Fara í efni

LEIÐA ORKUPAKKAR ESB TIL EINKAVÆÐINGAR?

Í þessum skrifum verður könnuð eftirfarandi staðhæfing þingmanns Pírata, Björns Levís Gunnarssonar og kemur fram á heimasíðu Orkunnar okkar:

Það þarf að vera aðskilnaður. Það þarf ekki að einkavæða. Ef það er tekin ákvörðun um að einkavæða þá er það ákvörðun sem er óháð öllum tilskipunum úr orkupakkanum. Ef það væri í alvörunni háð orkupakkanum þá væru engin opinber orkufyrirtæki í Evrópu. Það er enn fullt af þeim hins vegar.

            Það sem þarna kemur fram er að auðvitað bæði rangt og algerlega fráleitt en það þarf hins vegar að rökstyðja hvernig og hvers vegna. Tilvitnunin er þó ekki að öllu leyti röng. Hinu þarf að halda til haga að það eru fleiri en Björn Leví sem þessu halda fram. Hann setur þessa skoðun fram þarna sem er í sjálfu sér ágætt því þá er hægt, vonandi, að sýna fram á að hún er röng. Skoðum það.

Markmið orkupakkanna

            Það sem þarna er rétt lýtur að aðskilnaðinum sem slíkum á milli framleiðslu rafmagns annars vegar og dreifingar hins vegar. Hvað Ísland snertir, þá voru það mistök og það er röng stefna að aðskilja [sbr. unbundling] þessa tvo þætti. Það hefur einungis haft í för með sér meiri yfirbyggingu og þar af leiðandi meiri kostnað fyrir þjóðarbúið í heild. Orkupakkarnir sjálfir fela í sér kvöð um slíka uppskiptingu. Til þess að Íslendingar sjálfir geti ákveðið þetta þarf að ganga út úr þessu Evrópska orkusamstarfi og hafna algerlega öllum orkupökkum, gömlum og nýjum.

            Næsta setning, „Það þarf ekki að einkavæða“, í nefndri tilvitnun er hins vegar beinlínis röng, meira að segja kolröng. Ef ekki væri fyrir þetta Evrópska orkusamstarf væri hún hins vegar rétt. Það er út af fyrir sig pólitísk ákvörðun að einkavæða. En málið er ekki svo einfalt. Þegar ríki, eins og Ísland, er orðið lagalega bundið af erlendu regluverki sem allt gengur út á samkeppni (gervisamkeppni) einkarekstur og markaðsvæðingu þá vandast málið verulega.

            Þegar rætt er um samkeppni er almennt (í skilningi samkeppnisréttar) átt við samkeppni einkaaðila á „frjálsum“ markaði. Víða í samkeppnisrétti eru opinberum fyrirtækjum settar allstrangar skorður að ekki sé rætt um beina ríkisaðstoð (State aid). En hvernig kemur krafan um einkavæðingu til sögunnar í þessu samhengi? Þar kemur margt til. Það er til hugtak í samkeppnisrétti sem kallast markaðsráðandi staða. Nái fyrirtæki þannig stöðu (og stór ríkisfyrirtæki hafa hana oft í krafti sögunnar) er óheimilt að misnota hana [sbr. abuse of dominant position]. Það er með öðrum orðum ekki óheimilt að hafa markaðsráðandi stöðu en misnotkun á henni er óheimil. Hugsunin þar að baki er sú að markaðsráðandi staða geti skapast vegna samkeppnisyfirburða. Það er með öðrum orðum ekki óheimilt að standa sig vel í samkeppni en það er óheimilt að nýta sér þá stöðu til þess að „bregða fæti fyrir aðra“.

            Hins vegar geta skapast „vandamál“ þegar búið er að opna ákveðinn markað fyrir samkeppni þar sem fyrir eru á fleti stór ríkisfyrirtæki. Margir muna umræðuna á Íslandi þegar einkarekin símafyrirtæki komu fyrst fram á sjónarsviðið. Innri orkumarkaður Evrópu gengur út á opnun, sumir vilja jafnvel „fulla opnun“ [lesi menn og markmiðslýsingar tilskipana orkupakkanna!].

            Þarna er sem sagt kominn mikill þrýstingur á einkavæðingu, til þess að einkaaðilar nái að „fóta sig á markaðnum“ og þannig ná fram markmiðum orkupakkanna og í raun evrópsks samkeppnisréttar. Að ekki sé talað um pólitíska stefnu ESB! Orkupakkarnir snúa beint að orkufyrirtækjum og framleiðslu á raforku.

