Fara í efni

LÖG UM STEFNUMÓT, VIÐREYNSLU OG KYNNI

Greinargerð

 I. Um frumvarpið

            Frumvarp þetta er samið eftir vandaða og ýtarlega umfjöllun fjölda samtaka og einstaklinga í þjóðfélaginu. Þar má nefna sérfræðinga ráðuneyta, fulltrúa frá Kvenréttindafélagi Íslands, Femínistafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Jafnréttisstofu, Félag kvenna í atvinnulífinu, alla þingflokka á Alþingi, Samtök karlmanna um öruggt kvennafar, Félag fólks um örugg samskipti kynjanna, Félag áhugafólks um örugg stefnumót, Félag fólks um lengri hjónabönd og Samtök gegn framhjáhöldum. Þá hefur fjöldi einstaklinga lagt fram gagnlegar ábendingar um það sem betur mætti fara.

            Lengi hefur ríkt hálfgert ófremdarástand í stefnumótamenningu Íslendinga. Fólki hefur liðist að kynnast nánast hverjum sem er, hvar og hvenær sem er. En með tilkomu Internetsins hafa þessi mál algerlega farið úr böndunum. Karlmenn hafa jafnvel káfað á konum, án þess að nein skilgreining á káfi eða káfsleyfi lægi fyrir. Í sumum tilvikum hafa liðið allt að 30 ár þangað til ósvífnin hefur orðið uppvís! Frumvarpið tekur af allan vafa um það að allt káf og viðreynsla eru óheimil án skriflegs leyfis Káfstofnunar ríkisins.

            Megintilgangur þessa frumvarps, og hér liggur fyrir, er að stofnanabinda allt sem lýtur að stefnumótum, viðreynslu og kynnum. Málaflokkurinn færist undir valdsvið sérstakrar ríkisstofnunar, Káfstofnunar ríkisins. Með lögunum er í fyrsta skipti á Íslandi skilgreint hvernig stefnumótum skuli háttað, hvaða skilyrði þarf að uppfylla til stefnumóta og mögulegra kynna í framhaldi af þeim. Öllum sem hyggja á stefnumót/kynni verður gert skylt að framvísa sérstöku eyðublaði („rauða eyðublaðinu“) við þann aðila sem þeir fella hug til, sbr. 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins.

            Líflegar umræður hafa oft skapast á nefndarfundum og þeir dregist úr hófi fram, sökum þess að margir hafa fundið sig knúna til þess að fara með skemmtiefni og kveða vísur, enda snertir frumvarpið flesta ef ekki alla Íslendinga, meira eða minna, og því eðlilegt að margir hafi á því skoðun. Á síðasta nefndarfundinum kvað fulltrúi Samtaka karlmanna um öruggt kvennafar [SKÖK] eftirfarandi vísu:

Atlot þiggja öðrum frá,
ýmsum þykir leitt.
Aldrei kynni komast á,
ef káfað ekki neitt.

            Spunnust af þessu langar umræður sem stóðu fram á nótt. Fundarmenn höfðu gleymt stund og stað, sumir mættu ekki til þingfundar á Alþingi, en rökræddu stefnumót, káf og viðreynslu sem aldrei fyrr. Sumir voru jafnvel orðnir nokkuð ölvaðir, enda nóg af áfengi og dýrum veigum á borðum. Einn fundarmanna vildi þá ræða frumvarp um áfengi í búðir og afnám einkasölu ríkisins á áfengi, en fulltrúi frá Femínistafélagi Íslands sussaði á hann, sagðist ekki sjá hvað það kæmi málinu við sem verið væri að ræða. Hún kvað káf í lagi út af fyrir sig en það yrði að fá leyfi til þess [káfsleyfi]. Fulltrúi „SKÖK“ svaraði þá með annari vísu:

Vandar sig og virðir mörk,
víst um leyfi biður.
Mjög þér hafið mjúkan börk,
má ég káfa á yður?

