Fara í efni

LANDAKOT OG IÐNSKÓLINN: SJÁLFSTÆÐISFLOKKUR EINKAVÆÐIR Í KYRRÞEY


Guðlaugur Þór, einkavæðingarráðherra heilbrigðismála, afgreiðir nú á færibandi kröfur einakfyrirtækja að fá til sín ýmsa rekstrarþætti heilbrigðiskerfisins, nú síðast heila deild á Landakoti. Ríkiskaup annast verkið samkvæmt pöntun. Gefinn er frestur frá því auglýsing birtist hinn 26. febrúar til 11. mars. Það er hálfur mánuður. Guðlaugur þór segir að hann sé að bæta þjónustu með því að afhenda gamla fólkið einkafyrirtækjum til ráðstöfunar úti á markaðstorgi. Allt í anda góðra viðskiptahátta.  En skyldu það þykja góðir viðskiptahættir í viðskiptalífinu að gefa  fyrirtækjum hálfsmánaðar frest til að íhuga tilboð? Ég hefði haldið að það þætti ekki gott nema hvað það hentar prýðilega fyrirtækjum sem eru í startholunum, ég tala nú ekki um ef þau hafa „inside" upplýsingar.  Fróðlegt verður að sjá hverjum  öldrunardeildin á Landakoti er ætluð.
Á öðrum stað er annar ráðherra að verki. Þorgerður Katrín, menntamálaráðherra, vinnur að því að flytja starfsmenn Iðnskólans úr opinberu umhverfi yfir í háeeff. Samkvæmt mínum heimildum verður það gert við hátíðlega athöfn á morgun. Boðað er að fólkinu verði auðveldað að renna þessum bita niður með léttum veitingum, sem svo eru kallaðar.  Ekki veit ég hvort starfsfólki finnst þetta vera tilefni þess að efna til fagnaðar.
Ég hlakka til að heyra fjölmiðlana spyrja menntamálaráðherra útúr. Til dæmis hvort henni finnist ekki ástæða til að ræða svona nokkuð á Alþingi og fá þar lagalega heimild til verkanna. Eða hvort hún telji sig sleppa framhjá lögunum. Getur það verið? VG hefur óskað eftir utandagsrárumræðu. Þar mun Kolbrún Halldórsdóttir, málshefjandi, eflaust spyrja út í lögin og sennilega einnig siðferðið. Eru þetta siðleg vinnubrögð, eru þetta lýðræðisleg vinnubrögð?
Hvað skyldi þögla félaganum í ríkisstjórn finnast? The silent parner, sem samþykkir allt með þögn sinni. Skyldi Samfylkingin yfirleitt nokkuð fylgjast með eða er henni sama svo lengi sem hún fær að verma stólana í Stjórnarráðinu? Ætlar hún að þegja svo lengi sem það verður? Heldur þykir mér þetta vera aumt hlutskipti.