Fara í efni

EINKAEIGNAR-RÉTTUR OG EINKALEYFI Á ÚTSÝNI

Ásælni gráðugra fjárglæframanna á sér fá takmörk eins og dæmin sanna. Fjölmiðlar nota gjarnan orðið "fjárfestar" yfir þessar manngerðir. Yfirleitt hirða þeir þó lítið um að sannreyna hvort "fjárfest" er fyrir illa fengið fé og hvort um hreina mafíustarfsemi er að ræða. Mikill undirlægjuháttur hefur lengi einkennt umræðu íslenskra fjölmiðla um þessi mál á Íslandi og aðdáunin á fjárglæframennskunni oft náð undraverðum hæðum. Sérstaklega var þetta þó áberandi árin fyrir "hrunið mikla".

Náttúruauðlindir njóta vaxandi vinsælda fégráðugra manna. Þekktir íslenskir ævintýramenn sjá nú gróðavon í olíuleit á Drekasvæðinu og hafa gert tilboð í leitina. Þá rekur Íslandsbanki verkefni [minnir nokkuð á sumar hugmyndir innan Enron fyrr á árum] sem nefnist "Geothermal Energy". Þar er lögð áhersla á þjónustu við "fjárfesta" á sviði jarðhita. Fram kemur á heimasíðu bankans að um sé að ræða teymi reynslumikilla sérfræðinga sem sameini áralanga reynslu á sviði banka- og orkumála.

(http://www.islandsbanki.is/english/products-and-services/geothermal-energy/industry-services/). [Fróðlegt væri að vita hvaða íslensku "sérfræðingar" komu að sölunni á HS Orku á sínum tíma og lögðu þar "gott til mála"].

Einnig hefur lengi legið í loftinu að íslenskir fjárglæframenn gætu vel hugsað sér að krækja klónum í Landsvirkjun. Verði slíku stórslysi ekki afstýrt er nokkuð víst hvaða aðferðarfræði verður notuð við "söluna", hjá helstu talsmönnum "einkavæðingar" á Íslandi. Skuldir Landsvirkjunar verða að sjálfsögðu skildar frá við söluna, skildar eftir hjá almenningi, en hinir nýju "eigendur" fá fyrirtækið skuldlaust og geta fljótlega byrjað að greiða sjálfum sér arð [man einhver eftir "sölunni" á Búnaðarbankanum?]. Síðan verður beitt algerri "hundalógík", í anda Valgerðar Sverrisdóttur, og gefin sú skýring að nauðsynlegt hafi verið að skilja skuldirnar eftir enda ljóst að annars hefði enginn viljað kaupa fyrirtækið [Pilsfaldakapitalistar hafa engan áhuga á að greiða skuldir, vilja hins vegar hirða arðinn ef einhver er. Ef ekki, má alltaf búa til arð á pappírum]. Kjósendur sem hyggjast kjósa flokka fjárglæframanna ættu að hafa þetta í huga áður en kosið verður til Alþingis næst. Einkavæðingarslysin gera ekki alltaf boð á undan sér. En það má trygga sig gegn þeim. Öruggasta tryggingin felst í því að kjósa alls ekki sanntrúaða einkavæðingarsinna og auðlindaþjófa.

Saga "einkavæðingar" á Íslandi er ein samfelld hörmungarsaga. Höfundar kennslubóka í Íslandssögu framtíðarinnar [ekki síst fyrir framhaldsskóla] eiga að sjálfsögðu að gera öllu einkavæðingarklúðrinu, og hruninu í kjölfarið, jafngóð skil og t.d. sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Æska landsins á heimtingu á því að kennslubækur framtíðarinnar greini rétt frá staðreyndum. Einkavæðingarsinnarnir lögðu og grunninn að Icesave-klúðrinu en hrökluðust frá völdum áður en þeir þurftu að axla ábyrgð. Næsta ríkisstjórn sat því uppi með þann svarta Pétur. Er þá ótalin öll glæpamennskan sem tengist kvótabraski, [brottkasti] og aflaheimildum í sjávarútvegi. 

