Fara í efni

KRAMP

Fyrst vil ég þakka Jóni Halli Stefánssyni fyrir þýðinguna á Kramp. Það er ekki verra að ljóðskáld þýddi þessa bók. Sennilega nauðsynlegt. Því eins og Jón Hallur bendir á sjálfur í eftirmála bókarinnar þá byggir höfundurinn á aðferðfræði ljóðskáldsins:
“Við fylgjumst með því þegar telpan M býr sér til heimsmynd úr því sem hendi er næst, eins og það er orðað í sögunni. Það kemur heim og saman við skáldskaparfræði barnaljóðskáldsins Maríu José Ferrada sem notar frelsandi sjónarhorn barnsins til að skapa nýja heima við hvert fótmál í ljóðum sínum og ljóðrænum frásögnum.”

Nú ætla ég ekki að hætta mér út í diskúsjón um það sem Jón Hallur kallar skáldskaparfræði ljóðskálda. Ég ætla þó að leyfa mér að geta mér til um það að almennt talað þá sé leyndardómur ljóðsins í því fólgin að fanga hughrif og miðla miklu í fáum orðum en þannig þó að skili sér - og þegar best tekst til - beint í hjartastað.

Reyndar er það nákvæmlega þetta í orðsins fyllstu merkingu sem höfundur þessarar bókar glímir við. Lítil stúlka lærir að nota orð eða þá engin orð, þögnina, svipbrigðin og svipbrigðaleysið til að segja mikla sögu með tilætluðum áhrifum.

Kramp er stórvel skrifuð bók. Hún er full af ósögðum orðum en líka frábærlega vel sögðum: Spurt er hvort móðirin sem ekki vakti nægilega vel yfir velferð ungrar dóttur sinnar hafi verið óábyrg móðir?:
“Ég held ekki”, segir sögukonan við lesandann, “ég held frekar að lífið hafi komið fram við hana á svolítið óábyrgan hátt.”

Alla bókina er móðirin í bakgrunninum. En næga vísbendingu fáum við um óhamingju hennar til að þess að meðtaka í fáeinum línum undir bókarlok hvert lífshlaup hennar hafði verið.

Að sumu leyti finnst mér Kramp hennar Maríu José Ferrada sverja sig í ætt sumra annarra bóka Angústúru frá Rómönsku Ameríku. Hnyttnar, svartur húmor en góður spegill á lífsbsráttu þeirra sem búa við erfið lífskjör.

Það sem mér þykir þó gera þennan höfund sérstakan er viljinn til að sjá hið góða í fari fólks. Allir þeir sem hafa orðið undir í lífsbaráttunni og verða á vegi okkar í þessari bók, og það á við um flestar sögupersónurnar, eru þegar upp er staðið góðar inn við beinið. Þrátt fyrir alla breiskleika þykir lesandanum vænt um alla hversu misheppnaðir sem þeir hafa verið.

Kramp er nánast örbók en rúmar meira en blaðsíðutalið gefur til kynna.
Bráðskemmtileg lesning þótti mér.