Fara í efni

KAÞÓLSKA KIRKJAN RÍSI UNDIR ÁBYRGÐ !

Landakotskrirkja
Landakotskrirkja

Kaþólska kirkjan á Íslandi hefur reynst vera meiri smásál en ég hefði trúað að óreyndu. Einstaklingum sem sættu hroðalegu kynferðisofbeldi af hálfu kirkjunnar þjóna hafa verið boðnar smánarbætur - brotabrot af því sem einstaklingar eru að fá frá íslenska ríkinu sem sanngirnisbætur fyrir brot í stofnunum á vegum ríkisins.

Auk þessa viðurkennir kaþólska kirkjan ekki sekt sína. Maður sem leið vítiskvalir í æsku sinni af völdum þjóna kaþólsku kirkjunnar upplýsir í viðtali við DV að kirkjan hafi viljað afhenda sér 170 þúsund krónur í „frjálsu framlagi" en hann hafi afþakkað. Hann segir að peningarnir hafi engu máli skipt sig, enda aldrei gert kröfu um slíkt:

 „Af því að peningarnir skiptu ekki máli. Ég bað bara um að ég yrði persónulega beðinn afsökunnar. Ég vildi að daginn eftir sættir myndi biskupinn standa upp í hámessu og biðja mig, Ísleif Friðriksson, afsökunar á ofbeldinu og taka utan um mig. Eins og fólk biður annað fólk afsökunar. Eins og honum þætti sárt að vita að ég hefði lent í þessu. Eins og það skipti máli."

Upphæðirnar sem brotaþolum eru boðnar af hálfu kaþólsku kirkjunnar verða aldrei kenndar við sanngirni! Þannig komst ég að orði á Alþingi í dag. Ég lýsti þeirri skoðun að ríkið yrði nú að ganga inn í þetta mál. Um væri að ræða börn sem voru í Landakotsskóla á skólaskyldualdri. Við hlytum að ætlast til þess að öll börn og unglingar í landinu sitji við sama borð hvað sanngirnisbætur varðar. Óháð því hvað okkur þyki um þessa aðferðafræði - þ.e. sanngirnisbæturnar - þá hafi þær verið greiddar og sé þar komið viðmið sem verði að virða.

Í dag tók ég málið upp á Alþingi og beindi þeirri spurningu til menntamálaráðherra hvort hann væri reiðubúinn að taka málið til skoðunar. Hans viðbrögð voru jákvæð. Hann sagði eðlilegast væri að Kaþólska kirkjan endurskoðaði afstöðu sína en lokaði þó síður en svo á að málið yrði skoðað af hálfu ríkisins.
Ég tel að svo verði að gera sái kaþólska kirkjan ekki að sér.

Sjá hér: http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20131210T142854  

http://www.dv.is/frettir/2013/12/10/menntamalaradherra-engin-sanngirni-i-thessum-sanngirnisbotum/