Fara í efni

RÖKSEMDIN UM AÐ EKKI VERÐI VIKIÐ AF VEGINUM - LAUSNIN Á LÝÐRÆÐISVANDANUM

            Hún hljómar sérkennilega „röksemdin“ um að orkupakkamálið hafið í raun verið afgreitt árið 2003. Þar er átt við innleiðingu „annars orkupakkans“ (aðra orkutilskipun ESB). „Rökin“ fela í sér að þar sem upphaf á einhverri vegferð hafi verið markað verði ekki af veginum vikið með nokkru móti. Sjónarmiðið lýsir ekki eingöngu mikilli nauðhyggju heldur og lítilli trú á það að hægt sé að endurskoða rangar ákvarðanir. Það má nefnilega færa mjög gild rök fyrir því að þessi vegferð hafi verið mistök, alveg frá upphafi og mistök ber að leiðrétta. En í stað þess að viðurkenna mistökin, í ljósi slæmrar reynslu [s.s. meira umstang, hærra raforkuverð, brask, sbr. HS orku] virðast menn telja að eina leiðin sé að ganga enn lengra.

            Þá sýnist ljóst að ráðamenn hafa ekki staðið vörð um íslenska hagsmuni og framið „pólitísk umboðssvik“ enda hefur ekkert umboð frá þjóðinni legið fyrir í þessu máli og það ekki verið sérstakt kosningamál. Stjórnmálamenn eru því umboðslausir til þess að binda þjóðina við nefnda orkupakka. Það vandamál mætti raunar vel leysa með þjóðaratkvæðagreiðslu en þingið hefur ekki sýnt vilja til þess. Ekkert væri þó lýðræðislegra.

            Ef Alþingi fer þá leið að hundsa þjóðarviljann, og samþykkir málið þannig, er ljóst að óánægjan og andstaðan hverfur ekki við þá ákvörðun. Jafnvel má halda því fram að þá fyrst byrji andstaðan fyrir alvöru. Sú hugmynd hefur heyrst að aðilar á Íslandi, sem láta sig málið varða, ættu að rita erindi til sameiginlegu EES-nefndarinnar og framkvæmdastjórnar ESB, þar sem skýrt væri frá raunverulegri stöðu málsins. Það er ágæt hugmynd. Með því móti mætti líka leita svara við spurningum sem ekki hafa enn fengist viðhlítandi svör við frá íslenskum ráðamönnum. Þeir virðast telja framtíðar orkumál þjóðarinnar sitt „einkamál“ sem „öðrum komi ekki við“.

            Þótt menn rati inn á rangan veg í upphafi, getur það ekki talist gild ástæða fyrir því að halda vegferðinni áfram. Sumir nefna hótanir, beinar og óbeinar, sem muni raungerast verði vikið af veginum. Það mun koma í ljós. Yfirleitt er mælt með því að fólk losi sig út úr „ofbeldissamböndum“ af hvaða tagi sem vera skal. Það gildir einnig í þessu tilviki. Viðskiptasambönd ríkja geta aldrei byggst á ofbeldi (þótt sú kunni stundum að vera raunin) og eiga slík sambönd ekkert skylt við „frjáls viðskipti“.

            Það hefur verið nokkuð áberandi, undanfarnar vikur, að „varðhundar valdsins“ á Íslandi telja sig geta skilgreint mörk málfrelsis og „málþófs“. Ef þeim líkar ekki gagnrýni þá er hún stimpluð sem „málþóf“, enda hafi „kerfið þegar sagt sitt álit“. Þetta er framsetning sem enginn hugsandi maður á að taka gilda – þvert á móti vísa út í hafsauga. Sú staðreynd að umboðslausir þingmenn fara gróflega á svig við þjóðarviljann, og það nánast án umræðu, getur aldrei talist endanlegur mælikvarði á þýðingu máls og mikilvægi. En „varðhundar valdsins“ verða ekki skildir öðruvísi en svo að þeir telji stuðningsmenn orkupakka 3 hafa notað málfrelsi sitt en að aðrir séu sekir um „málþóf“. Þetta lýsir enn og aftur firringunni, sem marga þjakar, fyrirlitningunni á skoðunum annara og ákaflega lítilli lýðræðisást.

