Fara í efni

STÓRA RÁNIÐ UNDIRBÚIÐ - FRAMHALDSUMRÆÐA SJÖ - RAFORKUTILSKIPUN 2019/944 ESB - ORKUPAKKI 4 – Landsreglari

           

Síðustu grein lauk á 56. gr. raforkutilskipunar 2019/944 ESB. Þar með hefst VII. kafli tilskipunarinnar. Í 57. gr. er fjallað um Landsreglara, tilnefningu og sjálfstæði hans. Í 1. mgr. segir að hvert aðildarríki skuli tilnefna eitt eftirlitsyfirvald á landsvísu. Ákvæði 1. mgr. skal þó ekki hafa áhrif á tilnefningu annara svæðisbundinna eftirlitsyfirvalda innan aðildarríkjanna, að því gefnu að einn háttsettur aðili sé til staðar á vettvangi ESB, innan vébanda stjórnenda hjá ACER, sem fulltrúi og tengiliður, samkvæmt 1. mgr. 21. gr. reglugerðar 2019/942 ESB. (2. mgr. 57. gr.).

            Þrátt fyrir 1. mgr. getur aðildarríki tilnefnt eftirlitsyfirvöld fyrir lítil kerfi á landfræðilega aðskildum svæðum, sem árið 2008 námu innan við 3% af heildarneyslu aðildarríkisins sem það er hluti af. Undanþágan skal ekki hafa áhrif á skipan eins háttsetts yfirmanns sem fulltrúa og tengiliðs á vettvangi ESB, innan vébanda stjórnenda hjá ACER í samræmi við 1. mgr. 21. gr. reglugerðar 2019/942 ESB. (3. mgr. 57. gr.).

            Aðildarríkin skulu ábyrgjast sjálfstæði Landsreglara og sjá til þess að hann fari með vald sitt hlutlaust og gagnsætt. Í þeim tilgangi skulu aðildarríkin sjá til þess, að við framkvæmd eftirlitsverkefna sinna, samkvæmt þessari tilskipun og skyldri löggjöf, sé Landsreglari:

(a) lagalega aðgreindur og óháður öðrum opinberum eða einkaaðilum;

(b) tryggja að starfsfólk hans og þeir sem bera ábyrgð á stjórnun hans:

(i) starfi óháð markaðshagsmunum; og

(ii) leiti hvorki né taki bein fyrirmæli frá neinum stjórnvöldum eða öðrum opinberum- eða einkaaðilum í verkum sínum. Sú krafa hefur ekki áhrif á nána samvinnu, eftir því sem við á, við önnur viðeigandi innlend stjórnvöld eða almennar reglur vegna stefnu sem gefnar eru út af stjórnvöldum og tengjast ekki reglugerðarheimildum og skyldum samkvæmt 59. gr. (4. mgr. 57. gr.).

            Til að vernda sjálfstæði Landsreglara [eftirlitsyfirvalda], skulu aðildarríkin einkum tryggja að:

(a) Landsreglari geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir, óháð stjórnmálum;

(b) Landsreglari hafi allan nauðsynlegan mannauð og fjárhagslegar bjargir sem hann þarf til að sinna skyldum sínum og nýta vald sitt á skilvirkan og áhrifaríkan máta;

(c) Landsreglari hafi sérstaka árlega fjárhagslega úthlutun [fjárlög] og sjálfræði við úthlutun þess fjármagns;

(d) stjórnarmenn Landsreglara eru skipaðir í fimm til sjö ár í senn eða, þegar stjórn er ekki til staðar, yfirstjórn hans, og má framlengja skipun einu sinni;

(e) skipun stjórnarmanna Landsreglara eða, þegar stjórn er ekki til staðar, yfirstjórnar hans, byggist á hlutlægum, gagnsæjum og opnum viðmiðum, í sjálfstæðu og óháðu ferli. Það tryggir að þau sem til álita koma hafi nauðsynlega færni og reynslu vegna umræddra starfa hjá Landsreglara;

(f) hagsmunaákvæði eru til staðar og trúnaðarskylda helst þótt starfi ljúki hjá Landsreglara eða, ef stjórn er ekki til staðar, þótt umboð yfirstjórnar renni út;

