Fara í efni

LJÓTUR LEIKUR ERDOGANS

Erdogan
Erdogan


Í apríl kjósa Tyrkir um tillögur Erdogans forseta síns um nýja stjórnarskrá sem færir honum svo mikil völd í hendur að mannréttinda-  og lýðræðissinnum hrýs hugur við.
Samkvæmt skoðanakönnunum hefur Erdogan verið heldur undir en andstæðingar stjórnarskrárbreytinga ofan á.

Slíka stöðu þekkir Erdogan vel. Í þingkosningum í júní árið 2015, missti hann meirihluta á tyrkneska þinginu en Lýðræðisfylkingu Kúrda, HDP, vegnaði hins vegar afar vel.

Hvað var þá til ráða?

Það haldreipi sem forsetinn greip í, var að skerpa andstæður í stórnmálunum.

Friðarferli gagnvart Kúrdum var sett til hliðar og þeir að nýju beittir hernaðarofbeldi, sem svo aftur styrkti stöðu þeirra aðila Kúrdamegin, sem vilja láta vopnin tala.

Niðurstaðan varð síðan ótryggt ástand en svar við slíkri stöðu átti að vera sterkari stjórn; forseti með meira fylgi á bak við sig. Út á þetta gekk hugsun Erdogans að því er margir fréttaskýrendur telja.

Svo virðist sem Erdogan sé að leika þennan sama leik að nýju en nú á áróðurs- og átakavelli sem nær út fyrir tyrkneska landsteina. Nú beinir Erdogan sjónum að öllum þeim fjölda Tyrkja sem flust hafa til Evrópuríkja á borð við Þýsklaand, Holland og Danmörku.

Þýsk og hollensk stjórnvöld segir hann vera fasísk og nasísk, því þau vilji ekki leyfa tyrkneskum ráðherrrum að tala máli nýrrar stjórnarskrár á fundum í þarlendum bæjum og borgum.

Deila má um hve skynsamlegt er að banna fundahald af þessu tagi, bæði má deila um það af prinsippástæðum en einnig praktískum, því með þessu móti má ætla að áform Erdogans gangi betur upp: „Það er verið að ofsækja Tyrki, nú er þörf á samstöðu. Stöndum saman, styðjum Erdogan."

Þetta er háskalegur og ljótur leikur og minnir á hve mikilvægt það er að samfélög heimsins hugsi sinn gang og ræði það af alvöru hvernig við stöndum best vörð um gildi mannréttinda- og lýðræðis.

Sú umræða er mjög aðkallandi. En hún þarf engu að síður að fara fram með hægðinni og af mikilli yfirvegun. Menn þurfa að minnast þess að hinn ljóti leikur gengur einmitt út á að hræra upp í tilfinningunum, skapa óróa og sundrungu. Þá muni margir sjá þörfina á hinum sterka foringja.