            Í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er fjallað um tjáningarfrelsi. Ekki verður ráðið af henni að ræðutími manna skuli bundinn við ákveðna tímalengd. Í 2. mgr. 10. gr. segir svo: „Þar sem af réttindum þessum leiðir skyldur og ábyrgð er heimilt að þau séu háð þeim formsreglum, skilyrðum, takmörkunum eða viðurlögum sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, landvarna eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna, mannorði eða réttindum og til þess að koma í veg fyrir uppljóstran trúnaðarmála eða til þess að tryggja vald og óhlutdrægni dómstóla.[i]

            Það er því rangt sem „varðhundar valdsins“ halda fram þegar þeir segja „málþóf“ ekkert skylt málfrelsi. Langar umræður (og valdið skilgreinir sem „málþóf“) eru einmitt ein mynd á málfrelsinu. Beitingu 71. gr. íslenskra þingskapa (sem fjallar um að hægt sé að stöðva umræður á Alþingi með „ofbeldi“) þyrfti þá að fela sér að nauðsyn bæri til þess, vegna; þjóðaröryggis, landvarna, almannaheilla, glundroða, glæpa, heilsu, siðgæðis, mannorðs og réttinda.

            Það má telja ólíklegt að Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi íslenska ríkinu í hag í máli sem fjallaði um það hvort „málþóf“ um brýn þjóðfélagsmál á Alþingi falli undir nefndar takmarkanir á málfrelsinu. Kemur þar og til skoðunar 49. gr. [þinghelgi]  íslensku stjórnarskrárinnar. Í öllu falli verður 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu ekki túlkuð þannig að þingmenn, almennt, hafi minni rétt til þess að tjá skoðanir sínar en annað fólk. Það er heldur ekkert lýðræðislegt við það að meirihluti Alþingis þröngvi málum í gegnum þingið í mikilli andstöðu við umbjóðanda sinn, þjóðina sjálfa. Það eru ekki „leikreglur lýðræðisins“ eins og sumir virðast þó telja. En lausnin á lýðræðisvandanum kann að vera í sjónmáli. Skoðum þá stuttlega eina útfærslu á beinu lýðræði.

„Þráðbeint lýðræði“

            Þegar hugmyndasagan er rakin, og þróun lýðræðis og valds vegin og metin í ljósi hennar, verður ljóst að flest tekur breytingum. Það á ekki síst við um þróun lýðræðis. Grundvallarrit í þeim fræðum má telja Ríkið eftir gríska heimspekinginn Platon. Hann leggur um margt annan skilning í „lýðræði“ en flestir gera nú á dögum og lýsti ákveðnu vantrausti á lýðræði hinna mörgu. Ekki verður fjallað um stórmerk skrif Platons að sinni en lögð til leið almenns þátttökulýðræðis sem kalla mætti „þráðbeint lýðræði“.

            Hugmyndin byggir á þróun tölvutækninnar. Þegar vandkvæði sem snerta öryggi í tölvusamskiptum, auðkenningar og annað slíkt hafa verið leyst, þannig að viðunandi sé, er ekkert því til fyrirstöðu að hefjast handa við innleiðingu „þráðbeins lýðræðis“. Alþingi verið lagt niður. Meðal síðustu verka þess verði að breyta stjórnarskrá og almennum lögum þannig að samræmist hinu nýja fyrirkomulagi. Alþingi leggi í raun sjálft sig niður. Hvað tekur við? Í stuttu máli eftirfarandi. Hver íslenskur þegn sem kosningarétt hefur, fær sérstaka auðkenningu sem hann/hún notar til þess að kjósa úr eigin tölvu. Þetta hefur oft verið rætt. Það merkir að í stað 63 þingmanna sjá allir kosningabærir menn um lagasetninguna [„samfelld þjóðaratkvæðagreiðsla“ ef menn vilja svo kalla].

