Fara í efni

UM LÖGFRÆÐI OG SIÐFRÆÐI

            Eftir að Kastljós Ríkisútvarpsins hóf umfjöllun um Íslendinga sem eiga, eða hafa átt, svokölluð aflandsfélög hafa ýmsir keppst við og reynt að réttlæta umrædd félög. Nánast allir þingmenn Framsóknarflokksins komu hver á fætur öðrum og fullyrtu að fyrir lægi að allir skattar hefðu verið greiddir af félagi sem tengdist fyrrum forsætisráðherra, enda þótt engin gögn væru sýnd sem sönnuðu það. Einn þingmaður framsóknar sagði gagnrýnina sprottna undan rifjum „ógæfufólks" í stjórnmálum sem ekki gæti unnt afburðarmanninum Sigmundi Davíð að vera sá afburðamaður sem hann sannarlega væri (og þá vafalaust mælt á kvarða framsóknar). Annar þingmaður endurtók sjö sinnum í sama þættinum að skattar væru greiddir. Allt var þetta tal og skrif með miklum ólíkindum.

            En það sem virtist alveg gleymast í öllu þessu fári er að mjög stór hluti þjóðarinnar er ágætlega fær um að hugsa sjálfstætt og leggja eigið mat á hlutina. Sá sami hluti lætur ekki fáeina aðila í þingflokki framsóknar stýra orðræðunni og segja sér hvað sé rangt og rétt í þessum efnum. Fólk beitir einfaldlega eigin dómgreind á það. Enda kom í ljós að bragðið misheppnaðist algerlega sem m.a. sást á fjöldamótmælum við Austurvöll og afsögn forsætisráðherra.

           

[Sigmundur klúðrar sjónvarpsviðtali]

Framsóknar er fallið bratt,
fylginu mun granda.
Ekki vildi segja satt,
Sigmundur í vanda.

(Höfundur sami og að grein)

 

            En við blasir að staða fjármálaráðherra er lítið, ef nokkuð, betri í þessum efnum. Hann hefur þegar orðið uppvís að ósannsögli, að neita tengslum við aflandsfélag í viðtali en reynst síðan hafa slík tengsl. Þannig staða er ævinlega afar slæm fyrir hvaða stjórnmálamann sem er. Enda auðsætt að traust er algert lykilatriði í stjórnmálum almennt. Er þá komið að því sem hér verður einkum rætt, þ.e. samband lögfræði og siðfræði, sérstaklega í tilviki stjórnmálamanna.

            Gætt hefur sérstakrar gerðar af meðvirkni í umræðu um hin svokölluðu „Panama-skjöl". Ýmsir reynt í fjölmiðlum að troða upp með þá speki að engar sannanir séu fyrir hendi um lögbrot. Jafnvel nefnt að þetta eigi bara að vera viðfangsefni lögreglu og skattayfirvalda. Þannig er reynt að dreifa athygli fólks frá aðalatriði máls sem fjallar um siðfræði og ákveðin forréttindi sem fjárglæframenn og stjórnmálamenn reyna að viðhalda, einmitt í skjóli leyndar. Hins vegar er greinilegt að mjög margir treysta ekki vel nefndum yfirvöldum enda eru þau undir hæl pólitísks valds og oft fjársvelt. Það er og afar langsótt kenning að hundruð blaðamanna séu á vegum einhvers annars en sannleikans. Margar fréttir kæmu aldrei uppá yfirborðið nema vegna rannsóknarblaðamennsku. Það er líka vel þekkt í sögunni að margir stjórnmálamenn, víða um heim, hafa verið hreinræktaðir glæpamenn og ber auðvitað að minnast sem slíkra. Því ber að þakka allan leka sem sýnir samsæri viðskipta og valdamanna gegn almenningi.

            Upplýsingarnar sem um ræðir afhjúpa fyrst of fremst siðleysi og leynimakk „stjórnmála" og „viðskipta". En það er skiljanlega erfitt fyrir áhangendur (leynda eða opinbera) t.d. Framsóknarflokksins að viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum að innan flokksins sé margt mjög rotið. En þeir hinir sömu ættu þá að fara aðeins yfir sögu flokksins, í gegnum marga áratugi. Hún er vandlega vörðuð spillingarmálum þótt ákveðnu hámarki hafi verið náð með einkaránsvæðingu bankanna árið 2002. En löngu áður mátti rekja langa slóð. Hér verða ekki talin öll þau fjölmörgu dæmi (t.d. Esso-hneykslið og Íslenskir aðalverktakar) en vísað í afar áhugaverða grein í Nýja tímanum, frá 19. maí árið 1955. Það er grein eftir Þórð Valdimarsson, þjóðréttarfræðing, sem nefnist: „Íhaldið verður að víkja úr stjórn". Hann segir m.a.