(g) stjórnarmönnum Landsreglara eða, ef stjórn er ekki til staðar, yfirstjórn hans, er aðeins hægt að segja upp störfum (setja af) á grundvelli gagnsærra viðmiðana. Að því er varðar d-lið fyrstu undirgreinar skulu aðildarríkin tryggja viðeigandi fyrirkomulag um tilfærslu í starfi (rotation scheme) fyrir stjórnina eða yfirstjórnina. Einungis er heimilt að víkja frá störfum stjórnarmönnum eða, ef stjórn er ekki til staðar, þeim sem skipa yfirstjórn, á kjörtímabili, ef þeir uppfylla ekki lengur skilyrðin sem sett eru fram í þessari grein eða hafa gerst sekir um misferli samkvæmt landslögum. (5. mgr. 57. gr.).

            Aðildarríkjum er heimilt að kveða á um eftirlit eftirá (ex post control) með ársreikningi Landsreglara af óháðum endurskoðanda. (6. mgr. 57. gr.).

            Framkvæmdastjórnin ESB skal leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og Ráðið fyrir 5. júlí 2022, og á fjögurra ára fresti þar eftir, um það hvort störf Landsreglara séu í samræmi við meginregluna um sjálfstæði sem sett er fram í þessari lagagrein. (7. mgr. 57. gr.).

  • Almenn markmið Landsreglara

            Í störfum sínum sem tilgreind eru í þessari tilskipun skal Landsreglari grípa til allra réttmætra ráðstafana til þess að ná fram eftirfarandi markmiðum, samkvæmt skyldum sínum og innan þess valdsviðs sem markast af 59. gr., í nánu samráði við önnur viðeigandi innlend yfirvöld, þ.m.t. samkeppnisyfirvöld, svo og yfirvöld, þar með talin eftirlitsyfirvöld, nágrannaríkja og þriðju ríkja, eftir því sem við á, og með fyrirvara um valdheimildir (competence) þeirra. Landsreglari skal:

(a) stuðla að, í náinni samvinnu við Landsreglara annarra aðildarríkja, framkvæmdastjórn ESB og ACER, samkeppnishæfum, sveigjanlegum, öruggum og umhverfisvænum innri markaði fyrir raforku innan ESB og skilvirkri opnun markaða fyrir alla viðskiptavini og rafveitur (suppliers) innan ESB og tryggja viðeigandi skilyrði fyrir skilvirkan og áreiðanlegan rekstur raforkuneta, með hliðsjón af langtímamarkmiðum;

(b) gera ráðstafanir til þess að þróa samkeppnishæfa og vel starfandi svæðisbundna markaði yfir landamæri innan ESB með það fyrir augum að ná markmiðunum sem um getur í a-lið;

(c) afnema takmarkanir á viðskiptum með raforku milli aðildarríkjanna, þ.m.t. að þróa viðeigandi flutningsgetu yfir landamæri, til að mæta eftirspurn og efla samþættingu innlendra markaða sem auðveldað geta streymi rafmagns innan ESB;

(d) stuðla að, á hagkvæmasta máta, þróun öruggra, áreiðanlegra og skilvirkra kerfa, án mismununar, þannig að henti neytendum. Stuðla að getu raforkukerfa, í samræmi við almenn markmið orkustefnu [orkustefnu ESB], orkunýtni, sem og samþættingu stór- og smáframleiðslu raforku, frá endurnýjanlegum orkugjöfum og smávirkjunum (distributed generation),  samþættingu innan flutnings- og dreifikerfa og auðvelda rekstur þeirra í tengslum við önnur orkukerfi gass eða hita;

(e) auðvelda aðgang að raforkukerfi fyrir nýjar rafstöðvar og orkugeymslur, einkum fjarlægja hindranir sem gætu komið í veg fyrir aðgang nýrra markaðsaðila og rafmagn frá endurnýjanlegum orkugjöfum;

  1. f) tryggja að kerfisstjórar og kerfisnotendur hafi viðeigandi hvata, bæði til skemmri- og lengri tíma, til að auka skilvirkni, sérstaklega orkunýtni, í afköstum kerfisins og til að stuðla að samþættingu markaðarins;

(g) tryggja að viðskiptavinir njóti góðs af skilvirkni innlends markaðar, stuðli að virkri samkeppni og stuðli að því að tryggja mikla neytendavernd, í nánu samstarfi við viðeigandi yfirvöld neytendamála;

(h) hjálpa til við að uppfylla ríkar kröfur um altæka þjónustu (universal service[i]) og almannaþjónustu í raforkuframboði, stuðli að verndun viðkvæmra viðskiptavina og samhæfingu nauðsynlegra upplýsingaskipta, kjósi viðskiptavinur að skipta um rafveitu. (1. mgr. 58. gr.).

