sagt fólkinu að hætta að mótmæla nokkrum dögum seinna. Það er eitt að kveikja í fólki en það er allt annað að skrúfa fyrir það eins og ekkert sé. Þetta sýnir hvað fylgismenn hans eru honum trúir.

 Ef tekið er mið af menntunargöngu Sistani, hugmyndafræði og lögfræðilegum túlkunum er ljóst að hann er með mjög íhaldsamar eða hefðbundnar hugmyndir um stjórnarfar og félagsgerð. Hann vill til dæmis að Islam liggi til grundvallar stjórnarskránni en að almennt trúrfrelsi eigi að ríkja í landinu. Hann álitur að aðskilja eigi karla og konur á opinberum vettvangi þannig að strákar og stelpur til dæmis eigi að fara í sérskóla.  Vitaskuld hefur hann einnig mjög skýrar hugmyndir um klæðaburð kvenna utan heimilisins.

Sistani er þó ekki eini leiðtogi sjíita og það væri mikil einföldun að ætla að hann hafi alla sjíita á bak við sig. Alls ekki. Írakskir sjíitar hafa mismunandi stjórnmálaskoðanir rétt eins og Íslendingar og Sistani markar ákveðna stefnu sem ekki allir eru  fylgjandi. En það sem Sistani hefur náð að gera er að virkja þjóðernistilfinninguna og blanda henni með mjög ákveðinni skírskotun til sögunnar þar sem hún er túlkuð sem  samfelld sorgarsaga sjíita og að sjíitar séu fórnarlömb sögunnar. Þeir hafi barist fyrir frelsi og sjálfstæði alla sína tíð en aldrei náð að uppskera það sem þeir sáðu. Í sögutúlkun Sistani voru það fyrst og fremst Sjíitar sem fórnuðu sér í uppreisninni 1920 gegn Bretum, í stríðinu gegn Íran 1980-88, og svo síðast í intifada árið 1991 þegar Bandaríkjastjórn hvatti sjíita að gera uppreisn gegn Saddam Husayn. En nú eru aðstæður öðruvísi, segja yfirlýsingar Sistani. Við höfum lært af sögunni. Að þessu sinni verðum við ekki fórnarlömb sögunnar heldur munum við grípa tækifærið og sjá til þess að Írak verði loksins ríki þar sem gildi og sjórnarmið sjíi Islam ráði ríkjum.

Almennt ástand í Írak og staða kvenna

Það er áætlað að um 50% af vinnufæru fólki sé atvinnulaust og að um 60% lifi nú undir fátæktarmörkum í Írak.  Verðbólgan er um 15% á mánuði og ekki óalgengt að sjá til barna  sem gramsa í sorptunnum í leit að mat í Bagdad. Það er spurning hvenær milljónirnar og milljarðarnir sem lofað er til uppbyggingarstarfs í Írak skili sér til almennra borgara í Írak. Margir írakskir stjórnmálamenn hafa áhyggjur af því að þessar félagslegu aðstæður séu tifandi tímasprengja. Enn sem komið er hafa mótmæli atvinnulausra verið friðsæl í Baghad en það er spurning hversu lengi það varir. Á sama tíma hafa orðið einhverjar framfarir á ýmsum sviðum til dæmis víðsvegar í heilbrigðis- og menntageiranum. En fólk er að missa þolinmæðina. Í upphafi var ákveðinn velvilji í garð Bandaríkjanna  fyrir að steypa Husayn frá völdum en nú er fólk nánast búið að fá nóg af hernáminu, ekki bara af afskiptum Bandríkjahers heldur einnig af ofbeldinu sem hefur komið í kjölfarið.

 Um 80% af ofbeldinu hefur átt sér stað á sunní svæðunum fyrir miðju Írak .En  þetta pólítíska ofbeldi er að aukast annars staðar, eins og sást vel við sjálfsmorðsprenginguna sem átti sér stað í Mosul í norðurhluta landsins þegar um 100 manns, mest megnis Kúrdar,  létust á eid al-adha hátiðinni fyrir skömmu. Það er svo augljóst að umfang ofbeldisins er að aukast og að þáttakendurnir koma úr allskyns áttum. Það er tímaspursmál hvenær þessum aðilum tekst að koma verulegu höggi á bækistöðvar Bandaríkjahers.