Einkaeignarrétturinn kemur víðar við sögu. Gott dæmi er Kerið í Grímsnesi en þar var gestum nýlega meinaður aðgangur. Það mál sýnir einfaldlega frekju og ósvífni einkaeignarsinna gagnvart fólki sem þeim er ekki þóknanlegt. Eðlilegast væri að Kerið yrði þjóðnýtt. Merk náttúrufyrirbæri ættu sem fæst að vera á forræði einkaaðila sem oft leyfa sér að loka svæðum, takmarka aðgang almennings [heimta jafnvel aðgangseyri]. En í því felst auðvitað að hagsmunir fárra ganga framar hagsmunum fjöldans.

Þróun einkaeignarréttar og einkaleyfa

Í byrjun apríl greindu fréttamiðlar frá því að að Google hefði opinberað nýja gerð gleraugna. Þau eru þess eðlis að hægt er að sjá í þeim upplýsingar um veður, staðsetningu og fleira [sjá t.d. http://www.bbc.co.uk/news/technology-17618495]. Þarna er í raun komið fram óskatæki íslenskra einkaeignarsinna og fjárglæframanna. Uppfinningin gerir kleift að raungera enn frekar einkavæðingaráráttuna. Útboð á ákveðnum afnotarétti er vel þekkt fyrirbæri s.s. senditíðni á sviði farsímaþjónustu. Það sýnist eingöngu spurning um tíma hvenær "Pétur Blöndal", og aðrir einkavæðingarsinnar sem munu sitja á Alþingi í framtíðinni, leggja til einkavæðingu útsýnis. Að horfa á tungl, stjörnur [Norðurljósin eru þegar orðin söluvara], sólarlag, og næturhiminn verður ekki lengur hluti af sjálfsögðum réttindindum fólks, heldur verða leyfin til "áhorfs" "boðin út" og fengin fjárglæframönnum.

Ekki er víst að langt verði að bíða lagasetningar. Þeir sem hæst hrópa í dag um sósíalisma og ríkisvæðingu munu örugglega sjá mörg sóknarfæri í því að mjólka almenning með hinu nýja "útsýnisgjaldi".

Arftakar Péturs Blöndal munu berjast fyrir þessu nýja fyrirkomulagi með oddi og egg. Í kjölfarið setur Alþingi lög [Lög um einkaleyfi til áhorfs náttúrufyrirbæra]. Rökin (ef rök skyldi kalla) verða á þá leið að fráleitt sé að fólki líðist að horfa án endurgjalds á sólarlag, stjörnuhiminn og önnur náttúrufyrirbæri. Nauðsynlegt sé að virkja þessar auðlindir, koma þeim í hendur einkaeignarsinna sem einir manna kunni að reka svona starfsemi, og gera auk þess ríkinu mögulegt að fá af þessu skatta og gjöld.

Gleraugun góðu frá Google munu auðvelda mjög rafræna gjaldfærslu fyrir áhorf notandans. Þau munu greina á hvað er horft og hversu lengi. Öllum landsmönnum verður gert skylt að ganga með gleraugun utandyra, t.d. á milli kl. 17:00 og 10:00, eða í 17 klukkustundir á sólarhring, að viðlögðum sektum vegna brota á greinum sem varða m.a. nytjastuld (sbr. 2. mgr. 259. gr. alm. hgl.).

Undantekningarákvæði nýju laganna munu mæla fyrir um það að gleraugnaskyldan utandyra nái ekki til aðstæðna þegar veður er sérstaklega þungbúið, þegar sérstaklega lágskýjað er, eða veður að öðru leyti þannig að engin náttúrufyrirbæri sjást. Rísi ágreiningur um áhorf, tímalengd þess os.frv. mun rafræn skráning notandans [allt áhorf notandans verður skráð] reynast mikilvægt sönnunargagn. Sönnunarbyrðin verður hins vegar ætíð á notandanum að sanna, að hann hafi ekki verið utandyra án gleraugnanna þegar undantekningarákvæði laganna áttu ekki við.

Í lögunum mun og skýrt koma fram að þegar svo háttar til að tunglsljós, stjórnuhiminn eða sólarlag sést út um stofuglugga, eða aðra glugga á íbúðar-, skrifstofu eða atvinnuhúsnæði, beri eiganda, umráðamanni, eða öðrum sem þar dvelja að jafnaði, skilyrðislaust að draga fyrir gluggatjöld eða annan búnað sem tryggir að ekki sjáist út. Brot varða sektum.

