Fara í efni

LOKASÓKNIN ER HAFIN


Ræða á baráttufundi VG í kosningamiðstöð Kragans og Rvík suður og norður:
Það er auðvelt og það er gott að vera vinstri græn.
Ég held að þjóðin sé nær öll með okkur.
Ég held að innst inni vilji allir hafa flokk sem passar upp á náttúruna og umhverfið.
Ég held að innst inni vilji enginn að í þjóðfélaginu sé fátækt fólk og ég held að innst inni vilji allir að við séum öll á sama bátnum, að á Íslandi ríki jöfnuður og réttlæti.
Ég held líka að innst inni hafi margir áhyggjur.
Áhyggjur af því að við séum að missa þetta land. Við séum að missa þetta land í hendurnar á stórkapítali heimsins. Liðnir séu dagar kaupmannsins á horninu, trilluútgerðar, gröfunnar sem er í einkaeign. Stoltra launamanna i kennarastétt, hjúkrunarfólks sem bjargar heiminum á hverjum degi, iðnaðarmannsins sem allir sækjast eftir að fá til starfa.
Allt er þrúgað af tali um milljarða, milljarða og aftur milljarða. Átt þú ekki milljarð? Hvað kom fyrir þig? Hvað gerðirðu rangt?

En við spyrjum, hvað varð um vefnaðinn í samfélaginu? Hvað varð um dögunina í vestfirskum firði, þegar ungur maður fer niður í fjöru í kyrrðinni innan um hógvært sjófuglaglammið til að gera klárt? Hvað varð um nautnina við dytta að girðingu í óþarflega köldum maí? Hvað varð um gleðina við að sjá yfir samfélagið sem þarf á manni að halda? Hver bað um stórkapítal og milljarðamæringa?
Það var Sjálfstæðisflokkurinn.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur engan áhuga á bifvélavirkjanum, smákaupmanninum eða póstmanninum. Þeir eru allir "lúserar", þiggjendur af þeim sem búa til auðinn.

Milljarðamæringarnir. Það eru menn Sjálfstæðisflokksins. Án þeirra værum við öll nagandi þröskuldana, loppin og áttavillt. Án Alcoa og Björgólfs og Jóns Ásgeirs værum við ekkert. Þetta er sýn Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn Ósjálfstæðisflokkurinn. Endalausar gjafir Ósjálfstæðisflokksins til stórfyrirtækja. Nú síðast afsal Ósjálfstæðismanna til norska varnarmálaráðuneytisins. Þátttaka Ósjálfsstæðisflokksins í stríði. Við í stríði? Við í stríði í Írak? Er þetta ekki grín? Við erum ekki einu sinni með eigin varnir. Og hvar er sjálfsvirðingin? Höfum við flúið hana?
Ósjálfstæðisflokkurinn er flokkur flótta og flokkur ríkisafskipta, Kárahnjúka. Flokkur þjófnaðar á auðlindum, flokkur gjafakvóta, flokkur gjafaorku, flokkur gjafavaxta. Flokkur okurs og ótta. Bankarnir, Landssíminn og nú heilbrigðiskerfið og Landsvirkjun. Þetta vitum við eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins. Um hitt spyrjum við, Þjórsárver, Landmannalaugar, Gullfoss – hvað næst?

Við skulum ekki tala um Framsóknarflokkinn, hann er ekki um neitt. Segist vera "þjóðlegur miðjuflokkur" en myndi glaður eyða Þjórsárverunum ef það þjónaði réttum hagsmunum. Svo ruglaður í ríminu er formaður Framsóknarflokksins að um yfirtöku Alcoa á Alcan upp á 2.100 milljarða segir hann í Mogga í gær að ríkisstjórnin muni tryggja að ekki verði um að ræða valdasamþjöppun gagnvart Íslendingum. Mikið er það hughreystandi að eiga Framsóknarflokkinn að. Við eigum ekki að þurfa að hafa áhyggjur gagnvart þessum stærsta álhring í heimi. Ef hann svo mikið sem andar á okkur þá sé Valgerði Sverrisdóttur og Jóni formanni að mæta! Er það þetta sem menn kalla víðáttubrjálæði? Skyldi skrifstofa iðnaðarráðherra vera mjög stór? Eða stendur formaður Framsóknar alltaf utandyra – er hann alltaf utangátta?

Þegar við undrumst og verðum jafnvel döpur yfir því að vera ekki enn orðinn stærsti flokkur á Íslandi  þá skulum við hugsa og ígrunda það sem liðið er. Baráttufólki fyrri tíðar tókst ekki alltaf að ná meirihlutafylgi í þjóðfélaginu. En því tókst að sjá til þess að byggt var gott íbúðarhúsnæði fyrir það fólk sem bjó í heilsuspillandi bröggum. Því tókst að opna fyrir öllum gott heilbrigðiskerfi. Því tókst að opna öllu samfélaginu dyrnar að menntun og menningu. Þetta voru afreksverk fyrri tíðar  – okkar eldri félagar ættu að bera heiðursmerki velferðarsamfélagsins.