            „Framferði leiðtoga Framsóknarflokksins undanfarin ár hefur verið kjósendum flokksins vaxandi áhyggjuefni. Samvinna þeirra við íhaldsflokkinn, erkióvin allra frjálslyndra og umbótasinnaðra afla í þjóðfélaginu, hefur haft síður en svo bætandi áhrif á þá, auk þess sem þeir virðast hafa laðazt svo mjög að glæframönnunum[i] í íhaldsflokknum að þeir geta ekki lengur án þeirra verið."[ii]

            Höfundur telur íhaldsflokkinn spilltastan: „Framsóknarkjósendur munu alls ekki sætta sig við lengur við áframhaldandi fóstbræðralag Framsóknar við þjóðhættulegasta og spilltasta flokk landsins."[iii]

            Síðar segir Þórður: „Engum manni getur dulizt sú takmarkalausa spilling sem þrífst í stjórnmála- og efnahagslífi þjóðarinnar. Blöndalshneykslið og öll hin hneykslismálin sem hafa orðið lýðum ljós undanfarna mánuði þrátt fyrir tilraunir ríkisstjórnar og annarra opinberra aðila til að þegja þau í hel, hafa gefið fólki innsýn inn í þann heim spillingar og glæpamennsku sem dylst að tjaldabaki íslenzkra stjórnmála."[iv] Rúmum 60 árum síðar er þessi ágæta grein Þórðar enn í fullu gildi!

Reglur samfélagsins

            Áður en lengra er haldið er ekki úr vegi að fjalla stuttlega um þær reglur sem almennt gilda í vestrænum samfélögum sérstaklega. Þeim má gróflega skipta í formlegar og óformlegar reglur. Undir formlegar reglur falla t.d. lagareglur (lög). Undir óformlegar reglur má hins vegar fella „reglur tíðaranda", „almenningsálit", kurteisi (siðareglur), traust í samskiptum og fleira. Það er ljóst að veigamestu reglurnar eru „ólögfestar" þ.e. óformlegar reglur. Enn fremur er ljóst að allnokkur skörun er á milli þessara reglna, formlegra og óformlegra. Þannig má segja að kurteisi í samskiptum sé ekki einungis óformleg regla heldur geti „skortur á kurteisi" jafnvel varðað við lög í sumum tilvikum. Mörkin þarna á milli eru því ekki alltaf klippt og skorin.

            Sumir lögmenn hafa haldið því fram nýlega að það eina sem skipti máli í tengslum við Panama-skjölin sé hvort lög hafi verið brotin. Að ekki sé til staðar neitt „hliðarkerfi" við hið formlega kerfi laganna sem skipti máli í þessu sambandi. Sú fullyrðing þarfnast vandlegrar skoðunar. Í fljótu bragði má segja að hún standist alls ekki og má þar t.d. vísa til réttarreglna nágrannalanda sem oft tengjast siðareglum. Þ.e.a.s. siðareglur eru oft taldar ekki síður mikilvægar en hinar formlegu reglur laganna. Almennt má segja að lögum sé ætlað að endurspegla almannaviljann. Sá sami „almananvilji" er ekki lagaregla heldur einmitt „tíðarandi" eða almenningsálit. Þannig að fræðilega að minnsta kosti er lögum ætlað að endurspegla vilja almennings í samfélaginu.

            Þá spyrja þeir sem aðhyllast stranga lagahyggju: en hver á þá að leggja mat á hið siðferðilega gildi hlutanna, skera úr um hvað er rétt eða rangt siðferðilega? Því er fljótsvarað: almenningur gerir það sjálfur, með því að að láta álit sitt í ljós, hvort heldur er með skrifum sínum, mótmælum, eða jafnvel í kosningum! Ætla menn síðan að halda því fram að vilji og skoðanir almennings skipti engu máli?! Slík rök ganga engan veginn upp, alls ekki. Enn fremur er rétt að vekja á því athygli að siðferðileg sjónarmið kunna einnig að koma til kasta dómstóla. Þ.e. siðferðileg álitamál geta vel verið á valdsviði dómara, allt eftir atvikum.