  • Skyldur og heimildir Landsreglara

            Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. skal Landsreglari hafa eftirtaldar skyldur með höndum:

(a) ákveða eða samþykkja, í samræmi við gagnsæ viðmið, flutnings-, eða dreifigjöld, aðferðir vegna þeirra, eða hvort tveggja;

(b) tryggja samræmi flutningskerfisstjóra og dreifikerfisstjóra og, þar sem við á, kerfiseigenda, svo og samræmi raforkufyrirtækja og annarra markaðsaðila við skyldur samkvæmt þessari tilskipun, reglugerð ESB 2019/943, netkóða[ii] og leiðbeiningar sem samþykktar voru samkvæmt 59., 60. og 61. gr. reglugerðar ESB 2019/943, og annan viðeigandi Evrópurétt, þ.m.t. varðandi málefni yfir landamæri, svo og samræmi við ákvarðanir ACER;

(c) tryggja, í náinni samvinnu við önnur eftirlitsyfirvöld, að ENTSO fyrir rafmagn og evrópskir dreifikerfisstjórar (E.DSO[iii]) uppfylli skyldur sínar samkvæmt þessari tilskipun, reglugerð ESB 2019/943, netkóða og leiðbeiningar sem samþykktar eru skv. 59. gr. , 60 og 61 reglugerðar ESB 2019/943, og annan viðeigandi Evrópurétt, þ.m.t. málefni yfir landamæri, svo og samræmi við ákvarðanir ACER. Greina í sameiningu hvort evrópskir flutningskerfisstjórar (ENTSO) og evrópskir dreifikerfisstjórar (E.DSO) uppfylla skyldur sínar. Hafi Landsreglari ekki getað náð samkomulagi innan fjögurra mánaða frá því að athugun hófst, í þeim tilgangi að skilgreina sameiginlega vanefndir, skal málinu vísað til ACER til ákvörðunar skv. 6. mgr. gr. 10. gr. reglugerðar ESB 2019/942;

(d) að samþykkja vörur og innkaupaferli fyrir aukaþjónustu sem ekki er tíðniþjónusta;

(e) innleiða netkóða og leiðbeiningar sem samþykktar voru skv. 59., 60. og 61. gr. reglugerðar ESB 2019/943 með innlendum ráðstöfunum eða, ef þess er krafist, samræmdar svæðisbundnar ráðstafanir eða ráðstafanir á sambandsgrundvelli (Union-wide);

(f) hafa samvinnu varðandi málefni yfir landamæri við Landsreglara eða yfirvöld hlutaðeigandi aðildarríkja og við ACER, einkum með þátttöku í starfi Landsreglara innan ACER, skv. 21. gr. reglugerðar ESB 2019/942;

(g) að fylgja og framkvæma allar lagalega bindandi ákvarðanir framkvæmdastjórnar ESB og ACER;

(h) að tryggja að flutningskerfisstjórar bjóði samtengingar (interconnector capacities) eins og framast er unnt, skv. 16. gr. reglugerðar ESB 2019/943;

(i) að gefa árlega skýrslu um starfsemi sína og efndir á skyldum, til viðeigandi yfirvalda í aðildarríkjunum, framkvæmdastjórnar ESB og ACER, þar með talið um þau skref sem tekin hafa verið og árangurinn sem náðst hefur varðandi hvert þeirra verkefna sem talin eru upp í þessari lagagrein;

(j) að tryggja að ekki sé um „krossstyrkingu“ (cross-subsidisation) að ræða á milli flutnings-, dreifingar- og veitustarfsemi eða annarrar raforkustarfsemi eða starfsemi af öðrum toga;