            Við þetta lá nærri að fundurinn leystist upp. Sumir gerðu hróp að fulltrúa „SKÖK“ á fundinum, sögðu hann hafa í frammi kynferðislega áreitni, en fulltrúinn varðist fimlega. Fundarmenn voru að lokum sammála um það að káf gæti aldrei komið til álita nema fyrir lægi leyfi Káfstofnunar. Þegar ró hafði aftur færst yfir fundarmenn barst talið því næst að hinni „einu réttu aðferð“ við stefnumót. Fulltrúi, í Félagi fólks um örugg samskipti kynjanna, kvað þá vísu:

Rökhugsun leiðir frá refilstig,
rétt sé að verki staðið.
Ætlirðu að fara á fjörur við mig,
finndu þá eyðublaðið.

            Fulltrúi Mannréttindaskrifstofu Íslands óskaði eftir að fá að segja nokkur orð. Hann lýsti talsverðum áhyggjum vegna einkalífsverndar sem hann taldi skorta í frumvarpinu. Benti hann þar sérstaklega á 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og fjallar um vernd einkalífs. Sérstaklega varð honum tíðrætt um 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins. Taldi hann þetta ákvæði algerlega ósamrímanlegt 1. og 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmálans. Þá gerði hann og athugasemdir við 5. mgr. 6. gr. frumvarpsins og fjallar um geymslu á upptökum. Sérstaklega lýsti hann áhyggjum af því ef upptökur af nánum kynnum rötuðu á Internetið. Kvaðst hann ekki sjá fyrir sér allt það gagnamagn sem yrði til vegna stefnumóta og hvernig geymsla gagnanna yrði tryggð með öruggum hætti. Benti fulltrúinn þar á tölvuinnbrot og aðrar hættur í því sambandi. Ræddi hann nokkuð um reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins (ESB) 2016/679 um vinnslu og vernd persónuupplýsinga og taldi frumvarpið í talsverðri mótsögn við ákvæði hennar.

            Þegar þarna var komið sögu var þingmaður forystuflokksins sofnaður fram á borðið, enda búinn að tæma þau vínföng sem næst voru. Aðrir ræddu um laxveiðar, prjónaskap, menntun barna sinna, ferðalög til fjarlægra heimshluta og stórkostlega frumkvöðla sem væru að umbylta heiminum.

            Fleira var ekki rætt á fundinum. Það var samdóma álit fundarmanna að mikil réttarbót fælist í hinu nýja frumvarpi.

Lög um stefnumót, viðreynslu og kynni

2020 nr. 504 17. júní

  1. kafli. Gildissvið, skilgreiningar og markmið
    Gildissvið.
    1. gr.

□ 1. Lög þessi gilda um stefnumót, viðreynslu og kynni fólks á Íslandi, eins og þau eru skilgreind í lögum þessum.

□ 2. Stefnumót.

□ 3. Viðreynslu, þar sem kona kemur auga á karlmann, eða verður á vegi karlmanns, og hyggst reyna við hann með styttri eða lengri kynni í huga.

□ 4. Viðreynslu, þar sem karlmaður kemur auga á annan karlmann, eða verður á vegi karlmanns, og hyggst reyna við hann með styttri eða lengri kynni í huga.

□ 5. Viðreynslu, þar sem kona kemur auga á aðra konu, eða verður á vegi annarar konu, hyggst reyna við hana með styttri eða lengri kynni í huga.

□ 6. Viðreynslu, þar sem kynlaus persóna kemur auga á aðra persónu, eða verður á vegi annarar persónu, og hyggst reyna við hana með styttri eða lengri kynni í huga.

□ 7. Kynni sem mögulega kunna að leiða af stefnumótum og viðreynslu skv. töluliðum 2-6.

2. gr. Lögin eru ófrávíkjanleg.

Ekki er heimilt að reyna við eða kynnast annari persónu með öðrum hætti en greinir í lögum þessum.

Skilgreiningar.

■ 3. gr.

Í lögum þessum er merking hugtaka sem hér segir:

□ 1. Viðreynsla: athæfi þar sem persóna sýnir annari persónu sérstakan áhuga, með tilliti til kynna, og miðlar þeim áhuga til persónunnar á þar til gerðu eyðublaði - rauða eyðublaðinu“.

□ 2. Kynni: náin samvera tveggja persóna og leiða kann af viðreynslu, þar sem aðilar deila lífssýn, áhugamálum og öðru sem sameiginlegt kann að reynast.