            Tökum nokkur dæmi um vísan til „almenningsálits" í íslenskum lögum. Í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála segir svo í 1. mgr. 4. gr.:

„Þá eina má kveðja til setu í dómi sem sérfróða meðdómsmenn er hafa nægilegan þroska og andlegt og líkamlegt heilbrigði, eru íslenskir ríkisborgarar, lögráða og orðnir 25 ára, hafa forræði á búi sínu og hafa hvorki gerst sekir um refsivert athæfi sem telja svívirðilegt almenningsáliti[v] né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust[vi] sem dómarar verða almennt að njóta."

            1. mgr. 5. gr. laga nr. 24/2000 um kosningar til alþingis segir svo: „Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem er sekur eftir dómi um verk sem er svívirðilegt almenningsáliti[vii] nema hann hafi fengið uppreist æru sinnar."

            Í lögum nr. 50/2014 um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins í héraði segir svo um hæfisskilyrði sýslumanna í e-lið 2. mgr. 3. gr.:

„Hefur hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem telja svívirðilegt almenningsáliti[viii] né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem sýslumenn verða almennt að njóta." Í þessum dæmum er vísað beint til almenningsálitsins í settum lögum. Með öðrum orðum, þarna er vísað beint til almenningsálits á því hvað skuli telja svívirðilegt.

Hegðun stjórnast ekki eingöngu af lagareglum

            Það er hafið yfir vafa að bæði lög og siðferði stýra hegðun fólks. Lög ná því markmiði einkum með hótunum um refsingar ef brotið er gegn lagareglum.[ix] Siðferði vísar fremur til hvatningar og fordæmingar. Fólk kann að hljóta lof, þyki hegðun lofsverð, en jafnframt skömm og jafnvel fordæmingu þegar brotið er gegn góðu siðferði. Dómstólar, stjórnmálamenn og lögmenn fá litlu um það ráðið. Svona virkar einfaldlega hinn félagslegi veruleiki.

            Það blasir við að í lagakennslu á Íslandi hefur lengi verið horft að mestu leyti framhjá mikilvægi siðfræði og siðareglna í samfélaginu. Afleiðingin er menn telja sér allt leyfilegt ef lög beinlínis banna það ekki. Enginn annar mælikvarði er lagður á breytni manna en lagalegur. Samkvæmt því er í góðu lagi að sýna ruddaskap og dónaskap, svo lengi sem það brýtur ekki gegn lögum. Það er þó örugglega ófullnægjandi afstaða. Þetta hefur ásamt öðru haft í för með sér mikla afsiðun samfélagsins. Yfirgangur og skrílvæðing stjórnmála og viðskiptalífs hafa tekið við af góðu siðferði og tillitssemi.

            Í réttarheimspeki er stundum rætt um það hvort lög þurfi að endurspegla siðferði eða ekki. Þar takast á sjónarmið annars vegar náttúruréttar og hins vegar vildarhyggju (pósitívisma). En samkvæmt vildarhyggju eru engin nauðsynleg tengsl á milli laga og siðferðis. Einn þekktasta talsmann vildarhyggju má tvímælalaust telja H. L. A. Hart.[x] Meðal helstu gagnrýnenda hans má hins vegar telja Bandaríkjamanninn Ronald Dworkin.[xi]

            Fyrir því má færa rök að íslensk lögfræði og lagakennsla hafi lengi mótast af vildarhyggju. Að það skýri „tvihyggjuna" sem finna má meðal margra íslenskra lögmanna hvað snertir lögfræði og siðfræði. Ekki síst hefur þetta verið mjög áberandi í sumum dómsmálum eftirhrunsáranna, þar sem bankamenn, og lögmenn þeirra, hafa svifist einskis enda þótt sektin megi vera öllum ljós. Forherðing og ófyrirleitni hafa verið mjög áberandi í sumum þessara mála. Þar hefur þó Hæstiréttur staðið sig að mörgu leyti með ágætum, staðist erfitt próf, enda þótt lögmenn hafi gert allt sem þeim gat komið til hugar til þess að eyðileggja mál og  grafa undan réttarríkinu.