(k) hafi eftirlit með fjárfestingaráformum flutningskerfisstjóra og leggi fram í ársskýrslu sinni mat á fjárfestingaráformum flutningskerfisstjóra, hvað varðar samræmi hans/þeirra við alþjóða netuppbyggingaráætlun á sambandsgrundvelli. Slíkt mat getur falið í sér tilmæli til að breyta þessum fjárfestingaráætlunum;

(l) að fylgjast með og meta árangur flutningskerfisstjóra og dreifiveitna í tengslum við þróun snjallnets[iv] sem stuðlar að orkunýtingu og samþættingu orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, byggðu á takmörkuðum fjölda vísa, og gefa út landsskýrslu annað hvert ár, þar með taldar ráðleggingar;

(m) að setja eða samþykkja staðla og kröfur um gæði þjónustu og gæði framboðs eða leggja þar sitt af mörkum, ásamt öðrum lögbærum yfirvöldum, og hafa eftirlit með því hvernig farið hefur verið eftir og fara yfir árangur af reglum um netöryggi og áreiðanleika;

(n) hafa eftirlit með gagnsæi, þ.m.t. heildsöluverði, og tryggja að raforkufyrirtæki uppfylli skyldur um gagnsæi;

(o) að fylgjast með skilvirkni tengdri opnun og samkeppni markaða á heildsölu- og smásölustigi, þar með töldum á raforkuskiptum, verði fyrir viðskiptavini heimila þ.m.t. fyrirframgreiðslukerfi, áhrif breytilegra raforkuverðssamninga[v] (dynamic electricity price contracts) og notkun snjallmælakerfa, skiptigjöld, aftengingargjöld, gjöld fyrir viðhaldsþjónustu, veiting viðhaldsþjónustu, samband heimila og heildsöluverðs, þróun gjaldskráa og álaga á raforkuneti, og kvartanir frá viðskiptavinum heimila, svo og röskun eða takmörkun á samkeppni, þ.m.t. með því að veita viðeigandi upplýsingar og senda viðeigandi mál til  samkeppnisyfirvalda;

(p) að hafa eftirlit með takmörkunum í gegnum samninga, þar með talin einkaréttarákvæði (exclusivity clauses) sem komið geta í veg fyrir að viðskiptavinir geti samtímis samið við fleiri en eina rafveitu eða takmarka val þeirra um það, og, þegar það á við, tilkynnt innlendum samkeppnisyfirvöldum um slíka háttsemi;

(q) að hafa eftirlit með þeim tíma sem flutningskerfisstjórar og dreifikerfisstjórar taka til tenginga og viðgerða;

(r) stuðla að því að tryggja, ásamt öðrum viðeigandi yfirvöldum, að ráðstafanir til neytendaverndar séu árangursríkar og að þeim sé framfylgt;

(s) að birta tilmæli, að minnsta kosti árlega, í tengslum við samræmi raforkuverðs við 5. gr., og koma þessum tilmælum til samkeppnisyfirvalda, þegar það á við;

(t) að tryggja aðgang, án mismununar, að neyslugögnum viðskiptavina, aðgang að gögnunum á auðskiljanlegu samhæfðu formi, á landsvísu, og skjótan aðgang allra viðskiptavina að slíkum gögnum skv. 23. og 24. gr.

(u) hafa eftirlit með innleiðingu reglna er snerta hlutverk og ábyrgð flutningskerfisstjóra, dreifiveitustjóra, rafveitna, viðskiptavina og annarra markaðsaðila samkvæmt reglugerð ESB 2019/943;

(v) hafa eftirlit með fjárfestingum í raforkuframleiðslu og geymslugetu í tengslum við afhendingaröryggi;

(w) hafa eftirlit með tæknilegu samstarfi milli flutningskerfisstjóra ESB og þriðju ríkja;

(x) að stuðla að samhæfingu aðferða við gagnaskipti fyrir mikilvægustu markaði á svæðisbundnu stigi;

(y) hafa eftirlit með tiltækum „samanburðartækjum“[vi] [til að bera saman tilboð] sem uppfylla kröfur sem settar eru fram í 14. gr.

(z) hafa eftirlit með afnámi óréttmætra hindrana og takmarkana á þróun raforkunotkunar frá heimarafstöðvum [self-generated electricity] og á þróun orkusamfélaga almennings.

