Fara í efni

KASTLJÓSIÐ OG KÁRAHNJÚKADROTTNINGIN

Nokkur umræða hefur verið um viðtal Kristjáns Kristjánssonar við Valgerði Sverrisdóttur fyrrverandi iðnaðarráðherra í Kastljósi þar sem hún reyndi að gera sem minnst úr skýrslu Gríms Björnssonar jarðeðlisfræðings um þær hættur sem hann telur að séu til staðar á virkjunarsvæðinu. Mér fannst frammistaða þáttastjórnandans Kristjáns Kristjánssonar til mikillar fyrirmyndar. Hann sætti sig ekki við útúrsnúninga Valgerðar um það hvers vegna skýrslunni var stungið undir stól á sínum tíma og efni hennar leynt fyrir þjóðinni og kjörnum fulltrúum hennar. Valgerður gerði að mínum dómi ítrekað lítið úr niðurstöðum vísindamannsins Gríms og sagði að allt það sem hann hefði haft fram að færa hefði þegar verið komið fram - með öðrum orðum léttvægt og ómerkilegt plagg.  Eftir nokkrar atrennur kringum gildi skýrslunnar kom eitruð spurning frá Kristjáni sem gerði það að verkum að Valgerður missti málið og taldi þann kost vænstan að flissa bara framan í áhorfendur. Og hver var þessi spurning Kristjáns: Jú, hann spurði hvers vegna Landsvirkjun og Orkustofnun hefðu blásið til neyðarfundar í kjölfar þess að Grímur Björnsson afhenti orkumálastjóra skýrslu sína - skýrslu sem Valgerður var ítrekað búin að lýsa sem hverjum öðrum óþarfa? Þessu gat Valgerður Sverrisdóttir vitanlega ekki svarað. Öllu því sem hún hafði á undan sagt um gildi skýrslu Gríms Björnssonar hafði verið hrundið. Eftir stóð ekkert nema ósannindaflaumurinn úr áldrottningunni.

Kristján Kristjánsson er að mínum dómi frábær þáttastjórnandi þegar sá gállinn  er á honum. Ánægja mín með Kristján og hvernig hann t.a.m. ginnti Valgerði Sverrisdóttur í hennar eigin ósannindavef breytir aftur á móti ekki því að ég er hjartanlega sammála þeim sem telja drottningarviðtölin, sem svo eru nefnd, alls endis ólíðandi. Umræðuþættir þar sem æðstu ráðamenn þjóðarinnar neita að rökræða djúpstæð deilumál og alvarleg  við pólitíska andstæðinga sína eiga ekki að líðast í samfélagi sem vill kenna sig við lýðræði.

Þorleifur