Fara í efni

"KVERÓLANTAR KVEÐJA"

Það er einfaldlega þannig að meðal vinstri manna eru margir kverólantar. Þetta fólk virðist ekki hika við að fórna hagsmunum almennings eða umbjóðendum sinna ef það þjónar persónulegum skoðunum þess. Þingmenn VG verða að gera sér grein fyrir því að það er krafa kjósenda þeirra að stjórnin haldi út kjörtímabilið. Þessi ríkisstjórn er að gera marga mjög góða hluti við gífurlega erfiðar aðstæður þar sem fortíðardraugar beita öllum hugsanlegum ráðum til að ná aftur völdum. Steingrímur J Sigfússon, Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir og Ögmundur Jónasson hafa mikið persónufylgi og draga að því leyti vagninn fyrir VG. Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir hafa ekki áunnið sér fylgi heldur komist á þing vegna styrks flokksins. Þau væru bæði heiðarleg ef þau segðu af sér þingmennsku. Þau eru greinilega ekki lengur á þingi í umboði kjósnda sinna.
Pétur

Þarna ferð þú villur vegar ef þú heldur að Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason hafi ekki mikinn stuðnnig við sín sjónarmið í hópi þeirra sem kusu VG. Það gera þau ekki síður en þeir ráðherrar VG sem þú telur upp. Gleymdir að vísu einum, Jóni Bjarnasyni, sem hefur mikinn stuðning í landinu við sín sjónarmið. Þetta með kverúlantatalið birti ég að sjálfsögðu af virðingu fyrir málfrelsinu en leyfi mér að taka þessi skeyti þín til mín ekki síður en þeirra því ég er ekki búinn að gleyma því að ég heyrði undir þessa skilgreiningu þína á sínum tíma þegar ég var ekki reiðbúinn að kyngja Icesave samningnum og ræddi gagnrýnið um AGS og ýmsa aðra umdeilda þætti í stefnu stjórnarinnar. Þetta munum við báðir. Munum líka að orð eru dýr, ekki síst þessa stundina.
Kv.
Ögmundur