            Í 2. mgr. 59. gr. 2. segir að ef aðildarríki hefur kveðið á um það, geti önnur yfirvöld en Landsreglari uppfyllt eftirlitsskyldur sem settar eru fram í 1. mgr. Í þeim tilvikum skulu upplýsingarnar sem fylgja eftirlitinu gerðar aðgengilegar Landsreglara eins fljótt og auðið er.

            Samtímis því að halda sjálfstæði sínu, með fyrirvara um eigin hæfni og í samræmi við meginreglur um betra eftirlit, skal Landsreglari, eftir því sem við á, hafa samráð við flutningskerfisstjóra og, eftir því sem við á, hafa náið samstarf við önnur viðeigandi innlend stjórnvöld við framkvæmd skyldna sem settar eru fram í 1. mgr.

            Allt sem Landsreglari eða ACER samþykkja, samkvæmt þessari tilskipun, er með fyrirvara um og hefur ekki áhrif á tilhlýðilega beitingu valds í framtíðinni af hálfu Landsreglara, samkvæmt þessari grein, eða viðurlögum sem beitt er af öðrum viðeigandi yfirvöldum eða framkvæmdastjórn ESB.

            Samkvæmt 3. mgr. skulu aðildarríkin sjá til þess að Landsreglara séu veittar heimildir sem gera honum kleift að framkvæma skyldur sem um getur í þessari grein á skilvirkan og skjótan hátt. Í því skyni skal Landsreglari hafa að minnsta kosti eftirfarandi valdheimildir til:

(a) töku bindandi ákvarðana um raforkufyrirtæki;

(b) rannsókna á virkni raforkumarkaða og ákveða og beita hóflegum [sbr. meðalhófsregluna] og viðeigandi ráðstöfunum til þess að stuðla að virkri samkeppni og tryggja eðlilega starfsemi markaðarins. Eftir því sem við á, skal Landsreglari einnig hafa heimildir til samstarfs við innlend samkeppnisyfirvöld og eftirlitsaðila á fjármálamarkaði eða framkvæmdastjórnin ESB vegna rannsókna sem varða samkeppnislög;

(c) að krefjast allra upplýsinga frá raforkufyrirtækjum sem skipta máli fyrir verkefni hans [Landsreglara], þ.m.t. rökstuðningur fyrir synjun á aðgangi þriðja aðila og allar upplýsingar um nauðsynlegar ráðstafanir til að styrkja raforkunetið;

(d) að beita raforkufyrirtæki, í réttu hlutfalli við afbrot, fælandi viðurlögum, upppfylli þau ekki skyldur sínar samkvæmt þessari tilskipun, reglugerð ESB 2019/943, eða viðeigandi lagalega bindandi ákvörðunum Landsreglara eða ACER, eða leggi til að lögbær dómstóll beiti viðurlögum. Landsreglari hefur heimildir til að leggja á eða leggja til viðurlög, álagningu allt að 10% af árlegri veltu fyrirtækis flutningskerfisstjóra, eða allt að 10% af ársveltu lóðrétt-samþætts fyrirtækis, eftir atvikum vegna vanefnda á skyldum þeirra samkvæmt þessari tilskipun; og

(e) viðeigandi rannsóknarheimildir og viðeigandi heimildir til þess að leysa deilur samkvæmt 2. og 3. mgr. 60. gr. (

            Landsreglari, sem staðsettur er í aðildarríki þar sem evrópskir flutningskerfisstjórar (ENTSO) eða evrópskir dreifikerfisstjórar (E.DSO) hafa aðsetur, skal hafa valdheimildir til þess að beita áhrifaríkum og fælandi viðurlögum, í réttu hlutfalli við afbrot, þegar þeir uppfylla ekki skyldur sínar samkvæmt þessari tilskipun, reglugerð ESB 2019/943 eða viðeigandi lagalega bindandi ákvörðunum Landsreglara eða ACER eða leggja til að lögbær dómstóll beiti slíkum viðurlögum. (4. mgr. 59. gr.).

            Til viðbótar skyldum sem honum eru faldar samkvæmt 1. og 3. mgr. þessarar greinar, þegar óháður kerfisstjóri hefur verið útnefndur samkvæmt 44. gr., skal Landsreglari:

(a) hafa eftirlit með því að eigandi flutningskerfis og óháður kerfisstjóri uppfylli skyldur sínar samkvæmt þessari lagagrein og beiti viðurlögum við vanefndum í samræmi við d-lið 3. mgr.