Fyrir utan spurningar um atvinnu og atvinnuleysi, beinast tvær mikilvægustu pólítísku spurningarnar í Írak þessa dagana  að fullveldi þjóðarinnar og þjóðarsátt. Nú nýlega voru lögð fram drög að nýrri stjórnarskrá landsins og reglugerð til að koma á þingræði í landinu. Þar kemur fram að Írakar eigi að hafa mál-, trú-, félaga- og fundafrelsi. Þetta uppkast gerir því ráð fyrir frjálsu og lýðræðislegu ríki og er þess vegna að því leytinu til ágætis plagg. En það á eftir að ræða þessi mál til hlítar því enn eru átök milli hópa í Írak um hvernig eigi stjórnarfar eigi að ríkja í landinu. Mörg önnur atriði eru ákaflega loðin til dæmis um tilhögun framkvæmdavaldsins, stöðu kúrda og Kirkuk og hvernig eigi að velja þingmenn.  Kúrdar og sumir súnnitar vilja hafa kjördæmaskipan þar sem hvert kjördæmi fengi ákveðið hlutfall af þingmönnum óháð íbúatölu. Sjíitar, sem eru í meirihluta, heimta að allt landið sé eitt kjördæmi og að hver íbúi fái eitt atkvæði.

 Eins og frægt er orðið, vilja Sistani og hans menn hafa beinar kosningar en Bremer stjórnin er treg vegna þess að niðurstaða slíkra kosninga gæti sett “óheppilega” aðila inn á þingið. Á vefsíðu Sistani og á mótmælagöngunum voru slagorð á ensku           ( “elect and not select”). Sistani er hér greinilega að skírskota til gagnrýni demokrata hér í Bandaríkjunum, og annarra  að Bush hafi sjálfur ekki verið kosinn forseti heldur valinn af hæstarétt Bandaríkjanna. Margir álita að því fyrr sem kosningar verði haldnar því líklegra sé að íhaldsöm öfl í Írak nái yfirhöndinni

 Eitt mál sem hefur ekki vakið nægjanlega athygli er að þjóðarráð Íraks samþykkti í lok síðasta árs reglugerð sem miðar að því að öll lög hvað varðar einkamál (svo sem réttindi til menntunar, ferðafrelsi, og hjúskaparlög o.s .frv) eigi ekki lengur að fylgja landslögum sem miða að ákveðnu jafnrétti kynja heldur eigi það að fylgja trúarlegum hefðum hvers héraðs. Þetta myndi án efa valda umtalsverðum breytingum á stöðu kvenna í mörgum stöðum í Írak þar sem margir trúarlegir leiðtogar líta svo á að sjaría lögin eigi að gilda í samskiptum kynjanna. Enn sem komið er hefur Bremer landstjóri ekki skrifað undir þessi lög. Nokkrir bandarískir þingmenn hafa skrifað Bush þar sem þeir krefjast þess að Bremer samþykki ekki þessa reglugerð sem myndi hafa verulega neikvæð áhrif á framgang kvenna. Staða kvenna eru gerð nokkur skil í drögum að stjórnarskránni þar sem stendur að konur eigi að vera í 40% þingsæta og það á eftir að koma í ljós hvað verður ofan á. 

Írak er þó almennt að þróast í þá átt að trúarlegir leiðtogar, hvort sem um er að ræða sunni, sjíi eða kristna hafa nú meiri völd en oft áður. Ein góð vísbending um þetta er að nú er næstum ómögulegt að kaupa áfengi í stórum hluta landsins en svo var ekki undir Saddam Husayn.

Gjöreyðingarvopn

 Gjöreyðingarvopn Íraka eru vissulega hin stóra pólítíska spurning nú bæði  í Bretlandi og Bandaríkjunum. Það á væntanlega að koma enn betur í ljós hver hin raunverulega staða var og hefur verið. Í umræðunni er  þó stundum  verið að blanda saman mörgum ólíkum þáttum. Til dæmis: Átti Husayn einhvern tímann gjöreyðingarvopn  (já), hefur hann beitt þeim (já), hafði hann áhuga á að framleiða eða kaupa fleiri slík vopn (já),  hafði hann bolmagn við byrjun 21. aldar að framleiða þau sjálfur (nei), voru vopnaeftirlitsmenn SÞ búnir að vinna markvisst að því að eyðileggja hættulegustu vopn Husayn (já), stafaði af honum mikil hernaðarleg ógn árið 2003 (nei), átti hann gjöreyðingarvopn vorið 2003 (svo virðist ekki).

Bæði fyrir og eftir innrásina á Írak hefur því  fólk verið að rugla þessum reitum öllum saman þannig að sú staðreynd að Husayn hafi  einhverntímann átt og beitt þessum vopnum, var túlkað á þann hátt að hann ætti þau nú og væri tilbúinn að beita þeim.

