Fara í efni

LÍTIÐ DÆMI UM FAGMENNSKU

Í stórgóðri grein sem birtist hér á vefsvæðinu fjallar Björn Jónasson um þá fortíð sem við nálgumst hröðum skrefum. Það er vond framtíð. Í grein sinni fjallar Björn meðal annars um "hina faglegu" og segir þetta: "Þessa stétt mynda hinir efnameiri í samfélaginu, ásamt embættismönnum og stjórnmálamönnum, sem sagt þeir sem hafa lifibrauð af því að halda óbreyttu ástandi." Hér vantar einn hóp, stéttina sem sér um vitundariðnaðinn, fréttamennina, sem búið er að kengbeygja í óttastjórn þeirra sem ráðið hafa í aldarfjórðung. Sammerkt virðist vera "hinum faglegu" að eiga erfit með að fóta sig á siðferðissvelli. Hér er lítið dæmi. Heilbrigðisráðherra tilkynnir að hún hyggist veita embættismanni áminningu. Af spinnst nokkur umræða uns "hinir faglegu" grípa til sinna ráða. Fréttamaður opnar míkrófón fyrir stjórnsýslufræðingi sem óðar bakkar ráðherrann upp. "Hinn faglegi" stjórnsýslufræðingur átti aldrei að hringja inn á viðkomandi fréttastofu og bjóða sig fram til viðtals. Það átti hún ekki að gera af þeirri einföldu ástæðu. að hún sótti um embættið sem sá situr í, sem nú á að fá áminningu. Stjórnsýslufræðingurinn fékk ekki stöðuna og hlaut ekki náð fyrir augum stjórnar viðkomandi stofnunar sem gerði tillögu til ráðherra um ráðningu áminningarmannsins. "Hinn faglegi" rann á siðferðissvellinu og tjáði sig fjálglega þegar hún átti að þegja í stað þess að bjóða fram umsögn sína. Fréttmaðurinn átti ekki að taka viðtalið, eða ekki að útvarpa því nema að láta þess getið sem hér er sagt. Þau eru kannske góð á bókina sem skreyta sig með faglegheitunum, en eru stundum siðferðislega eins og beljur á svelli.
Ólína