            Þetta gerist þannig að kjósandinn (löggjafarvaldið) skráir sig inn á ákveðið svæði og auðkennir sig um leið. Þá birtist sérstakt viðmót þar sem viðkomandi getur skoða dálk undir fyrirsögninni: „Mál á dagskrá“. Þar birtist langur listi mála sem liggur fyrir að greiða þurfi atkvæði um. En þótt Alþingi hafi verið lagt niður starfar eftir sem áður stjórnsýsla sem heldur utan um hið nýja fyrirkomulag, setur mál á dagskrá, sér um birtingu nýrra laga og annað sem þessu fylgir. Öllum sem hafa kosningarétt verður þó að sjálfsögðu heimilt að setja fram mál eftir eigin óskum líka. Um þau mál ræður vægi atkvæða eins og öll önnur mál.

            Maður/kona sem drekkur sitt morgunkaffi getur um leið skráð sig inn á „þingvefinn, valið mál úr listanum [„Mál á dagskrá“] sem viðkomandi hefur áhuga á, sótt sér þar kynningarefni um málið og síðan greitt um það atkvæði, innan ákveðins tíma sem þarf að skilgreina. Í almennum þingkosningum er engin krafa gerð um undirbúning eða þekkingu á viðfangsefni. Sama gildir í þessu tilviki. Hins vegar verður lagasetning vandaðri eftir því sem upplýsingar og undirbúningur eru betri. Það gildir líka um kjörna þingmenn! Mörg dæmi eru um að þeir hafi ekki kynnt sér mál en þó greitt um þau atkvæði. Það eru mun meiri líkur á því að allir kosningabærir menn greini sjónarmið sem 63 þingmenn sjá ekki, eða vilja ekki sjá, sökum spillingar og flokkatengsla. Í hinu nýja kerfi verður landið allt eitt kjördæmi, allt er gert á landsvísu. Einn maður, eitt atkvæði.

            Fyrst um sinn, að minnsta kosti, munu koma fram smávægilegir gallar á framkvæmdinni en þeir munu slípast fljótt af þegar fólk sér hversu auðvelt er að nota hið nýja kosningakerfi. Fólk á eftirlaunum mun t.a.m. kjósa sem aldrei fyrr, enda engar hindranir lengur til staðar við að komast á kjörstað. Fartölvan er allt sem þarf. Breytingatillögur má að sjálfsögðu segja fram við lagafrumvörp og þær skrifaðar í ákveðið box inn á „þingsíðunni“ eða skilað sem viðhengi. Þar koma einnig umsagnir um frumvörp, allt sem einu frumvarpi viðkemur.

            Nýja fyrirkomulagið mun auka mjög lýðræðisáhuga og virka ákvarðanatöku almennings. Samt er borðleggjandi að ýmsir þrýstihópar (t.d. fjárglæframenn og fulltrúar þeirra) munu reyna að „leggja kerfið undir sig“. En hvernig er þetta í dag? Skortir eitthvað upp á völd fjárglæframanna yfir Alþingi? Að lokum ræður þjóðarviljinn, tær og ómengaður – ákvarðanir teknar beint af fólkinu sjálfu. Sumir munu alltaf „verða kjósandi“ um mál sem þeir hafa jafnvel engan áhuga fyrir og hafa ekki kynnt sér. Aðrir munu kynna sér mjög vel ákveðin mál og kjósa síðan um þau. Enn aðrir munu ekki sýna því áhuga að kynna sér málin og greiða um þau atkvæði. Það er í góðu lagi, einmitt lýðræði, svona virkar það! Engin minnsta ástæða er til þess að ætla að ákvarðanataka sem tekin er af þúsundum manna og kvenna sé verri [öðru nær] en sú sem tekin er af 63 þingmönnum. Eða telja menn þessa 63 þingmenn slík gáfumenni að standist engan samjöfnuð? Ef svo er, hvað styður þá ályktun?

