Fara í efni

Langveik börn - leið til lausnar

Birtist í Mbl
Félagið Umhyggja efndi til ráðstefnu um síðustu helgi þar sem fjallað var um þann vanda sem við væri að glíma fyrir langveik börn og aðstandendur þeirra. Ráðstefnan var til mikillar fyrirmyndar og kom fram mjög upplýsandi efni. Sýnd voru viðtöl við langveik börn og aðstandendur þeirra sem varla létu nokkurn ráðstefnugesta ósnortinn. Á meðal þeirra sem sátu í pallborði ráðstefnunnar voru læknar og aðstandendur.

Óhagstæður samanburður við Norðurlönd

Almennt var mjög jákvæð afstaða gagnvart heilbrigðiskerfinu hér á landi og vildu menn sýnilega leggja áherslu á að góð þjónusta og aðhlynning væri veitt á íslenskum sjúkrastofnunum. Þá kom fram að með nýrri fæðingarorlofslöggjöf var rýmkaður réttur til launaðs fæðingarorlofs vegna alvarlegs sjúkleika barns. Þá var réttur til launalausrar fjarveru frá vinnu einnig rýmkaður.

Þessar réttarbætur tengdar fæðingarorlofinu eru vissulega mikilvægar. Hitt er þó staðreynd að hugtakið langveikur er ekki notað að ófyrirsynju. Um er að ræða ástand sem getur varað árum saman. Í því samhengi þarf að spyrja um réttinn til launaðrar fjarveru frá vinnu. Í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar er langt í land að við komumst með tærnar þar sem þær hafa hælana.

Á öllum Norðurlöndum að undanskildu Íslandi heldur annað foreldri, í sumum tilvikum báðir foreldrar, launum mánuðum saman á meðan þeir sinna börnum sínum. Í Svíþjóð eru 90% laun greidd í 120 daga á ári fyrir hvert barn að 16 ára aldri; í Finnlandi 66% af launum í 60-90 daga og lengur ef nauðsyn krefur, t.d. vegna barna með krabbamein og er heimilt að greiða báðum foreldrum ef nauðsyn krefur; í Danmörku eru greidd 90% launa annars foreldris á meðan meðferð stendur yfir og er heimilt að greiða launauppbót í þrjá mánuði eftir að forsendur bresta. Sérstök uppbót er greidd til atvinnulausra. Í Noregi eru greidd laun í allt að 780 daga (100% laun í 260 daga og síðan 65% laun í 520 daga) fyrir hvert barn til 16 ára aldurs. Ísland sker sig úr að þessu leyti því rétturinn er að hámarki aðeins 10 dagar og tekur til barna 13 ára og yngri. Þessa 10 daga hefur foreldri rétt til að vera fjarvistum frá vinnu til að sinna veikum börnum sínum einu eða fleiri án tillits til hver sjúkdómurinn er.

Hvers vegna er ekki ráðin á þessu bót?

Nú er rétt að velta því fyrir sér hvað standi í vegi fyrir því að úr þessu verði bætt. Mín tilfinning er sú að í samfélaginu sé almennt vilji fyrir úrbótum og að sá vilji sé þverpólitískur. Hins vegar hefur vafist fyrir mönnum hvaða leiðir eigi að fara við fjármögnun og fyrirkomulag. Flestir gera sér grein fyrir því að ef vel ætti að vera þyrfti að verja umtalsverðu fjármagni til þess að tryggja stöðu langveikra barna (Á fyrrnefndum fundi var þó bent á það ósamræmi sem væri í því að langveikum fullorðnum einstaklingi væri þar sem best léti tryggð margra mánaða fjarvera á launum í veikindum en barni viðkomandi sem óneitanlega væri háð foreldri sínu væru aðeins tryggðir 10 dagar). Tvær leiðir hafa þótt koma til álita til að ná þessu marki, annars vegar að greiðslur fari í gegnum almannatryggingar og hins vegar að launagreiðandinn tryggi réttindin. Í kröfum samtaka launafólks hefur verið hamrað á því fyrst og fremst að úr þessu verði bætt. Þannig lögðu BSRB, BHM og KÍ í síðustu samningum um réttindamál áherslu á að lágmarksréttur foreldra vegna alvarlegra veikinda barna yrði tveir mánuðir án skerðingar launa. Ekki náði sú krafa fram að ganga. Á Alþingi hefur einnig án árangurs verið flutt tillaga til þingsályktunar þar sem krafist er réttarbóta á þessu sviði. Undirritaður er samflutningsmaður Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri að þeirri tillögu. Þrátt fyrir þessa viðleitni hefur lítið þokast í málinu.

Leið BSRB

Ljóst er að ef fara á þá leið að tryggja launaða fjarvist um langan tíma verður það ekki lagt á lítil fyrirtæki eða stofnanir að standa straum af slíku. Þau réðu hreinlega ekki við slíkt og þar af leiðandi gengur sú leið ekki upp að launagreiðandinn verði beint og milliliðalaust gerður ábyrgur. Hér þarf að koma til nýtt tryggingafyrirkomulag sem allir væru skyldaðir til að greiða til á svipaðan hátt og í lífeyristryggingum sem taka til launafólks og atvinnurekenda.

Í annan stað er ljóst að almannatryggingakerfið getur ekki mismunað í útgreiðslum eins og óhjákvæmilega þyrfti að gera ef tryggja ætti foreldrum laun eða hlutfall af raunverulegum launum á veikindatímanum. Almannatryggingakerfið hlýtur ævinlega að greiða jafnar greiðslur án tillits til launatekna.

Í umræðum sem fram hafa farið um þetta mál innan BSRB varð niðurstaðan sú að þá aðeins væri réttlætanlegt að mismuna í útgreiðslum að mismunað hefði verið í inngreiðslum svipað og gerist í fæðingarorlofssjóðnum. Sá sjóður byggist á tryggingagjaldi sem er hlutfall af launum. Á nákvæmlega sama hátt mætti fara með greiðslur til að tryggja rétt langveikra, jafnvel í fæðingarorlofssjóðnum eða í hliðargrein af honum. Þar með mætti einnig tryggja áframhaldandi ávinnslu lífeyrisréttinda og annarra réttinda sem aðstandendur langveikra barna fara nú varhluta af.