Ef spurningin snérist um þá ógn sem stafaði af Husayn, hefði verið nær að undirbúa árás gegn honum árin 1980, 1987, 1990, 1991, 1993 og 1996 frekar en árið 2003. Þeir sem voru skeptískir á þessar fyrirætlanir  haustið 2002 og vorið 2003 bentu margsinnis á það að tímaætlun árásarinnar virtist ekki hafa neitt með meint gjöreyðingarvopn Íraka að gera eða þá ógnun sem stafaði af honum heldur hvernig stríðið gæti passað inn í veðurfarið í Írak (heyja lungann úr stríðinu á vorin frekar en á sumri) og hinsvegar í stjórnmáladagatal Bandaríkjanna (þ.e. hæfileg lengd að kosningum).

 Það er ljóst að þessi árás á Írak og hernám þess er mikill álítshnekkir fyrir Bandaríkin á alþjóðavettvangi, ekki aðeins stjórnmálamenn þess heldur einnig fyrir leyniþjónustuna og herinn. Þetta sýnir að leyniþjónustan, þrátt fyrir tæki sín og tól, og nánast ótakmarkaðan aðgang að fjármagni, vanmat algjörlega þann þátt upplýsingaöflunar sem snýst um að afla sér þekkingu á menningu og stjórnarfari tiltekins lands ekki síst þegar kemur að Mið-Austurlöndum. Þessi þáttur, sem kallaður er “human intelligence”, þ.e. að hafa aðgang að áreiðanlegum einstaklingum og þekkingu á lókal aðstæðum var og er ekki fyrir hendi.  Nú eru jafnvel íhaldsöm öfl farin að gagnrýna þetta stríð sökum þess að stríðið var háð á grundvelli Bush kenningarinnar sem gerir ráð fyrir fyrirbyggjandi áðgerðum (“preemptive strike”). Sú kenning gerir ráð fyrir því að bregðast við ógnunum áður en þessi ógn geti virkilega ógnað öryggi Bandaríkjanna. Þar af leiðandi er grundvöllur kenningarinnar að Bandaríkjamenn hafi undir höndum áreiðanlegar upplýsingar um hvar þessar ógnir séu til þess að bregðast við þeim. En ef Íraks dæmið sýnir að upplýsingar leyniþjónustunnar séu óáreiðanlegar, er  þá  verið að bregðast við raunverulegum hættum eða er ekki verið að fylgjast með þeim stöðum þar sem hættan er töluverð. Þetta mál á eftir að verða enn  pólítískara hér og sennilega koma demókratar til með að nota þetta atriði í kosningabaráttunni sem framundan er. Hið nýja fjárlagafrumvarp Bush virðist gera ráð fyrir allavega 50 milljörðum dollara til hernámsins í Írak og það eru margir sem eru ekki ánægðir yfir því hvað þessi upphæð er há.

Að lokum þetta:

Muammar Ghaddafi og málefni Líbíu komust í heimsfréttirnar vegna þess að þeir Líbíumenn hafa opnað fyrir vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna. Svo virðist sem að vopnaframleiðsla Líbiu hafi verið komin lengra en almennt var talið  Þó að etv. megi túlka þetta sem svo að Ghaddafi sé nú hræddur um sig og sína vegna innrásar Bandaríkjanna í Írak, þá er það alls ekki eini þátturinn.  Á síðustu 10 árum hefur Ghaddafi gjörsamlega breytt um stíl og hefur unnið að því statt og stöðugt að bæta samskipti Líbíu við Evrópu og Bandaríkin sem  segja að þetta sé liður í ákveðinni þíðu þar í landi. Efnahagur Líbíu er mjög bágborin og nú eru komnir fram pólitískir hópar ekki síst í Bengazi héraðinu sem eru undir áhrifum bræðralags Muslima í Egyptalandi og Ghaddafi hefur enga stjórn á þeim. Shoukri Ghanem, nýi forsætisráðherran hefur verið mjög uggandi um þess þróun og Ghaddafi virðist vera að opna Libíu og stofnanir þess hreinlega vegna þess að hann vill koma í veg fyrir að þessir róttæku hópar í Bengazi nái völdum.  Það sem dæmið um Ghaddafi sýnir okkur ekki síður, er hverju sé hægt að áorka með alþjóðlegum þrýstingi og samvinnu alþjóðlegra stofnanna. Það er þó ekki hægt að alhæfa með einum eða öðrum hætti hvað olli þessari stefnubreytingu hjá Ghaddafi en þar eru semsé margir samhangandi þættir.