            Hins vegar hefur Alþingi Íslendinga ekki látið sitt eftir liggja, fremur en oft áður, til þess að veikja réttarvörslukerfið, t.d. með því að milda afplánun manna sem þó hafa brotið af sér á þann hátt að aldrei verður bætt fyrir (stórfelld efnahagsbrot) og verðskulda því sannarlega langa dóma. Hafi Alþingi  skömm fyrir það og þeir sem að því stóðu. Má telja að virðing Alþingis hafi minnkað við  lagabreytinguna og var þó virðingin ekki mikil fyrir! Til þess réttlæta verknaðinn er síðan gripið í það hálmstrá lagabreytingin gerð með velferð íslenskrar æsku leiðarljósi. Hluti þingheims virðist reyndar hafa trúað því!

            Það er greinilegt að breytingin sem um ræðir þjónar fyrst og fremst stórtækum fjárglæframönnum, enda talið brýnt að þjóðin fái að njóta óskertrar „snilli" þeirra sem lengst. Eitt margra dæma um „samvinnu" stjórnmála og „viðskipta". „Æ sér gjöf til gjalda" segir gamalt máltæki. Frjálshyggjan kennir líka hádegisverðurinn aldrei ókeypis" og þá væntanlega ekki á Alþingi heldur.[xii]

     Erlend viðhorf og yfirlit

            Víða erlendis er litið svo á að fleira skipti máli en lögfræðileg hártogun. Siðfræði er þannig talin mælikvarði á rétta breytni ekki síður en lagalegur. En margir íslenskir lögmenn virðast þeirrar skoðunar að siðfræði (og siðferði) skipti engu máli. Það er afar skaðlegt viðhorf og til þess fallið veikja mikilvægar stoðir samfélagsins.

            Fjárglæframennska og spilling eru ekki einvörðungu atriði sem snerta það hvort lög eru brotin (jafn mikilvægt og það er) heldur ekki síður hitt að háttsemin veikir trú margra á réttlætið (og réttlæti[xiii] tengist mjög siðfræðinni). Sérstaklega á það við þegar þeir sem „hafa látið velja sig" til forystu í stjórnmálum verða uppvísir að braski, og ósannsögli, sem verður ekki séð að samrímist starfi þeirra sem fulltrúar almennings. Samkvæmt orðabókaskilgreiningu er réttlátur maður sá sem gerir það sem er siðferðilega rétt.[xiv]

            Réttlæti og siðferði eru þannig nátengd fyrirbæri, siðferði er nauðsynlegt skilyrði réttlætis. Með því að gagnálykta má þá segja að skorti siðferðið megi efast um réttlætið. Séð í þessu ljósi verður enn furðulegri skoðunin (vildarhyggja) um að lögin ein skipti máli og að „ekkert hliðarkerfi" sé við þau. Þá er væntanlega ekkert „hliðarkerfi" til staðar heldur sem kalla má „réttlæti", enda réttlætið af siðferðilegum toga. Af þessu má sjá í hvílíkar ógöngur menn lenda hafni þeir siðferðinu úr kerfi laganna. Verður hér tekin eindregin afstaða með kenningu heilags Tómasar frá Aquinas (1225-1274) sem taldi að lög þyrftu nauðsynlega að innihalda siðferðileg gildi (náttúruréttur). Óréttlát lög eru ekki lög sbr. „lex iniusta non est lex".

Taflan sýnir samanburð kenninga í réttarheimspeki um lög og siðferði

 

Náttúruréttur

Samkvæmt náttúrurétti eru lög og siðferði tengd fyrirbæri. Lög eru ekki eingöngu það sem lögfest er í lagatextum. Sé löggjöfin ekki siðleg þá er hún ekki lög og hefur ekkert lagagildi.

Svo manngerð lög hljóti gildi verða þau að samrímast æðri lögum (lögum Guðs).

Heilagur Tómas Aquinas nefndi lög án siðferðis „rangsnúin lög". Kenning náttúruréttar gengur út frá mikilvægum tengslum laga og siðferðis („lex iniusta non est lex").

Thomas More (1534) taldi sig fremur bundin af æðri lögum, en lögum manna, og galt fyrir þá skoðun með lífi sínu.

