Fara í efni

KVEÐJUR TIL BSRB ÞINGS: BARÁTTA ER TIL GÓÐS

BSRB logo 2015
BSRB logo 2015
Í fyrsta skipti í þrjátíu og fimm ár voru aðstæður mínar þannig að ég gat ekki verið viðstaddur opnun þings BSRB sl. miðvikudag.
Hugurinn leitar hins vegar  til góðra félaga og sendi ég þinginu kveðju sem ég birti hér að neðan.
Það er mér umhugsunarefni þegar ýmsir andstæðingar jafnaðarþjóðfélagsins  - menn sem hömuðust á því mánuðum saman að kjarabarátta launafólks væri af hinu illa - sameinast um að tala niður allt sem heitir kjarabarátta. Ef launafólk hefði ekki risið upp eins og raunin varð í nánast öllum verkalýðssamtökum landsins, hefðu þessir aðilar komist upp með að hneppa launaþjóðina í kyrrstöðu og undirgefni. Kjarabaráttan snýst nefnilega ekki bara um laun heldur líka viðhorf og framkomu við það fólk sem í hinu daglega lífi hefur ekki völdin á hendi. Eða eru menn nokkuð búnir að gleyma glósum hátekjumanna þegar Starfsgreinasambandið hóf sína baráttu fyrir nokkrum mánuðum?
BSRB félög hafa nú staðið í strangri baráttu fyrir bættum kjörum og bættum vinnubrögðum. Vonandi hefur sú barátta skilað góðum árangri.
Kveðja mín sem ég sendi BSRB þinginu:  

Kæri formaður BSRB,
Góðir félagar!
Því miður er ég nú fjarri góðu gamni, á leið í kosningaeftirlit á vegum Evrópuráðsins í Azerbaijan og get fyrir bragðið ekki verið með ykkur að fagna þingbyrjun hjá BSRB.
Er það í fyrsta skipti síðan 1981 að ég er ekki viðstaddur setningu bandalagsþings.

Ég sendi ykkur hugheilar óskir um gott og gefandi þing og baráttukveðjur inn í framtíðina.
Fréttamiðlar bera okkur þær fréttir að nú skuli reynt að setja viðræðuferlin í markvissari og skaplegri farveg en við búum við nú. Óskandi er að það takist, þannig að markmið um bætt kjör og aukinn jöfnuð nái fram að ganga.

En mig langar til að trúa ykkur fyrir því að ég hef séð það í augunum á sumum viðsemjenda launafólks, að þeir trúa því að með haganlega smíðuðu kerfismódeli megi útrýma stéttabaráttunni.

Það er mikill misskilningur. Það er líka misskilningur að verkföll séu alltaf slæm. Þau eru öryggisventill gegn ranglæti og síðan er það hitt:  Þau minna handhafa fjármagns og valds á það, að þeirra er ekki sjálfkrafa mátturinn og dýrðin.
Það sem skiptir mestu máli er, að fyrir tilstilli baráttunnar finnum við blóðið renna í æðum okkar. Ofan á slíkt fólk er ekki auðveldlega stigið.

Verkföll breyta valdahlutföllum, inni  á vinnustöðum og  í þjóðfélaginu í heild sinni. Kjarabarátta undangenginna mánaða hefur verið góð fyrir íslenskt samfélag og lexía fyrir sjálfumglatt sjálftökufólk sem telur að eitt eigi að gilda um sig, annað um hinn almenna mann.

Baráttu má því aldrei leggja af. Ekkert módel leysir baráttu af hólmi.
Ég veit að BSRB mun nú draga gunnfána að húni og fylkja fram á veginn sem aldrei fyrr.

Með baráttukveðjum austan úr álfu,
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi formaður BSRB og alltaf með ykkur í andanum!