Fara í efni

KRAFA UM BREYTT VINNUBRÖGÐ Í STJÓRNMÁLUM


Oddviti  Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík kom fram á fundi stuðningsmanna flokksins í gær og hélt þar stormandi ræðu undir dynjandi lófataki: Fagnað var „stórsigri" flokksins í borginni! Við sjónvarpsskjáinn urðu margir skrýtnir í framan. Litlu hafði munað að Besti flokkurinn fengi hreinan meirihluta í borginni og Sjálfstæðisflokkurinn í sögulegu lágmarki .Hvar var þá „stórsigurinn"? Jú, Sjálfstæðisflokkurinn var með meira fylgi en hann hafði haft  í síðustu þingkosningum sem haldnar voru rétt eftir hrun efnahagslífsins, sem einmitt sá flokkur bar pólitíska ábyrgð á.
Nú vill svo til að oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík hefur komið kjósendum fyrir sjónir sem ágætur einstaklingur, sanngjörn og tilbúin til samstarfs við aðra. Það breytir því þó ekki að hún er málsvari ákveðinnar stjórnmálstefnu sem reynst hefur þjóðinni dýrkeypt. Enga auðmýkt var að finna gagnvart þeim veruleika.
Er það kannski einmitt þetta, skorturinn á auðmýkt og afneitun á að horfast í augu við veruleikann, sem kjósendur Besta flokksins eru að gera uppreisn gegn?
Að hluta til held ég að svo sé. Að fólki finnist að veruleikinn sé eitt, orð stjórnmálamanna eitthvað allt annað. Uppreisnin er þannig ekki bara gegn „hrunflokkunum", leiðsögumönnum þjóðarinnar út í efnahagsógöngurnar, heldur líka veruleikafirringu stjórnmálanna almennt; gegn tungutaki ósanninda, auglýsingaskrums um að stjórnmálamenn horfi ævinlega til almannahags, viðhafi opin og lýðræðisleg vinnubrögð þegar allir vita að allt annað er uppi á teningnum.
Fólk sér að þrátt fyrir hrun og hunskýrslur  er áfram meira að segja leitað um stefnumörkun til sömu samfélagsarkitekta og í aðdraganda hruns. Þar vísa ég til samtaka atvinnulífsins, aðilanna sem vísuðu okkur út í fenið, þeirra sem nú sem fyrr, gleðjast yfir aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sjá ekkert annað en áliðnað til
atvinnusköpunar og setja sem skilyrði um „stöðugleikasáttmála" að kvótakerfið verði varðveitt í óbreyttri mynd! Fólk horfir upp á að enn er skrifað  undir AGS skilmála, án umræðu í þinginu, sama má segja um Lúxemborgarpappírana. Þeir voru staðfestir óséðir og óræddir fyrir fáeinum dögum og í huga fólks er Icesave geymt en ekki gleymt.
Gegn þessu er verið að gera uppreisn. Það er verið að gera uppreisn gegn vinnulagi. Það er mín tilfinning.
Einhverjir myndu bæta ESB-umsókn inn í þetta ferli; að við úr VG sem studdum - og styðjum aðildaumsóknina að ESB séum þar gangandi á pólitísku bananahýði. Þarna sé dæmi um eitt sagt fyrir kosningar,annað eftir. Sjálfur skrifa ég ekki upp á það fyrir mitt leyti þótt hitt vilji ég ræða, hvort „umsóknin" sé að taka á sig dramatískari mynd en ég taldi upphaflega að yrði. Um þetta þarf að taka umræðu: Er umsóknin hætt að vera umsókn og orðin að aðlögun að ESB? Þetta þarf að ræða.
Ég er stuðningsmaður núverandi stjórnamynsturs.Ég tel fráleitt að leiða aftur til áhrifa inni í Stjórnarráðinu, aðila, sem annað veifið minna okkur á með verkum sínum hverjir þeir raunverulega eru; þeir sem í Reykjavík notuðu valdastöðu sína nýverið til að selja hlut okkar í HS-orku til Magma Energy með kúluláni.
Ríkisstjórnarflokkarnir þurfa að taka sig á. Opna glugga, lofta út. Segja fólki satt, styðja sjálfsákvörðunarrétt almennings um þau málefni sem almenningur kýs sjálfur að ráða milliliðalaust. Það góða í stöðunni er að hana er hægt að laga. Það er ekkert í henni sem er þess eðlis að ekki sé hægt að breyta og bæta til betri vegar.
Það vekur bjartsýni.