(b) hafa eftirlit með samskiptum óháðs kerfisstjóra og flutningskerfiseiganda til að tryggja að óháður kerfisstjóri uppfylli skyldur sínar, og sérstaklega samþykkja samninga og setja niður deilur (dispute settlement authority) á milli óháðs kerfisstjóra og eiganda flutningskerfisins með tilliti til kvartana sem lagðar eru fram af öðrum hvorum aðila skv. 2. mgr. 60. gr.

(c) með fyrirvara um málsmeðferðina í c-lið 2. mgr. 44. gr., á undan fyrstu tíu ára netþróunaráætlun, samþykkja fjárfestingaráætlun og margra ára netuppbyggingaráætlun sem lögð er fram að minnsta kosti annað hvert ár af óháðum kerfisstjóra;

(d) tryggja að aðgangsgjöld raforkunets, sem óháður kerfisstjóri innheimtir, feli í sér þóknun fyrir eiganda/eigendur raforkunetsins, sem sé fullnægjandi vegna eigna raforkunetsins og allra nýrra fjárfestinga þar að lútandi, að því gefnu að þær séu fjárhagslega verjandi og hagkvæmar;

(e) hafa skoðunarheimildir, þ.m.t. ótilkynntar skoðanir, í húsnæði eiganda flutningskerfis og óháðs kerfisstjóra; og

(f) fylgjast með gjöldum vegna yfirálags[vii] (congestion) sem óháður kerfisstjóri innheimtir í samræmi við 2. mgr. 19. gr. reglugerðar ESB 2019/943. (5. mgr. 59. gr.).

            Auk skyldna og valdheimilda sem Landsreglara eru faldar samkvæmt 1. og 3. mgr. þessarar lagagreinar, þegar flutningskerfisstjóri hefur verið tilnefndur í samræmi við 3. bálk VI. kafla, skal Landsreglari hafa að minnsta kosti eftirfarandi skyldur og valdheimildir til að:

(a) beita viðurlögum í samræmi við d-lið 3. mgr. vegna mismununar í þágu lóðrétt-samþætts fyrirtækis;

(b) hafa eftirlit með samskiptum á milli flutningskerfisstjóra og lóðrétt-samþætts fyrirtækis, til að tryggja samræmi flutningskerfisstjóra við skyldur sínar;

(c) setja niður deilur á milli lóðrétt-samþætts fyrirtækis og flutningskerfisstjóra með tilliti til hvers kyns kvartana sem lagðar eru fram skv. 2. mgr. 60. gr .;

(d) hafa eftirlit með viðskiptalegum og fjárhagslegum samskiptum, þ.m.t. lán á milli lóðrétt-samþætts fyrirtækis og flutningskerfisstjóra;

(e) samþykkja alla viðskipta- og fjárhagslega samninga á milli lóðrétt-samþætts fyrirtækis og flutningskerfisstjóra með því skilyrði að þeir uppfylli markaðsskilyrði;

  1. f) óska eftir rökstuðningi frá lóðrétt-samþættu fyrirtæki þegar regluvörður tilkynnir í samræmi við 4. mgr. 50. gr. Rökstuðningurinn innihaldi einkum sönnun þess að engin mismunun hafi átt sér stað, til hagsbóta fyrir lóðrétt-samþætta fyrirtækið;

(g) ákvarða skoðanir, þ.m.t. ótilkynntar, í húsnæði lóðrétt-samþætts fyrirtækis og flutningskerfisstjóra; og

(h) að úthluta öllum eða einstökum verkefnum flutningskerfisstjóra til óháðs kerfisstjóra sem skipaður er í samræmi við 44. gr., ef um er að ræða ítrekuð brot flutningskerfisstjóra á skyldum sínum samkvæmt þessari tilskipun, einkum ef um er að ræða ítrekaða mismunun í þágu lóðrétt-samþætts fyrirtækis. (6. mgr. 59. gr.).