Það er alltaf gott að horfa annað veifið til liðins tíma. En í stjórnmálabaráttunni horfum við fram á við. Það magnaða er að gerast að inn á vettvang stjórnmálabaráttunnar eru að stíga sókndjarfar sveitir fólks – ekki bara fólks sem er ungt að árum heldur fólks á öllum aldri sem er brennandi og ungt í anda. Guðfríður  Lilja sagði í stórgóðum sjónvarpsþætti í gær að ung hefði hún komið erlendis frá með bjartsýni í sinni – séð framtíðina blasa við bjarta og gjöfula á óþrjótandi tækifæri og möguleika í okkar góða landi – hún sagði líka að í heiminum væri þörf á rödd mannréttinda og friðar. Fátækt f'ólk og kúgað um heiminn allan þráði að heyra slíka rödd - við ættum að vera sú rödd.

Við í Vinstri grænum trúum á einstaklinginn, á einstaklingsfrelsið og samhjálp einstaklinganna. Við trúum því að ef efnahagsástandið er stöðugt, vextir lágir, gjaldmiðillinn rétt skráður, kvótinn heima í héraði, bankar hófsamir (Sparisjóður Svarfdæla skilaði 10 sinnum meiri gróða en Kaupþing miðað við starfsmannafjölda), verðbólgan lág og - stemningin góð, þá munu einstaklingarnir sjá um sig. Við Vinstri græn viljum ekki segja þjóðinni fyrir verkum. Vinstri græn vilja láta þúsund blóm blómstra, líka fjallagrösin.

Við viljum auka jöfnuð og fjölga tækifærum. Við viljum hreinsa til í samfélaginu, útrýma spillingu og misrétti. Við ætlum að sópa út og gera hreint. Það er augljóst að margir kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafa orðið ástfangnir af honum við lélegt ljós. Við ætlum að kveikja ljósið. Við ætlum að leggja okkur fram um að gera þjóðfélagið bjart og ærlegt. Við erum flokkur bjartsýni. Við trúum á heiðarleika og sanngirni. Við trúum á nýja tækni og ný tækifæri. Við viljum hjálpa til að tryggja öllum vinnu, vel borgaða vinnu, skemmtilega vinnu. Við viljum losna við "isma" stjórnarflokkanna, sem ekkert sjá annað en stálbræðslur og álbræðslur og stóriðju, sem við þurfum að borga með stórfé.

Núverandi stjórnarflokkar munu ekki koma auga á ný tækifæri þegar þau birtast; þeir eru svo uppteknir að semja um nýjan taprekstur fyrir Landsvirkjun. Þeir eru svo uppteknir við að gefa auðlindir og líkna hinni sísvöngu auðmannastétt.  Þjóðfélag núverandi ríkisstjórnarflokka verður aldrei öðruvísi en þetta. Burtséð frá því hverju þau lofa og hvað þau segja. Hin bjartsýnustu meðal þeirra búast jafnvel við enn meira misrétti, á næstu árum. Við, sem þau kalla svartsýnismenn í þessum efnum, vitum að þau hafa rétt fyrir sér. Þau vilja efla auðstéttina og gera auðmennina frjálsa. Við viljum gera alla frjálsa.

Til eru þeir sem vinna  verkin og svo hinir sem eigna sér heiðurinn. Nú er komið að því að skila heiðrinum til baka til þjóðarinnar.

Það er auðvelt og það er gott að vera vinstri græn.
Ég held að þjóðin sé nær öll með okkur.
Ég held að innst inni vilji allir hafa flokk sem passar upp á náttúruna og umhverfið.
Ég held að innst inni vilji enginn að á Íslandi  sé fátækt fólk og ég held að innst inni vilji allir að við séum öll á sama bátnum, að á Íslandi ríki jöfnuður og réttlæti.

Þetta er okkar málstaður.
Þetta er málstaður okkar allra.
Við heyrum það á vinnustöðunum.
Við heyrum það á torgunum.
Þess vegna vitum við að sigurinn bíður okkar.
Hann bíður eftir því að við náum í hann.

Við höfum tvo daga til stefnu.
Tveir dagar duga til sigurs.
Við vitum það.
Við vitum að ef við tökum höndum saman.
Ef við hvert og eitt og við öll -
ef við í sameiningu sækjum fram -
þá mun það takast -
þá mun takst að tryggja Vinstrihreyfingunni grænu framboði glæsilegan sigur 12. maí.

Látum þetta gerast.
Lokasóknin er hafin.