Fara í efni

UMBOÐSMENN AUÐS OG ÁFENGIS

Að stýra þjóðfélagsumræðunni
Eins og margir vita er sú aðferð notuð á Íslandi, þegar óþægileg mál koma upp, þ.e. hneykslismál, að dreifa athygli fólks frá þeim, beina sjónum þess í aðrar áttir. Þegar hitna tekur óþægilega undir sumu fólki í þjóðfélaginu (að þessu sinni vegna umræðu um aflandseyjar og skattaskjól) eru fjölmiðlar notaðir til þess að "búa til vandamál" sem stjórnmálamenn, og aðrir spekingar, útmála sem "gríðarlega vá" sem verði að stöðva með öllum ráðum. Dæmi um það gæti t.d. verið tal um "háskalegar launahækkanir til handa almenningi" (engin vá talin fyrir hendi þótt kjararáð hækki laun út fyrir allt velsæmi).

Oft er um algeran tittlingaskít að ræða sem skiptir þjóðina litlu sem engu máli. Enda er það aukaatriði. Tilgangurinn er auðvitað sá að stýra umræðunni inn á aðrar og þóknanlegri brautir. Margt fjölmiðlafólk sér ekki í gegnum þetta og lætur nota sig í þessum tilgangi, í stað þess að halda sig við stóru málin, aðalatriði máls, og kvika ekki frá þeim mánuðum og helst árum saman. En þau mál tengjast oftast fjárglæframönnum og framgöngu þeirra. Þar eru umsvifin mest. Sumir íslenskir frjálshyggjumenn hafa t.d. brugðið á það ráð að rjúka í fjölmiðla og búa til "vandamál" þegar athyglin hefur beinst óþægilega mikið að þeim sjálfum, vegna fjárglæframála og annara hneykslismála. Rétt viðbrögð fjölmiðlafólks í slíkum tilvikum væru þau að ræða alls ekki það mál sem viðkomandi lýðskrumari "hefur búið til" heldur halda honum við efnið, fjárglæframálin sem hann tengist! Það væru rétt viðbrögð við lýðskrumi frjálshyggjumannsins (og frjálshyggja er ekki alltaf bundin við ákveðna sjórnmálaflokka). Ekki falla í þá gryfju að ræða málin á forsendum fjárglæframannsins.

Dæmigerð aðferð er einnig að koma fram með frumvörp á Alþingi, í andstöðu við þjóðina, um mál sem eiga þangað ekkert erindi. Eitt slíkt hefur verið til umræðu undanfarið.

[Frjálshyggjufrumvarp]

Vínið glepur viðkvæm börn,
völt á lífsins bryggju.
Tækifærin Teitur Björn,
tengir frjálsri hyggju.

Á Alþingi liggur nú, enn eina ferðina, fyrir frumvarp um afnám einkaleyfis Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis og sem heimilar áfengisauglýsingar. Þetta ólánsfrumvarp er eitt margra álíka sem sýnir vel hvar hjarta flutningsmanna slær. Þeim er umhugað um hagsmuni græðgisfólks sem vill selja áfengi og græða vel á sölunni. Hins vegar vilja þeir ekki að ríkið græði á sölunni heldur verður gróðinn að lenda í vösum braskara og helst fjárglæframanna.

Reynt er að fægja mesta lýðskrumið af frumvarpinu og láta sem svo að málið snúist einvörðungu um frelsið, þetta misnotaða og útþvælda hugtak. En frelsi hverra og til hvers? Varla "frelsi" fólks frá áfengisbölinu eða hvað? En "frelsi" til þess að fá sér "hvítvín með humrinum"? Óskipulögðu fólki, og fólki sem hugsar ekki langt fram í tímann, kann að þykja slíkt "frelsi" mikilvægast af öllu öðru "frelsi" og er þá mikið sagt. Eða "rauðvín með steikinni", kannast einhver við þau "rök"?

Hvað um frelsi fjárglæframanna til þess að græða á ágæfu og óhamingju annara? Það er augljóslega mikilvægt "frelsi" í huga flutningsmanna frumvarpsins og vegur auðvitað þyngst á metunum enda "ógæfumarkaðurinn" stór sem aftur felur í sér mikil "sóknarfæri" fyrir fjárglæframenn.

Áfengi á dælustöðvum?

Í framhaldi af þessu liggur auðvitað beint við að ganga alla leið og selja áfengi á sérstökum tönkum "bensínstöðva", þar sem menn "dæla sjálfir". Það er hið fullkomna "frelsi" í sölu áfengis. "Frjálshyggjurökin" fyrir því gætu t.d. verið þau að "áfengi" (etanól) sé nú þegar, víða um heim, selt á dælustöðvum[i] og þess vegna sé þetta bara spurning um að "taka skrefið til fulls". Þekktur, burtfarinn, frjálshyggjumaður hefði líklega talið þau "rök" mjög sterk.