 Í nýlegri grein í Foreign Affairs benti Michael Doran, prófessor við Princeton háskóla á þá valdabaráttu sem á sér stað í Sádi Arabíu milli hinna ólíku prinsa, þó ekki síst Nayef og krónprinsins Abdullah. Atburðir síðustu mánuði gefa til kynna  að Saud fjölskyldan sé smám saman að missa tökin á landinu. Þar af leiðandi óttast konungsfjölskyldan hvaða áhrif það hefur á þeirra eigin stöðu ef þau efla frjálslyndi í landinu. Það er margir vindar sem blása nú í Sádi. Það er  hinn sterki vindur islamistanna sem telur að konungsfjölskyldan sé spillt og margir innan þessara raða fylgja hugmyndafræði al-qaeda. Aðrir vilja auka þáttöku almennings í landinu og minnka áhrif trúarinnar. Þetta er því baráttan um frjálslynda vs. íhaldsama túlkun á Islam . Þó að Doran hafi persónugert þetta í greininni með því að einblína á Nayef og Abdullah held ég að það sé fullmikið sagt að það sé hljóðlát bylting í gangi í Sádi. Að mínu mati eru umræður um frjálslyndi og  til dæmis að auka þátt kvenna í samfélaginu mest megins “public relations stunt”, ( en í mars á að fara fram opinber umræða um stöðu kvenna í Sádi Arabíu,)  sem miðar að því að tala og skrifa mikið um nauðsyn þess að gera einhverskonar umbætur á samfélaginu á sama tíma  og ekkert  er gert til að taka fyrsta skrefið í þá átt.

 Þessi mál eru líka nú í deiglunni í Íran og ómögulegt að spá hvernig fer þar. Mér sýnist að Íranir séu búnir að fá sig fullsadda bæði af klerkastjórninni og líka þessum svokölluðu umbótasinnum (eins og Khatami) og hafi nú ákveðið að bíða eftir raunverulegum umbótasinnum.

Nú hefur stjarna Howard Dean heldur betur fallið í forvali demókrata hér í Bandaríkjunum. Hann hefur þó enn öfluga kosningavél og kosningaskrifstofur í öllum fylkjum Bandríkjanna. En ég merki nú orðið ákveðna viðhorfsbreytingu jafnvel hjá hörðustu stuðningsmönnum hans. Sennilega fór hann of geyst af stað í kosningabaráttunni.  Hjá demókrötum snýst þetta forval um “electability”. Fólk er að velja einstaklinga sem þeir meta að geti sigrað Bush. Kosninginn snýst því ekki um stefnu eða hugmyndafræði heldur einhverskonar leikjafræði  þ.e. að fólk miðar afstöðu þína út frá því sem það heldur að aðrir muni gera. Og nú virðist vindáttin vera John Kerry í hag og því haga allir seglum sínum til að ná straumnum  Nú er verið að tala um Kerry og John Edwards sem framboðsefni demókrata. Demokratar telja Edwards gæti höfðað til fólks í suðurríkjunum enda kemur Kerry frá aðalsætt í Boston og hlaut menntun sína við Yale háskólann. Forystumenn demókrata telja einnig að Edwards eigi bjarta framtíð og því sé betra að stilla honum upp sem varaforsetaefni frekar en Wesley Clark.  Sumar kannanir gefa til kynna að Kerry gæti unnið Bush. En Bush hefur varla byrjað kosningabaráttuna og á stóran kosningasjóð. Það er einnig verið að geta sér þess til að Bush velji Rudolph Guiliani, fyrrum borgarstjóra New York sem varaforsetaefni enda Cheney orðinn gamall og lúinn. Það gæti virkað vel í Nýja Englandi þar sem Guiliani nýtur enn mikilla vinsælda en hann er þó alls ekki nægilega íhaldsamur fyrir marga republikana.  Öryggismál koma til með að vera mjög ofarlega á baugi í kosningabaráttunni og það er Bush í hag enn sem komið er. Annað mál sem er verður æ meira áberandi og ég held verði eitt af helstu kosningamálunum sérstaklega hjá republikönum er spurningin um hjónabandið og hvort að samkynhneigðir eigi að hafa rétt á borgaralegri giftingu með öllum þeim lagalegum réttindum sem því fylgir. Það er nú leyfilegt í nokkrum fylkjum eins og í Vermont (þar sem Dean var fylkisstjóri) og í Massachussets (en Kerry er öldungardeildarþingaður Massaschussets) og republíkanar munu án efa benda á þetta í kosningabaráttunni.

Með kveðju, Magnús Þorkell