□ 3. Káfstofnun ríkisins [Kr]: ríkisstofnun, sett á laggir með sérstökum lögum frá Alþingi, og hafi það hlutverk að tryggja öryggi í viðreynslu og nánum samskiptum fólks.

□ 4. Rauða eyðublaðið“: þar til gert, rautt, eyðublað, útgefið af Káfstofnun ríkisins, ætlað til viðreynslu og eftir atvikum til nánari kynna.

□ 5. Káfsfulltrúi: embættismaður á vegum Káfstofnunar ríkisins sem skal hafa eftirlit með viðreynslu á samþykktum stefnumótum og mögulegum kynnum sem af stefnumótum kunna að leiða.

□ 6. Heimfara- og samfaraleyfi: leyfi útgefið af Káfstofnun ríkisins til áframhaldandi kynna, þar sem káfsfulltrúi fylgir aðilum eftir í heimahús, á hótel eða aðra þá staði sem hentugir þykja til áframhaldandi kynna.

□ 7. Myndbandsupptaka: upptaka káfsfulltrúa af stefnumóti.

□ 8. Skýrslugjöf: lýsing káfsfulltrúa, atburðalýsing, af því sem fram fór á stefnumóti.

□ 9. Áreitni: frumforsenda þess að áhugi annarar persónu sé vakinn.

□ 10. Káf:  snerting gagnvart annari persónu og nauðsynleg forsenda náinna kynna.

Markmið.

■ 4. gr.

Markmið laga þessara er að tryggja öryggi í nánum samskipum fólks. Sérstaklega er þeim ætlað að fyrirbyggja athæfi sem fallið getur undir leyfislaust daður, káf og kynferðislega áreitni. Með lögunum verður óheimilt að reyna við annan aðila eða stofna til kynna án milligöngu Káfstofnunar ríkisins. Er þetta talið nauðsynlegt í ljósi þess hve mörg ágreiningsmál hafa ratað til dómstóla vegna áreitni og aðila greinir á um málsatvik. Þá benda rannsóknir til þess að mikið sé um eftirlitslaust káf og áreitni.

  1. kafli. Káfstofnun, káfsfulltrúar og stefnumót

Káfstofnun ríkisins.

■ 5. gr.

□ 1. Með lögum þessum er sett á laggir sérstök ríkisstofnun, Káfstofnun ríkisins. Skal hún annast milligöngu um viðreynslu, náin og persónuleg kynni á Íslandi, og tryggja af fremsta megni að rétt og löglega sé að verki staðið.

□ 2. Stofnunin gefur út leyfi til stefnumóta, káfs og kynna, eftir að erindi um slíkt hefur borist, og sýnt þykir að skilyrði laga séu uppfyllt.

Káfsfulltrúar.

■ 6. gr.

□ 1. Káfsfulltrúar starfa á vegum Káfsstofnunar ríkisins og eru fastir starfsmenn hennar. Þeim ber að tryggja að stefnumót, og kynni sem af þeim kunna að leiða, fari fram eins og mælt er fyrir um í lögum þessum.

□ 2. Skal einn káfsfulltrúi mæta á hvert löglegt stefnumót og festa á myndband allt sem fram fer fram milli aðila stefnumótsins. Enn fremur skrifa nákvæma skýrslu í þríriti er greini röð atburða á stefnumótinu. Ber káfsfulltrúa að halda eftir frumriti skýrslunnar en aðilar stefnumóts fá sitt afritið hvor.

□ 3. Um upptökur af stefnumótum gilda lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018, eftir því sem við getur átt.

□ 4. Rísi dómsmál í kjölfar stefnumóts og/eða nánari kynna skal káfsfulltrúi mæta við þinghald og gefa skýrslu fyrir dómi. Ber honum þá að framvísa öllum gögnum um viðkomandi stefnumót og/eða kynni, þar með taldri atburðaskýrslu og myndbandsupptöku.

□ 5. Heimilt er Káfstofnun að geyma upptökur af stefnumótum í allt að 30 ár, enda teljist þá útséð að ekki muni reyna á þær sem sönnunargagn fyrir dómi. 

□ 6. Káfsfulltrúar eru bundnir algerum trúnaði um allt sem fram fer á stefnumótum og við kynni.

Viðreynsla og stefnumót.

■ 7. gr.