            Um nefndarstörf gildir það sama og um þingmálin. Á nýju gáttinni („þingvefnum“) munu af og til birtast auglýsingar sem þessi: „Auglýst er eftir tveimur fulltrúum til þess að starfa í fjárlaganefnd. Umsóknarfrestur er til (dags. ár). Þeir sem hafa áhuga skrái nafn og kennitölu. Ráðningartími er 3-6 mánuðir. - Stjórnsýsluskrifstofan.“ Svona auglýsingar verða fljótt kunnuglegar á „þingvefnum“. Almenningur kýs síðan beint, í þingnefndirnar, úr hópi þeirra sem gefa sig fram og vilja sinna nefndarstörfum. Allt fullkomlega lýðræðislegt. Engar klíkuráðningar.

Hvað svo?

            Væri hið nýja fyrirkomulag nú þegar við lýði hefði klúðrið í kringum orkupakka 3 aldrei orðið, búið væri að leiðrétta ranglætið sem fylgir úthlutun aflaheimilda, „framsalið“ sem svokallaðir „félagshyggjuflokkar“ komu á, og fjölmörg önnur mál. Alþingishúsið yrði þó ekki jafnað við jörðu [og hótel byggt á grunninum] heldur notað sem „minjasafn“, um pólitíska spillingu, fyrirgreiðslu og valdníðslu gegn þjóðinni. Erlendis tíðkast að hafa til sýnis húsakynni fólks með afar vafasama fortíð.

            Þar yrði sett upp kerfi með „sýndarveruleika horfins tíma“ sem aftur myndi draga að sér fjölda erlendra ferðamanna. Gestir gætu hlýtt á gamlar þingræður valdsækinna þingmanna og ráðherra. Fengið leiðsögn og lýsingar á sjálftöku þeirra, hvernig þeirri komu sér upp ráðum til þess að skýla sér á bakvið í sjálftökunni um leið og þeir hækkuðu fílabeinsturninn.

            Leiðsögumenn munu skýra vel fyrir gestum að þótt íslenska þjóðin hafi löngum þraukað hafís og hallæri þá hafi Alþingi þó komist næst því að leggja þjóðina alveg að velli. Þeirri skoðun verður lýst, að stofnun lýðveldis á Íslandi hafi fljótt snúist upp í þrönga hagsmunagæslu, fyrir tiltölulega fámennan hóp fólks - gegn þjóðinni.

            Menn munu lofa samtakamáttinn, fyrir að hafa losað þjóðina við þingmenn og alla þá spillingu sem þeim hefur löngum fylgt. Fyrir það að hafa fært valdið heim til fólksins sjálfs, þangað sem valdið er upprunnið. „Milliliðurinn“ Alþingi mun smám saman falla í gleymskunnar dá en þó geymast á söfnum og í sögubókum.

            Enn fremur, „vandamálið“ um það hvenær þingmenn komast í sumarfrí hefur verið leyst um alla framtíð. Enda getur fólk kynnt sér og kosið um mál hvort sem það dvelur á Kanaríeyjum eða í Kína. Kosningarétturinn fylgir einstaklingnum[ii] hvar sem hann er staddur.[iii]

[i]      Svartletrun mín.

[ii]    Sjá einnig: Simeon L. Guterman, The Principle of the Personality of Law in the Early Middle Ages: A Chapter in the Evolution of Western LegalInstitutions and Ideas, 21 U. Miami L. Rev.259 (1966)Available at: http://repository.law.miami.edu/umlr/vol21/iss2/1

[iii]   Sjá enn fremur: https://www.vox.com/world/2018/6/19/17469176/roman-empire-maps-history-explained