            Af framangreindum ástæðum er næsti hluti tilvitnunarinnar einnig rangur; „Ef það er tekin ákvörðun um að einkavæða þá er það ákvörðun sem er óháð öllum tilskipunum úr orkupakkanum.“ Þessi fullyrðing lýsir miklum skorti á jarðtengingu. Sá sem hefur lesið og kynnt sér rækilega innihald orkupakkanna, og þekkir regluverk þeirra, getur einfaldlega ekki komist að þessari niðurstöðu! Það er ekki fræðilegur möguleiki hvað þá meira.

            Að sjálfsögðu hangir þetta tvennt mjög náið saman; annars vegar orkupakkar og hins vegar einkavæðing. Enda er beinlínis litið svo á í sumum ríkjum á meginlandi Evrópu. Þetta tvennt er nánast sitt hvor hlið á sama peningi, orkupakkar og einkavæðing. Enn og aftur, orkupakkar miðast ekki við samkeppni ríkisfyrirtækja, heldur einkafyrirtækja. Orðið „samkeppni“ vísar strax á einkafyrirtæki og einkarekstur. Það má mönnum vera ljóst.

            Í lokin segir þingmaðurinn: „Ef það væri í alvörunni háð orkupakkanum þá væru engin opinber orkufyrirtæki í Evrópu. Það er enn fullt af þeim hins vegar.“ Þessi rökfærsla er á mjög „hálum ís“. Áður er komið fram að einkavæðing er nátengd orkupökkunum, auðvelt að sýna fram á það. Þeir sem hafa fylgst með þróun mála í Evrópu vita að þar gengur ýmislegt á hvað snertir einmitt opinber fyrirtæki og þátt einkafyrirtækja á raforkumarkaði. Markaðsvæðing/einkavæðing gerist ekki (sem betur fer) á einni nóttu. Þetta er óheillaþróun sem staðið hefur í áratugi, þar sem smám saman er gengið lengra og lengra. Þannig, að stefnan er algerlega ljós, frá opinberum rekstri á raforkumarkaði og til einkarekstrar og einkavæðingar. Hvers vegna þingmaðurinn kýs að sjá ekki hið augljósa verður ekki svarað nema stuttlega hér.

            Líkleg skýring gæti verið sú að nánast allir þingmenn Pírata [Jón Þór var sá eini sem hafði efasemdir] virtust ekkert sjá neitt athugavert við þessa þróun og flutu sofandi að feigðarósi. Eru einfaldlega sammála markaðs- og einkavæðingu raforkuframleiðslu. Önnur skýring gæti verið sú að Miðflokkurinn barðist gegn innleiðingu orkupakka þrjú og þar með hefur lýðskrumið látið á sér kræla, eins og svo oft áður, sem lýsir sér þannig að aðrir eru þá sjálfkrafa meðmæltir innleiðingu orkupakkanna. Píratar gætu þess vegna snúist um 180 gráður eftir næstu kosningar! Annað eins hefur nú gerst í íslenskri pólitík eins og að menn komist á öndverða skoðun á einni nóttu [sbr. ESB aðild og fleira]. Lýðskrum er því líklegur skýringaþáttur þarna. Lýðskrumið vegur oftast þyngra á metum en þjóðarhagsmunir.

Sporin hræða

            Það hefur varla farið fram hjá fólki hvernig fjárglæfraöflin á Íslandi undirbúa 2. kafla konsertsins um einkavæðingu bankanna. 1. kaflinn var sorglegur [sbr. hugtökin doloroso/dolente í tónlist]. Nú er ætlunin að lífga þetta upp og skrifa næsta kafla í „allegro giocoso“ [hratt og fjörugt]. En eftir sem áður er þetta sami „konsertinn“ sem þarna er enn verið að skrifa. Það með ólíkindum að heimild til afhendingar ríkiseigna (eða hluta í þeim) skuli vera á hendi fjármálaráðherra (hver sem hann er). Á því er vægast sagt mikill „mafíubragur“.

