Fara í efni

Ljósglæta í máli utanríkisráðherra

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, var beðinn um að fílósófera um utanríkismál í útvarpsþætti í dag. Hvaða erindi ættu Íslendingar að hans mati í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna? Þetta lék þáttastjórnendum forvitni á að vita. Við erum friðelskandi, sagði Halldór, og við erum trúverðug.
Það er nefnilega það. Gleymum því ekki að maðurinn er að tala um sjálfan sig; utanríkisstefnuna eins og hún hefur verið borin uppi af núverandi ríkisstjórn og þá ekki síst utanríkisráðherranum, Halldóri Ásgrímssyni.
En hvað skyldi Halldóri þykja um Öryggisráðið? Ekki stóð þar á svari. Öryggisráðið hefur ekki staðið sig nógu vel, að mati okkar manns. Helst er ámælisvert hvernig neitunarvaldi hefur verið beitt þar í seinni tíð. Hlustendum hefur eflaust flestum orðið hugsað til Bandaríkjastjórnar, sem hefur beitt neitunarvaldi oftar en aðrar þjóðir í Öryggisráðinu, einkum í þágu Ísraelsstjórnar. Nei, það voru ekki Bandaríkjamenn helodur Frakkar sem Halldór Ásgrímsson hafði í huga. Þeir hefðu leikið ljótan leik á síðasta ári í tengslum við árásina á Írak. Eins flestir muna reyndu Frakkar í lengstu lög að koma í veg fyrir að Bandaríkjamenn og Bretar þvinguðu Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna til að samþykkja árás á grundvelli upplýsinga, sem nú hefur sannast að voru byggðar á lygum! Umsækjandinn um setu í Öryggisráðinu beinir með öðrum orðum spjótum sínum fyrst og fremst að þeim sem vildu sporna gegn árásinni á Írak. 
Hinn friðelskandi og trúverðugi utanríkisráðherra Íslands hafði þó eitt hughreystandi fram að færa. Hann kvað það að vísu svolítið undarlegt að vera að vinna að máli sem hann myndi ekki sjálfur njóta góðs af þegar til kastanna kæmi, því hann yrði þá horfinn af stóli utanríkisráðherra.
Þetta er bót í máli, ljósglæta á máli utanríkisráðherra. Ætli sé ekki fleirum svo farið en mér að mega ekki til þess hugsa að utanríkisstefnu þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar verði framfylgt í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í nafni íslensku þjóðarinnar?.