Fara í efni

KÚVENDING HJÁ EXBÉ

Í lesendabréfi 25. apríl hvatti ég alla til að kynna sér stefnuskrá EXBÉ fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Orðrétt var niðurstaða mín um plaggið þessi:

“Ekki tekst betur til en svo að hugmyndasmiðirnir skila til kjósenda berrössuðum flokki, hugsjónalausum og klyfjuðum sviknum loforðum. Þetta gera þeir m.a. með endurvinnslu á gömlum og innantómum slagorðum. Þá skreyta þeir plaggið með stolnum fjöðrum úr smiðjum annarra framboða, stundum bregða þeir einfaldlega á leik sér og öðrum, nema þá kannski einhverjum framsóknarmönnum, til nokkurrar skemmtunar. Og þegar allt um þrýtur gefa þeir loforð um merkilegar framkvæmdir en sem þegar eru orðnar að veruleika. Hér á eftir verður stiklað á stóru til frekari kynningar á stefnuskránni og ofangreindum niðurstöðum til stuðnings.”

Allt stendur þetta eins og stafur á bók þótt ekki ætlist ég til þess að forkólfar Framsóknar opni sig á opinberum vettvangi þar um. Þeir hafa þó aðeins séð að sér. Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður háttvirts forsætisráðherra og orðhvatur fulltrúi hans - borgarforinginn sem síðan í haust hefur leikið hinn friðsama og sanngjarna leiðtoga með misjöfnum árangri - hefur nú brotið odd af oflæti sínu í einu máli og farið að réttmætum ábendingum mínum. Tengist það umfjöllun minni í ofangreindu bréfi að lofa í svokallaðri stefnuskrá ákveðnum málefnum sem borgaryfirvöld hafa þegar unnið að, málum sem eru í góðum farvegi, og þarfnast engrar sérstakrar endurvinnslu. Orðrétt sagði ég m.a.:

“Þannig boðar Framsóknarflokkurinn nú “sjóminjasafn á Grandagarði”, safn sem var formlega opnað með pompi og prakt fyrir ári síðan, einmitt á þeim stað sem Framsóknarframboðið telur ákjósanlegan. Þeim mun meira kemur þetta á óvart þar sem forstöðumaður Sjóminjasafnsins heitir Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknar, en stöðuna fékk hún að sjálfsögðu án þess að borgaryfirvöld létu svo lítið að auglýsa starfið. Þetta hefðu nú Björn Ingi og félagar átt að vita en þeir hafa kannski ekki lesið stefnuskrána nægilega vel enda í mörg horn að líta þessa dagana.”

Nú hafa þau tíðindi gerst að EXBÉ hefur leiðrétt kúrsinn í sjóminjasafns-málinu. Stefnuskráin hefur breyst. Í dag les ég nefnilega, ef marka má endurbætta netútgáfu stefnuplaggsins um þetta mál að framsóknarmenn hafa fallið frá því að byggja “sjóminjasafn á Grandagarði”, nú er boðuð “Stækkun Sjóminjasafns á Grandagarði.”

Aðstandendur EXBÉ virðast hafa áttað sig á því að ekki er hægt að bjóða kjósendum upp á ýmsa “smávægilega” feila, rangfærslur ef ítrustu kurteisi er gætt í orðavali, því auðvitað hlýtur fólk að spyrja: hvað liggur að baki stóru stefnumálunum fyrst sláandi óvandvirkni og flumbrugangur blasir meira segja við í þeim málum sem kalla má minni, en eru afar merkileg engu að síður, því að vitanlega eru þau hluti af þeirri heildarmynd sem framboðið státar af og býður kjósendum upp á.

En talandi um stækkun safnsins; er virkilega þörf á að stækka Víkina, sjóminjasafn okkar Reykvíkinga? Svo segir Framsókn í dag og það er svo sem rökrétt hjá EXBÉ að bjóða upp á stækkun fyrst ekki var hægt að lofa því að stofna safnið og reisa það frá grunni. Það segir sig a.m.k. sjálft að fremur neyðarlegt hefði það auðvitað verið bjóða upp á minnkun safnsins eftir það sem á undan var gengið. Varðandi stækkun safnsins hins vegar, sem forsvarsmenn EXBÉ telja nú eitt af brýnu málunum, er ekki úr vegi að rifja upp hvað forstöðumaður safnsins, Sigrún Magnúsdóttir fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknar sagði um sýningarrýmið í viðtali við Morgunblaðið 29. júní 2005: “Markmið okkar er að allt húsnæðið verði komið í lag eftir tvö ár og við getum þá fullnýtt sýningarrýmið. Við erum hér með rúma 1.800 fermetra fyrir sýningarsvæði en þessi sýning nú tekur um 500 fermetra.” Sjóminjasafnið virðist sem sagt alls ekki illa haldið í fermetrafjölda talið - sjálft sýningarsvæðið eru heilir 1800 fermetrar þegar öllu er til skila haldið! Ekki getur það talist dónalegt pláss þegar horft er til gamalgróinna safnahúsa og helstu menningarhúsa þjóðarinnar. Þannig er til að mynda nýendurbyggt Þjóðminjasafn Íslands við Suðurgötu 4.600 fermetrar alls en hversu stór hluti þess telst til sýningarsvæðis er mér ókunnugt um. Og Safnahúsið gamla við Hverfisgötu, sem kallast nú Þjóðmenningarhús, er 2020 fermetrar. Það hýsti allt til ársins 1994 Landsbókasafn Íslands, handritadeild safnsins og hluta Þjóðskjalasafns Íslands þar að auki. En vert er að halda því til haga að um þær mundir var orðið vægast sagt afar þröngt um þá gríðarlegu og umfangsmiklu starfsemi sem fram fór í því gamla og glæsilega húsi.

Í þessu ljósi –  í ljósi "stóra" sjóminjasafnsmálsins, og er þá bara um að ræða eitt mál af mörgum - staðfestist enn og aftur að Framsókn í Reykjavík er ekki bara lánlaus í málflutningi sínum og stefnumálum – það er eins og aðstandendum framboðsins standi nákvæmlega á sama um allan málatilbúnað og öll loforðin sem reidd eru fram á kjörborðið. Markmiðið virðist það eitt að troða sér inn í borgarstjórn Reykjavíkur með góðu eða illu. Að mínum dómi er þetta framboð, sem á fullu er pumpað upp með peningum frá stórauðvaldi Framsóknarflokksins, ekkert nema gróf móðgun við kjósendur.
Þjóðólfur

Sjá fyrri skrif Þjóðólfs um þetta efni Hér