Fara í efni

KRISTJÁN ÞÓR JÚLÍUSSON OG NIÐURSTÖÐUR KOSNINGA

Kristján Þór - small
Kristján Þór - small
Kristján Þór Júlíusson kallar eftir því í viðtali við Viðskiptablaðið að úrslit nýafstaðinna þingkosninga verði virt. Í viðtalinu segir hann að umræðan á vorþingi hafi ekki verið upp á marga fiska: „ ... þeir stjórnmálaflokkar sem kjósendur höfnuðu í vor létu eins og þeir væru ekki búnir að viðurkenna niðurstöðuna og vildu ekki horfast í augu við dóm kjósenda." Kristján Þór segir að  „tuðað" hafi verið um auðlindagjald á útgerðina á vorþingi og vísar þar til gagnrýni á ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gefa útgerðarfyrirtækjum eftir tíu milljarða á komandi fjárlagaári. Hann gleymir að nefna skuldaniðurfærsluna. Eitthvað mun hafa verið tuðað um hana.

Auðvitað er það rétt að fyrrverandi stjórnarflokkar fengu ekki þann stuðning í kosningunum sem þeir höfðu vonast eftir - í þeim skilningi var dómur kjósenda þeim ekki hagstæður. Helmingi kjósenda (ríkisstjórnin hefur mjög nauman meirihluta) þótti kosningaloforð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fýsilegri en þau sem við buðum upp á.

Þess vegna fengu núverandi stjórnarflokkar stuðning: Vegna þeirra fyrirheita sem þeir gáfu. Ekki veit ég hvort það er einhver tegund af pólitískri feimni hjá Kristjáni Þór að vilja ekki horfast í augu við að ríkisstjórnin fékk stuðning vegna eigin verðleika (meintra) og þá einkum þeirra fyrirheita sem hún gaf. Og á þeim forsendum verður hún dæmd. Ég er sannfærður um að skuldaniðurfærsluloforðið hafi vegið þyngst allra loforða. Einnig eflaust að velferðarkerfið yrði stórbætt samhliða skattaniðurfærslu.

En getur verið að Kristján Þór Júlíusson sé ekkert sérstaklega feiminn. Kannski svolítið óskammfeilinn; að hann sé að undirbúa að hlaupast undan merkjum og svíkja kosningaloforð sem urðu til þess að hann gegnir nú embætti heilbrigðisráðherra, Sigmundur Davíð embætti forsærisaráðherra og Bjarni Benediktsson embætti fjármálaráðherra?

Ef þessi verður rauinin hef ég trú á að eitthvað verði um það tuðað á þingi og kannski víðar í samfélaginu.

http://www.vidskiptabladid.is/frettir/94090/   

http://www.dv.is/frettir/2013/8/1/segir-tal-um-samraedustjornmal-hjom-eitt/

http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/08/01/eftir-sumarthingid-er-allt-tal-um-throskada-samraedu-eins-og-samraedustjornmal-eru-kollud-hjom-eitt-i-minum-huga/