Fara í efni

LÁTUM BANKASTJÓRANA SVITNA

Það er hræðilegt að sitja fjarri heimalandinu og heyra reiði fólks út í bankana, eftirlitsaðila og stjórnvöld. Réttara sagt að upplifa í blöðum og frá frændfólki og vinum hversu ráðalaus almenningur virðist vera heima á Fróni. Það er enda ótrúlegt að sjá stjórnvöld mjaka sér, eða aka, áfram án þess að láta til sín taka augljós lagabrot sem bankamennirnir virðast vera sekir um. Ein leið til að stokka upp er að kjósa til Alþingis að nýju en það þorir ríkisstjórnin ekki af skiljanlegum ástæðum. Almenningur á hins vegar vopn sem hann getur beitt til að knýja menn til aðgerða. Almenningur getur til dæmis myndað samtök sem hafa að markmiði að þurrka upp innlán Kaupþings banka hins nýja og taka út allar innistæður sínar til að þvinga fram vilja sinn en þá held ég að fari um Gvend og meyna. Menn geta svo lagt þar inn aftur ef stjórnvöld bregðast við. Þannig geta menn í verki fellt einn bankann eftir annan ef þeir kjósa svo. Vilji menn hafa sparifé sitt á vöxtum geta menn lagt inn lítilræðið í trausta sparisjóði og gert þá að stórveldum. Annað sem almenningur getur gert. Menn geta til dæmis hætt að kaupa inn í Bónusverslununum í hálfan mánuð eða þrjár vikur og beint viðskiptum sínum annað ef þeir vilja að bónusdrengurinn fái að finna til tevatnsins. Það þarf ekkert að leita sökudólganna því allir vita hverjir þeir eru nema kannski ráðherrarnir og meðreiðarsveinar þeirra. Ég legg sem sé til að við byrjum á einum banka, tökum allar innstæðurnar út og flytjum þær í sparisjóð og sjáum hvað gerist. Það má byrja á Kaupþingsbankanum.
Ólína