            Ákvarðanir sem þessar ætti helst að leggja í þjóðaratkvæði en lágmarkskrafan er að þingið taki um þetta ákvörðun. Sagan sýnir þó að þingið bregst þjóðinni ítrekað og ekkert á það að treysta. Besta lausnin er þjóðaratkvæðagreiðsla. Spurninguna mætti orða svona: „Ert þú hlynnt(ur)/andvíg(ur) sölu ríkisins á allt að 35% hlut í Íslandsbanka?“ Valmöguleikar: Hlynnt(ur); Andvíg(ur). Þetta er allt sem þarf. Það væri upplagt að kjósa um þetta samhliða næstu alþingiskosningum.

            Braskarar og fjárglæframenn (íslenskir og erlendir) eygja víða færi á því að komast yfir eigur almennings. Til þess er Alþingi notað og þannig fenginn „lögmætisstimpill“ til þjófnaðar á almannaeigum. Þetta er gert að erlendri fyrirmynd. En aftur að spurningunni um orkupakka ESB og einkavæðingu (einkaránsvæðingu).

Skerðing fullveldis

            Héraðsdómarinn Arnar Jónsson hefur skrifað prýðilegar greinar um orkupakkana, m.a. í tengslum við fullveldi Íslands og stöðu þess gagnvart evrópsku valdi. Hér er vakin sérstök athygli á þeim.

            Eftir því sem meira vald er framselt til stofnana Evrópu þeim mun minna verður vald Alþingis og íslenskra kjósenda á eftir. Það er nefnilega merkingarlaust að segja eins og íslenskir stjórnmálamenn að innleiðingar evrópskra gerða (reglugerða/tilskipana) skipti engu máli og allt sé óbreytt á eftir. Það er ekki svo. Slíkar gerðir fá fullt lagagildi á Íslandi við innleiðingu og ganga framar íslenskum rétti [sbr. supremacy of EU law].[i]

            Komist EFTA-dómstóllinn að annari niðurstöðu, þ.e. að íslensk lög gangi framar Evrópurétti, væri það algert stílbrot á túlkun Evrópuréttar.[ii] Sumir hártogarar hafa reynt að skáka í því skjólinu að EES-réttur og réttur innan ESB sé ekki eitt og hið sama. Það á vissulega við um ákveðin svið. En þar sem um sameiginlega þætti er að ræða, s.s. fjórfrelsi, rétthæð, samkeppnismál, innri markaðinn, og nú orkumál, gilda sameiginlegar reglur. Þá er og ljóst að EES-rétt ber að túlka í ljósi Evrópuréttar. EES-réttur er hluti af Evrópurétti.

            Hér er einfaldlega lýst hvernig þessu er háttað. Í því felst ekki það sjónarmið að „svona eigi þetta að vera“, heldur lýst hvernig þetta er.

Hvað segja fræðimenn?

            Erlendir fræðimenn, m.a. á svið hagfræði og lögfræði, hafa ritað um okupakkana hinar ágætustu greinar. Þeir fjalla þar sérstaklega um atriði sem snerta samband orkupakkanna og einkavæðingar.[iii]

            Hér á eftir verður skyggnst í verulega fróðlega skýrslu á vegum Transnational Institute frá árinu 2016. Í inngangi skýrslunnar segir svo:

Evrópskir ríkisborgarar hafa orðið vitni að öldu einkavæðingar í löndum sínum undanfarin ár. Skýrsla Þjóðarstofnunarinnar (TNI), Einkavæðing Evrópu, sem birt var árið 2013, sýndi hvernig Evrópusambandið (ESB) og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) notuðu efnahagskreppuna sem leið til að knýja fram einkavæðingaráætlanir í skuldugum ESB-löndum, þrátt fyrir mikla andstöðu almennings. Þremur árum síðar eru afleiðingar einkavæðinganna skoðaðar í þessu yfirliti. Ferlið er sett í miðpunkt, stjórnendur fyrirtækja sem hafa hagnast, og kannað hvort sala á ríkiseignum hafi staðist loforð sem gefin voru til að réttlæta einkavæðingu þeirra.[iv]

 

            Kínverjar hafa látið til sín taka á orkumarkaði í Evrópu og keypt stóra hluti í Evrópskum orkufyrirtækjum. Árið 2011 náði kínverska ríkisfyrirtækið Three Georges Corporation 21.35% hlut í portúgalska[v] orkufyrirtækinu Energias de Portugal (EDP[vi]) sem er eitt af stærstu fyrirtækjum Evrópu á sviði veitustarfsemi. Fyrirtækið hefur sterka stöðu í Bretlandi, á Spáni, Ítalíu og Frakklandi ásamt fleiri ríkjum. Þá náði kínverska „Landsnetið“ [State Grid Corporation of China, SGCC] 25% hlut í portúgalska raforkufyritækinu REN[vii] árið 2012.[viii]

            Það er fásinna og barnaskapur að halda því fram að innri orkumarkaður Evrópu og orkupakkar ESB hafi ekkert með þetta að gera! Þeir beinlínis ýta undir og styrkja þessa þróun. Fólk hlýtur að átta sig á því. Í fyrri skrifum var fjallað m.a. um ítalska orkufyrirtækið ENEL sem er fjölþjóðlegt fyrirtæki í framleiðslu og dreifingu á rafmagni og gasi.