Vildarhyggja

Vildarhyggja leggur áherslu á aðgreiningu laga og siðferðis. Samkvæmt vildarhyggju eru lögin „manngerð" af hálfu löggjafans. Náttúruréttur felur ekki í sér skyldu til að fylgja lögum án siðferðis, með skírskotun til siðferðilegra og trúarlegra reglna. En talsmenn vildarhyggju telja að gildum lögum beri að hlýða þangað til þeim hefur verið breytt.

Innan vildarhyggju eru lög talin kerfi skýrt afmarkaðra reglna og lög skilgreind út frá félagslegum reglum og hefðum.

Jeremy Bentham (f. 1748) var talsmaður nytjahyggju. Samkvæmt henni skulu lög miða að sem „mestri hamingju fyrir sem flesta".

John Austin taldi lög skipanir yfirvalda (þjóðhöfðingja) sem studdar væru hótun um refsingar.

 

Austurríkismaðurinn Hans Kelsen (f. 1881) taldi engin nauðsynleg tengsl vera á milli laga og siðferðis. Að lög þyrftu ekki siðferðilega staðfestingu til að öðlast gildi.

Kenningar náttúruréttar skilgreina lög manna sem lægra sett lög

Fyrir tíma kristinna heimspekinga töldu klassísku grísku heimspekingarnir „mannasetningar" óæðri lögum náttúrunnar. Þótt lög náttúrunnar mæltu fyrir um að fólk skyldi búa í samfélögum, myndu reglur fólks til þess að stjórna þeim samfélögum verða manngerðar og undirorpnar lögum náttúrunnar.

Cicero:

„Sönn lög eru heilbrigð skynsemi sem eru í samræmi við náttúruna; þau gilda alls staðar, eru óumbreytanleg og eilíf..."

Lagaleg raunhyggja

Samkvæmt lagalegri raunhyggju ber að skilja lögin eins og þau eru ástunduð fyrir dómstólum, á lögfræðistofum, og lögreglustöðvum, fremur en að taka mið af framsetningu þeirra í lögbókum og sáttmálum.

Oliver Wendell Holmes (f. 1841) taldi að ef lög væru einkum kerfi reglna þyrfti ekki lögmenn til þess að takast á í réttarsölum, þar sem dómari gæti einfaldlega beitt reglunum. Í raun hafa dómarar ákveðið sjálfstæði í ákvörðun um mismunandi niðurstöðu í dómsmálum. Þar kunna að hafa áhrif þættir eins og upplag dómarans, þjóðfélagsstaða og pólitísk hugmyndafræði. Þessi atriði kunnahafa áhrif á niðurstöðuna.


 

[i]     Svartletrun mín.

[ii]    http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=354820&pageId=5621396&lang=is&q=Frams%F3knarflokkur

[iii]   Sama heimild.

[iv]   Sama heimild.

[v]    Svartletrun mín.

[vi]   Svartletrun mín.

[vii]  Svartletrun mín.

[viii] Svartletrun mín.

[ix]   Sjá t.d. Shavell, Steven. "Law versus Morality as Regulators of Conduct." American Law and Economics Review 4 (2002): 227-57. Web. <http://www.law.harvard.edu/faculty/shavell/pdf/4_Amer_Law_Econ_Rev_227.pdf>.

[x]    Sjá t.d.: Hart, H. L. A. "Positivism and the Seperation of Law and Moral." Harvard Law Review 71 (1958): 593-629. Web. <http://www.umiacs.umd.edu/~horty/courses/readings/hart-1958-positivism-separation.pdf>.

[xi]   Sjá t.d. Baxter, Hugh. "Dworkin´s „one-system" Conception of Law and Morality." Boston University Law Review 90 (2010): 857-62. Web. 08 May 2016. <http://www.bu.edu/law/journals-archive/bulr/documents/baxter.pdf>.

[xii]  Sjá enn fremur: Criminology Political Crime Explained Political Corruption Bribes Fraud White Collar Crime. http://www.actforlibraries.org/criminology-political-crime-explained-political-corruption-bribes-fraud-white-collar-crime/

[xiii] Sjá t.d. Internet Encyclopedia of Philosophy. http://www.iep.utm.edu/justwest/

[xiv] Sama heimild.