Fara í efni

LÆKNARITARAR HAFA EKKI NOTIÐ SANNMÆLIS

Mig langar til að koma á framfæri þakklæti að einhver skuli fást til að taka upp hanskann fyrir okkur læknaritara. Það er mikið talað um hjúkrunarfólkið sem er full þörf á því ekki er það of sælt af sínum launum, en við læknaritarar sem höldum utan um ferli þeirra sem til heilbrigðisstofnana leita, höfum ekki notið sannmælis og ekki fengið hljómgrunn fyrir óánægju okkar fyrr en Ögmundur Jónasson fór að leggja orð í belg og benda á að þessi stétt væri til. Það er engan veginn hægt að lifa á þeim launum sem greidd eru fyrir þessa vinnu, enda þurfum við flestar sem ekki erum í aukavinnu einhversstaðar úti í bæ að eiga góða fyrirvinnu. Ja hérna og það er árið 2008. Skammsýnin, skilningsleysið og lítilsvirðingin sem ráðamenn spítalanna sýna þessari stétt er með eindæmum. Okkur er gert að leggja á okkur tveggja ára strangt framhaldsnám eftir stúdentspróf til þess að geta kallað okkur læknaritara og svo koma „einhverjir" hrokagikkir úr spítalageiranum og segja hvern sem er geta unnið þetta starf og ætla svo að bjóða vinnuna okkar út til fyrirtækja úti í bæ því það sé hagræðing og sparnaður! Ég þori að fullyrða að svona þjónusta hjá einkafyrirtæki á eftir að verða ríkisgeiranum dýrkeypt. Ef til vill er þetta bara undanfari einkavæðingarinnar á heilbrigðisgeiranum, nú og svo dettur manni í hug að þetta sé eitthvað útspil þar sem samningar eru lausir og það eigi bara að halda þessum „kerlingum" á mottunni. Það eru jú bara „kerlingar" sem vinna í þessum geira því það myndi ekki einn einasti karlmaður sætta sig við að fá ekki nema 140.000 kr. útborgaðar um hver mánaðarmót.
hp