            Eftir að Alþingi brást Íslensku þjóðinni (eins og oft áður) með innleiðingu orkupakka þrjú var enn opnað á uppskiptingu (unbundling), markaðs- og einkavæðingu opinberra orkufyrirtækja. Þar bera íslenskir stjórnmálamenn afar þunga ábyrgð sem þeir rísa engan veginn undir.

            Við innleiðinguna sýndu þeir af sér mikinn dómgreindarbrest sem kjósendur ættu að muna vel í næstu kosningum. Sumir „tappar eru best geymdir í flöskunni“. Um leið og „tappinn“ er tekinn úr er fjandinn laus. Það er ákaflega óskynsamlegt að innleiða regluverk sem beinlínis felur í sér að opna allt upp á gátt. Það kann að vera einungis spurning um tíma hvenær fjölþjóðleg stórfyrirtæki bæta íslenskum orkufyrirtækjum á listann. Menn fengu smjörþefinn með kaupum Kanadamanns á hlut í HS-orku. Enn hefur þjóðin sjálf þó ekki verið spurð álits á þessum breytingum. Hvernig má það vera?

            Orkupakkar ESB endurspegla pólitíska stefnu sambandsins í orkumálum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Seðlabanki Evrópu (ECB) og Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (EC) líta á einkavæðingu opinberra veitna og ríkisfyrirtækja sem lausn á skelfilegum efnahagsvanda Evrópu. Rökin eru þau að einkaeign sömu fyrirtækja muni gera þau hagkvæmari og samkeppnishæfari [frjálshyggjufrasar] og að almenningur muni njóta þess í lægra verði og betri þjónustu.[ix]

            Niðurstaðan er hins vegar sú í mörgum tilvikum að tekjur ríkjanna minnka, spilling eykst og þjónustan versnar. Þar við bætist launatap, uppsagnir og versnandi kjör launafólks, sem stafa af einkavæðingu, og aftur hafa dýpkað efnahagskreppuna.[x] Góðar stundir.

[i]      Sjá t.d. EUR-Lex. PRIMACY OF EU LAW. https://eur-lex.europa.eu/summary/glossary/primacy_of_eu_law.html

[ii]    Sjá einnig gein höfundar frá 9. október 2020. MUN „FJÖLSKYLDUSTEMNING“ LEYSA VANDAMÁL STJÓRNVALDA? https://www.ogmundur.is/is/frjalsir-pennar/kari-skrifar-mun-fjolskyldustemning-leysa-vandamal-stjornvalda

[iii]   Sjá einnig: Andruccioli, P. (2007). Privatisation in Europe. Red pepper. https://www.redpepper.org.uk/Privatisation-in-Europe/

[iv]    Vila, Sol Trumbo, and Matthijs Peters. Rep. The Privatising Industryin Europe. Amsterdam: Transnational Institute, 2016. https://doi.org/https://www.tni.org/files/publication-downloads/tni_privatising_industry_in_europe.pdf

[v]     Sjá einnig: Faria, T.L. and Lima, Guilherme Neves (2020). The Public Competition Enforcement Review: Portugal. LawReviews. https://thelawreviews.co.uk/title/the-public-competition-enforcement-review/portugal

[vi]    Sjá enn fremur: Cuatrecasas Gonçalves Pereira (2021). Portuguese Competition Authority fines EDP Produção EUR48 million for abuse of dominant position. Practical Law. https://uk.practicallaw.thomsonreuters.com/w-022-1964?transitionType=Default&contextData=(sc.Default)&firstPage=true

[vii]  Sjá heimasíðu fyrirtækisins: https://www.ren.pt/en-GB/o_que_fazemos/eletricidade/o_setor_eletrico

[viii] Vila and Peters, op. cit.

[ix]    Ibid.

[x]     Ibid.