Fara í efni

KOMINN HEIM!

Sæll Ögmundur.
"Nú fær þjóðin valdið og ábyrgðina í hendur." Auðvitað er þetta kjarni málsins, hvorki meira né minna. Þjóðin fær valdið og fær að ber ábyrgðina. Klippt og skorið. Þetta þýðir auðvitað að þjóðin þarf að horfast í augu við sjálfa sig. Þarf að uppgötva sjálfa sig að nýju og skilja hver hún er, hvaðan hún kom og hvert hún kýs að fara. Spyrja sig spurninga um framtíðina, og hvert og eitt; stjórnvöldin, forsetinn og við bæði, Ögmundur, halda fram af meira afli kröfunum um lýðræðislegar leikreglur á öllum sviðum. Það var ekki lýðræðislegt að ætla að fara með icesave-samningana gegnum þingið á viku í júní, án fylgisskjala og upplýsinga. Hótanir um stjórnarslit, það að halda undan upplýsingum og að bera út samherja sína er heldur ekki lýðræðislegt. Þjóðin vildi breiða samstöðu um icesave-samninginn. Sú ósk var skiljanleg og nauðsynleg, en þjóðin var svikin um þessa einföldu ósk. Smátt er fagurt er stundum sagt og á það við um flest allt, en alls ekki þá smáu hugsun sem við urðum vör við á blaðamannafundi formanna stjórnarflokkanna í dag. Og fljótfærinsleg eru þau viðbrögð sumra ungmenna í VG sem eru þó nokkuð við aldur að krefjast afsagnar forseta Íslands. Burtséð frá því hvort forseti heitir Ólafur Ragnar, Davíð Oddsson, eða Össur, eiga menn að sýna honum tillhýðilega virðingu.
Hryggilegt er að sjá og heyra ýmis þau ummæli sem fallið hafa eftir ákvörðun forseta Íslands og æsingurinn eða uppnámið sem ákvörðun hans hefur kallað fram á bestu bæjum, er staðfesting á að lítið þarf til að koma alls kyns opinberum talsmönnum úr jafnvægi. Þeir ættu að róa sig niður. Hér varð efnahagslegt og menningarlegt hrun og við vinnum ekki bug á afleiðingum þess sem einstaklingar heldur sem þjóð. Þennan kost færir forseti okkur nú. Mér finnst ég geta verið stolt af forseta mínum. Kjarni ákvörðunar hans hefur að sumu leyti farið fyrir ofan garð og neðan í dag. Kjarninn er að mínum dómi þessi: Nú fær þjóðin valdið og ábyrgðina í hendur. Bæði valdið og ábyrgðina. Leiðin til sátta er að sættast við sjálf okkur, að við sem þjóð getum tekið ákvörðun, og ábyrgð, á örlögum okkar. Þannig vil ég túlka ákvörðun forseta. Í þjóðaratkvæðagreiðslu sem framundan er felst sjálf lausnin burtséð frá hinni efnislegu niðurstöðu komandi atkvæðagreiðslu. Öll þurfum við að horfast í augu við sjálf okkur til að komast út úr kreppunni, stjórnvöldin, forsetinn og við. Þjóðin fær valdið og ábyrgðina, en forsetinn er kominn heim aftur. Ég er stolt af honum og það sem meira er; ég er afskaplega stolt af þeim merku mönnum sem bjuggu til dynamiska stjórnarskrá fyrir okkur í öndverðu, skarpskyggnir lýðræðissinnar.
Ólína