Með þessu móti má betur "nota ferðina" á bensínstöðina og uppfylla "mannlegar þarfir" um leið og tekið er eldsneyti á bílinn og fylla á nokkrar flöskur af víni í leiðinni. Að selja áfengi í lítratali er líka miklu "frelsisvænni" aðferð enda þá engin sérstök magntakmörkun og "frelsisskerðing" til staðar, eins og felst í því að þurfa að kaupa vínflöskur í fyrirfram gefnum stærðum. Margir leysa það "vandamál" reyndar með því að kaupa þá fleiri flöskur. En áfengi í lítratali hlýtur þó ávalt að vera "hið fullkomna frelsi frjálshyggjunnar".

En þeir sem enn telja brotið á frelsi sínu til neyslu áfengis, þrátt fyrir dælustöðvar, munu þá í nafni "aukins frelsis" ganga enn lengra og berjast fyrir því að lagnir fyrir áfengi og bjór verðir lagðar í götur[ii] bæjarfélaga á Íslandi, á sama hátt og vatn, sími og rafmagn. Úr "gullkrönum" heimilanna mun þá streyma mjöður bruggaður af færustu meisturum. "Bjórböð" munu tröllríða þjóðinni, þegar kemst í tísku að "láta renna vel í karið", og njóta áfengisins í gegnum húðina hið ytra, fremur en drekka það eingöngu. Í stað vínbúða koma þá bjór- og vínböð.

Rökleysa og frasar stuðningsmanna

[Frelsispostular]

Halda fast í Hólmsteins von,
hans nú bulla drengir.
Viktor Orri Valgarðsson,
vínið frelsi tengir.

Sumir stuðningsmenn ógæfufrumvarpsins hafa sótt sér "rök" í smiðju Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar sem oft hefur látið í ljós aðdáun sína m.a. á kenningum og "frelsisskrafi" John Stuart Mill. En Mill gekk út frá því að frelsi einstaklinga ætti að vera án takmarkana svo lengi sem hegðun þeirra skaðaði ekki aðra. Ekki verður þeim rökum beitt um neyslu áfengis. Enda hvílir þá sönnunarbyrðin á stuðningsmönnum frumvarpsins (og vilja breytingar) að sanna að drykkja einstaklinga sé og verði öðru fólki skaðlaus.[iii] Alvarleg afbrot, tengd áfengisneyslu, sýna að svo er ekki. Þvert á móti eru fjölmörg dæmi þess að fólk undir áhrifum áfengis valdi bæði sér og öðrum miklum skaða. Það er gömul saga og ný.

En einmitt þess vegna ættu menn að hafa vítin til varnaðar. Skynsemi manna krefst þess, nema því aðeins að ofsatrú frjálshyggjunnar hafi náð slíkum tökum á þeim að reynsla og rökrétt hugsun komist hvergi að. Lagasetning ríkisvaldsins um mál sem þetta hefur ekkert með "forræðishyggju" (einn af frösum frjálshyggjunnar) að gera heldur myndar nauðsynlegan ramma um efni sem reynst hefur mörgum afar skaðlegt. Að hleypa græðgi einkaaðila inn á þann markað er fráleitt. Ríkisvaldinu ber að tryggja öryggi fólks. Liður í því er að hindra sem best að áfengisdrykkja og drukkið fólk valdi öðrum skaða. Frasar frjálshyggjunnar mega ekki verða skynseminni yfirsterkari.

"Rökin" um minnkun umfangs ríkisins eru enn fremur afar frasakennd. Þegar svo háttar til að ríkiseinokun er á litlum markaði hníga nákvæmlega engin rök í þá átt að fela einkaaðilum viðkomandi starfsemi. Vítin ættu að vera til varnaðar í þeim efnum enda greiðir almenningur þá í raun bónusa og arð sem sömu einkaaðilar tæma út úr fyrirtækjunum, eftir að hafa fengið þau "fyrir lítið" oft og tíðum. Kostnaður almennings ríkur upp úr öllu valdi og þjónustan versnar í kjölfarið (útibúum lokað o.s.frv.). Þannig virkar einkaránsvæðingin á Íslandi.            

Einkarekstur á því aðeins rétt á sér að markaður sé nægjanlega stór og raunhæf samkeppni tryggð. Að færa ríkiseinokun til fjárglæframanna og einkaránsfólks er ekki leið að því marki. Í slíkum tilvikum er ríkinu (ríkisvaldinu) mun betur treystandi. Umboðsmenn auðs og áfengis átta sig e.t.v. á því síðar, þegar frasarnir hafa dofnað í hugskotinu og raunveruleikinn tekur við.
Höldum svo áfram að ræða um fjárglæfra, aflandsfélög og skattaskjól!



[i] http://www.afdc.energy.gov/fuels/ethanol_locations.html

[ii] Sjá einnig: http://www.dailymail.co.uk/news/article-3625489/Belgian-city-gets-BEER-pipeline-tipplers-crowdfunded-bottle-day-rest-life.html

[iii] Sjá einnig: https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3547008/