Fara í efni

KOVID, KJÚKLINGAR OG VARNAÐARORÐ KARLS

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 18/19.03.23.
Þegar ákveðið var að loka heiminum - skella öllu í lás - út af kovid-19 veirunni, var það ekki gert með neinni hálfvelgju. Mánuðum saman var fólk látið læsa að sér heima fyrir, stofnunum og fyrirtækjum lokað, ferðalög meira og minna bönnuð, fólki refsað fyrir að koma saman fleiri en örfáum í hóp og svo framvegis. Við þekkjum þetta öll.

Og allt gekk þetta upp. Ríkisstjórnum fannst þetta ekki slæmt, fundu fljótlega að því harðari aðferðum sem beitt var þeim mun vinsælli urðu stjórnvöldin. Nú fengu þau frið frá átökum í þjóðfélaginu, engin verkföll og hægt að taka á Gulu vestunum í Frakklandi, sjálfsprottinni uppreisnarhreyfingu, án þess að beita vettlingatökum. Við vorum komin nokkuð nærri fasískum vinnubrögðum á stundum og eru um það ófá óhugnanleg dæmi.

Ég er ekki þar með að segja að rangt hafi verið að sýna ítrustu varúð og jafnvel grípa til óhefðbundinna fyrirbyggjandi aðgerða. Þannig hugsaði þorri manna og einmitt þess vegna gekk þetta upp.

Og er þá er komið að kjúklingunum. Að vísu er rétt að taka fyrst eitt skref aftur í tímann og minna á það þegar tekist var á um hvort heimila ætti innflutning á hráu kjöti í ljósi þess að fjölónæmar bakteríur í kjöti væru farnar að ógna alvarlega heilsufari manna í ýmsum þeim löndum sem til stóð að flytja inn kjöt frá. Fyrir þá sem ekki vita eða muna það þá öðlast fjölónæmar bakteríur heiti sitt vegna þess að á þeim vinna fá eða nær engin sýklalyf.
Þetta er víða orðið svo alvarlegt vandamál að heilbrigðisstarfsmenn hafa af því þungar áhyggjur. Á sama tíma halda bisnissmenn því fram að verslun eigi að vera frjáls, engar hömlur, þær séu neytendum til óþurftar.
En svo var það hin hliðin. Ég minnist þess að hafa hlýtt á bandaríska vísindamenn öfundast út í Íslendinga yfir því að vera lausir við þessa alvarlegu vá og lýsa því yfir að það væru einmitt mikil verðmæti í því fólgin fyrir neytendur, heilsufar þeirra og velsæld samfélagsins, að stjórnvöld settu reglur sem vörnuðu innflutningi á kjötvöru sem hætt væri við að bæri með sér fjölónæmar bakteríur eða aðra óværu. Þarna ætti að sýna varfærni. Þetta væri ekki íhaldssemi heldur framsýni.

Hér á landi voru þau allnokkur sem vildu að við nýttum okkur ákvæði í EES samningnum til að stöðva milliríkjaverslun af þessu tagi. Það máttu stjórnvöld hins vegar ekki heyra á minnst, það er að segja þegar kosningar voru að baki, fyrir kosningar höfðu þau ætlað að standa heilsufarsvaktina.

Í undanhaldinu fyrir ágengum verslunarhagsmunum sagðist ríkisstjórn Íslands að vísu ætla að standa sína vakt þótt opnað væri á verslun af þessu tagi. Íslendingar myndu verða fremstir á meðal þjóða í eftirliti með innfluttri matvöru, kallaðir yrðu til færustu sérfræðingar þannig að við yrðum í allra fremstu röð á heimsvísu. Ekkert minna! Þessu var lýst yfir á fréttamannafundi á hlaðinu á Keldum, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði, þaðan sem hörðust gagnrýni á hvers kyns undanslátt hafði komið.

Og er þá aftur komið að kjúklingunum.

Fyrir fáeinum dögum var skýrt frá því að búið væri að flytja inn tugi tonna af kjúklingakjöti frá Úkraínu og að til stæði að flytja inn enn meira. Athygli mína vakti það sérstaklega að heyra kjúklingainnflytjanda dásama Matvælastofnun fyrir að afgreiða allar beiðnir með miklum hraði.

Ekki er öllum þó skemmt. Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við Læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir við sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, segir í nýlegu viðtali við Bændablaðið að á undanförnum árum hafi fleiri látist af völdum sýklalyfjaónæmis en af völdum kovid-19 veirunnar. Ísland sé sér á báti og Norðurlöndin öll nokkuð vel sett - en þegar komi sunnar og austar í álfunni gegni öðru máli. Það er einmitt þaðan sem Íslendingar eru farnir að sækja matvæli sín.

Nú spyr ég. Hvers vegna hefur ekki verið farið að ráðum þessa helsta sérfræðings okkar á þessu sviði og þeirra sem hafa með skýrum rökum og vísan í rannsóknir varað við innflutningi af því tagi sem nú er leyfður. Getur verið að loforðin á hlaðinu á Keldum séu enn uppi í ermi stjórnvalda enda EES ekkert lamb að leika við ef aldrei eru dregnar afdráttarlausar línur.
En er þetta ekki allt óþægilega mótsagnakennt? Hin mikla harka gagnvart kovid-19 og hið fullkomna andvaraleysi gagnvart innflutningi á vafasömum matvælum?
Og hvað veldur áhugaleysi og andvaraleysi stjórnvalda og fjölmiðla?
Getur verið að það sé vegna þess að það vanti skipun erlendis frá um samræmt göngulag?