Fara í efni

Leikreglur ber að virða

Sæll Ögmundur.
Hvernig ætlar stjórnarandstaða að réttlæta það fyrir þjóðinni og forsetanum að forseti landsins er ítrekað vanvirtur af hálfu ráðherra og þingmanna meirihluta þings en ég tel að stjórnarandstaðan taki þátt í þeim ljóta leik ef hún leggur blessun sína yfir þá gjörð að ganga framhjá ákvörðun forsetans um að vísa málum til þjóðarinnar?
Leikreglur ber að virða.
Munt þú beita þér gegn þeirri aðför sem gerð er nú, ekki aðeins að embætti forsetans heldur einnig persónu hans eins og meirihluti þingsins hefur ítrekað gert undanfarna mánuði?
Ef stjórnarandstaðan stendur ekki vörð um 26. greinina er þá hægt að bera meiri virðingu fyrir henni en meirihlutanum?
Hvað verður næst ráðist á? Öryrkjar hafa fengið sinn skammt. Launþegar. Nú forsetaembættið og persónan sem gengir því.
Ég tel að rangt sé haft við og efast stórlega um þá miklu sátt sem menn tala um. Það er munur á sátt og þreytu. Þó öldur lægi um stund þá er þegar búið að boða áframhaldandi stríð á haustþingi.
Ég vil hvetja þig til að skoða afleiðingar þess að taka þeirri "sátt" sem stjórnin býður.
Með baráttukveðju,
Hafþór Baldvinsson

Heill og sæll Hafþór og þakka þér fyrir bréfið. Ég tek undir með þér að mjög ámælisvert er hvernig sumir þingmenn og ráðherrar ráðast ómálefnalega að forseta Íslands. Varðandi fjölmiðlafrumvarpið og stjórnarskrána, þá þykir mér mest um vert að stjórnarmeirihlutinn skuli nú hafa ákveðið að fallast á að nema lögin úr gildi. Gangi það síðan eftir að reynt verði að skapa breiða þverpólitíska aðkomu að málinu á algerlega hreinu borði og að menn gefi sér til þess rúman tíma þá verð ég að játa að ég er sáttur. Þá tel ég að málskotsrétturinn sem kveðið er á um í 26. grein stjórnarskrárinnar hafi virkað. Ég er ekki í hópi þeirra sem tel að þessi lausn gangi í bága við stjórnarskrána. Þvert á móti tel ég að þau markmið sem þar er kveðið á um hafi náð fram að ganga með þessari málsmeðferð.

Kveðja,
Ögmundur