            Landsreglari skal (nema þegar Orkustofnun Evrópu (ACER) er til þess bær að bæta og samþykkja skilmála og skilyrði eða aðferðafræði við innleiðingu netkóða og leiðbeininga, samkvæmt VII. kafla reglugerðar ESB 2019/943 skv. 2. mgr. 5. gr. reglugerðar ESB 2019/942, vegna samræmingarsjónarmiða) bera ábyrgð á því að bæta eða samþykkja nægjanlega fyrir gildistöku þeirra, aðferðir, sem notaðar eru að minnsta kosti á landsvísu, til að reikna út eða setja skilmála og skilyrði fyrir:

(a) tengingum og aðgangi að landsnetum, þ.m.t. flutnings- og dreifigjöldum eða aðferðafræði þeirra. Þessar gjaldskrár eða aðferðafræði skulu gera kleifar nauðsynlegar fjárfestingar í raforkunetum, þannig að fjárfestingarnar tryggi rekstrarhæfi netanna;

(b) veitingu stoðþjónustu sem skal veitt á hagkvæmasta máta og skapa viðeigandi hvata fyrir netnotendur til þess að koma á jafnvægi á milli innstreymis og útstreymis [rafmagns]. Skal slík þjónusta veitt á sanngjarnan máta með jafnræði og byggjast á hlutlægum forsendum; og

(c) aðgangur að innviðum yfir landamæri, þ.m.t. verklagsreglur vegna afkastagetu/afhendingargetu (capacity) og stjórnun á burðargetu (sbr. congestion). (7. mgr. 59. gr.).

            Birta skal aðferðafræðina eða skilmála og skilyrði, sem um getur í 7. mgr. (8. mgr. 59. gr.). Í því skyni að auka gagnsæi á markaði og veita öllum hagsmunaaðilum allar nauðsynlegar upplýsingar og ákvarðanir, eða tillögur um ákvarðanir, varðandi flutnings- og dreifigjöld, eins og um getur í 3. mgr. 60. gr., skal Landsreglari birta ítarlega aðferðafræði og undirliggjandi kostnað sem lagður er til grundvallar við útreikning á viðeigandi aðgangsgjöldum, en jafnframt halda trúnað um viðskiptalegra viðkvæmar upplýsingar. (9. mgr. 59. gr.).

            Landsreglari skal hafa eftirlit með álagsstjórnun [congestion] í innlendum raforkukerfum, þ.m.t. samtengingum, (interconnectors) og framkvæmd reglna um álagsstjórnun. Í þeim tilgangi skulu flutningskerfisstjórar eða stjórnendur markaða leggja fram reglur um álagsstjórnun, þ.m.t. afkastagetu/afhendingargetu, til Landsreglara. Landsreglari getur farið fram á breytingar á reglunum. (10. mgr. 59. gr.).

  • Að lokum

            Áfram verður haldið í næstu grein að ræða Landsreglara og tengd ákvæði í tilskipun 2019/944 ESB. Góðar stundir.

[i]      Sjá einnig: Universal Service. https://ec.europa.eu/digital-single-market/en/content/universal-service-0

[ii]    Electricity network codes and guidelines. https://ec.europa.eu/energy/topics/markets-and-consumers/wholesale-energy-market/electricity-network-codes_en

[iii]   E.DSO. https://www.edsoforsmartgrids.eu/home/

[iv]    Sjá einnig: European Commission. (2016). Assessment framework for Projects of Common Interest in the field of Smart Grids. https://ec.europa.eu/energy/sites/ener/files/documents/assessment_framework_for_projects_of_common_interest_inthe_field_of_smart_grids_pre-final.pdf

[v]     Sjá t.d.: Union of the Electricity Industry - Eurelectric. (2017). Dynamic pricing in electricity supply. http://www.eemg-mediators.eu/downloads/dynamic_pricing_in_electricity_supply-2017-2520-0003-01-e.pdf

[vi]    Sjá t.d.: European Commission. Comparison tool websites run by a national authority. https://ec.europa.eu/energy/topics/markets-and-consumers/energy-consumer-rights/protecting-energy-consumers/comparison-tool-websites-run-national-authority_en

[vii]  Sjá einnig: Tola, P. Looking for a Cure to Congestion? (Hint: It’s not Building More Lines). POWERGRID International. https://www.power-grid.com/2016/06/07/looking-for-a-cure-to-congestion-hint-it-s-not-building-more-lines/