□ 1. Nú fellir maður hug til konu, sem hann telur álitlega og gæti jafnvel hugsað sér að bjóða á stefnumót, skal hann þá rita nafn sitt undir rauða eyðublaðið“ og rétta konunni, þegjandi og hljóðalaust. Sé konan þessu samþykk ber henni að rita nafn sitt einnig, auk tveggja votta. Að því loknu ber aðilum að forða sér á brott svo skjótt sem verða má.

□ 2. Beiðni um leyfi til viðreynslu ber að senda Káfstofnun ríkisins sem tekur afstöðu til hennar, innan hæfilegs tímafrests og skal „rauða eyðublaðið“ fylgja með erindinu.

□ 3. Heimilt er að póstleggja „rauða eyðublaðið“ og fylgi þá ljósmynd með eyðublaðinu sem sýni þann sem óskar eftir stefnumóti.

□ 4. Afskiptaleysi eða viðbragðsleysi móttakanda „rauða eyðublaðsins“ getur aldrei skoðast sem samþykki hans fyrir stefnumóti.

□ 5. Gagnaðili skal að jafnaði svara beiðni um stefnumót innan þriggja vikna, frá þeim tíma sem honum barst beiðnin, kjósi hann að svara. Eftir þann tíma fellur beiðnin sjálfkrafa úr gildi.

Heimfara- og samfaraleyfi.

■ 8. gr.

□ 1. Þróist stefnumót þannig að hugur standi til frekari kynna ber þátttakendum stefnumóts að sækja um heimfara- og samfaraleyfi til Káfstofnunar ríksins. Við mat á leyfisbeiðni skal einkum horft til þess hvort aðilar hafa hlotið dóm fyrir kynferðisbrot, ofbeldi eða aðra þá háttsemi sem svívirðileg þykir að mati almennings.

□ 2. Aldrei skal veita manni sem hlotið hefur dóm fyrir barnaníð heimfara- og samfaraleyfi.

□ 3. Káfsfulltrúi tryggir að heimfarir og samfarir samrímist lögum þessum.

□ 4. Káfsfulltrúi getur beitt heimfara- og samfararofi telji hann sýnt að kynni séu komin úr böndum og aðili (annar eða báðir) beiti ofbeldi í samskiptum sínum. Er káfsfulltrúa heimilt að kalla lögreglu til aðstoðar ef nauðsyn krefur.

Öll stefnumót viðreynsla og kynni eru leyfisskyld.

■ 9. gr.

□ 1. Öll stefnumót, viðeynsla, og kynni sem af henni kann að hljótast, eru leyfisskyld. Vernd laga þessara er bundinn því skilyrði að skriflegt leyfi Káfstofnunar ríkisins liggi fyrir.

□ 2. Óheimilt er að fara á stefnumót, reyna við, eða fara heim með annari manneskju án skriflegs leyfis Káfstofunar ríkisins.

III. kafli. eftirlit og gildistaka.

Eftirlit Káfstofnunar ríkisins eftir að kynni komast á.

■ 10. gr.

□ 1. Nú kynnist maður konu og hefur sambúð með henni. Skal þá Káfstofnun hafa eftirlit með kynnunum í allt að 6 mánuði frá þeim tíma sem kynni komust á.

□ 2. Káfsfulltrúar hafa eftirlitsskyldu. Þeir mega á tíma eftirlitsskyldu heimsækja fólk fyrirvaralaust og kanna hvort kynni og sambúð ganga fyrir sig eins og lög þessi kveða á um.

□ 3. Káfsfulltrúa ber að tilkynna alla kynferðislega áreitni, s.s. ólögmætt káf, daður, fagurgala, lof um útlit, eða annað sem káfsfulltrúi metur sem áreitni, enda liggi ekki fyrir skriflegt leyfi Káfstofnunar ríkisins fyrir áðurtöldu.

□ 4. Aðilum sambands er þó heimilt að senda Káfstofnun ríkisins (á sérstöku eyðublaði) lista með áreitni sem báðir aðilar hafa samþykkt og sýna hver öðrum. Samþykki stofnunin listann verða þau atriði sem á honum eru tilgreind undanskilin valdsviði káfsfulltrúans.

  1. gr. Lög þessi öðlast gildi 24. október 2020.
  2. gr. [Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um 10. gr. laga þessara].