Fyrirkomulagið mun líklega leiða til þess að margir halda sig innandyra (oft með dregið fyrir) á nefndu tímabili sólarhringsins, enda nóg að greiða afnotagjöld af Stöð2, gervihnattarásum, interneti og fl. þótt "útsýnisgjaldið" bætist ekki við. Sýndarsólarlag, sýndartunglsljós og sýndarstjörnuhiminn verða hins vegar vinsælt efni á stjónvarps- og tölvuskjám landsmanna og munu margir láta sér það nægja. Fjölmiðlar munu leita álits "spekinga" á borð við "Sigurð Líndal" og "Róbert Spanó" (í nútíð og framtíð) á því hvort lög frá Alþingi um einkaleyfi til áhorfs náttúrufyrirbæra standist stjórnarskrá og mannréttindi. Báðir munu telja engan vafa leika á því, benda á að enginn sé heldur skyldaður til að vera utandyra á því tímabili sem einkaleyfin ná til. Fólk geti einfaldlega haldið sig innandyra.

Einhverjir munu telja brotið á mannréttindum sínum að þurfa að sæta slíkum afarkostum, höfða dómsmál og kæra að lokum til Mannréttindadómstóls Evrópu. Þá þarf dómstólinn að taka afstöðu til þess hvort lögin um einkaleyfi til áhorfs náttúrufyrirbæra brjóti gegn 10. og 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Þau rök koma fram að tjáningarfrelsi fólks sé skert með lögunum. En 10 gr. mannréttindasáttmálans mælir m.a. fyrir um rétt til þess að "...taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis...". Gleraugnaskyldan verður talin brot á þessu ákvæðum og til þess fallin að brengla sýn á raunveruleikann. Þá virðist ljóst að funda- og félagafrelsi [11. gr.] sé skert þegar fólki er óheimilt að koma saman utandyra án gleraugnanna, s.s. 1. maí ár hvert. Enda segir í 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans: "Eigi skal réttur þessi háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, ...". Gleraugnaskylduna má því klárlega skoða sem mjög íþyngjandi fyrir allan almenning, skyldu sem gengur mun lengra en nauðsyn ber til og hægt er að réttlæta.

En dómstóllinn mun úrskurða að einkaleyfin, og einkaeignarrétturinn, sem m.a. er varinn af 1. gr. 1. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, gangi framar rétti almennings til ókeypis áhorfs utandyra enda sé fólki í lófa lagið að koma saman innanhúss [félagafrelsi], horfa á náttúrufyrirbæri í sjónvörpum eða tölvum og því enginn réttur brotinn. Þeir sem eldri eru, og vanir eru rómantísku sólarlagi á björtum vor- og sumarkvöldum, munu síður sætta sig við þessa breytingu en yngra fólkið sem er vant því að hanga fyrir framan skjái af ýmsu tagi hvort sem er. Nokkrir hóta að kjósa ekki aftur stjórnmálaflokkana sem stóðu að einkavæðingu útsýnisins. En þegar til kastanna kemur munu þeir þó merkja X við sama listabókstaf og venjulega. Þá munu margir kvarta undan hinum nýju gleraugum og þykja þau óþægileg. Fjárglæframenn munu hins vegar græða sem aldrei fyrr.

Njótum náttúrufyrirbæra án endurgjalds á meðan hægt er, höfnum "einkavæðingu" náttúruauðlinda og einkaleyfum á útsýni. Einkaeignarrétti þarf að setja strangar skorður.

 

Nokkrar slóðir fyrir áhugasama:

http://www.iied.org/legal-tools/trends-natural-resource-investment-africa

http://www.nordurland.is/Ahugaverdirstadir/Skodastadi/vatnajokull-national-park--north-part

http://www.ifad.org/pub/land/alternatives.pdf

http://www.indybay.org/newsitems/2012/02/14/18707344.php

http://daenergy.wordpress.com/2012/04/10/privatize-the-sun/

http://rt.com/news/spanish-claims-sun-property/