Fara í efni

ÁHRIF MARKAÐSVÆÐINGAR ORKUMÁLANNA Í BRETLANDI - INNRI ORKUMARKAÐUR EVRÓPUSAMBANDSINS -

            Glöggir menn hafa réttilega bent á það undanfarið hvernig Landsvirkjun virðist reka sjálfstæða „orkustefnu“. Á sama tíma vinna stjórnvöld markvisst að því að innleiða orkustefnu Evrópusambandsins en hafa enga sjálfstæða stefnu. Er Ísland þó ekki aðili að sambandinu. Lausnin á vandanum er hins vegar ekki sú að búta Landsvirkjun niður og afhenda fjárglæframönnum bútana.

            Það mun einungis leiða til miklu hærra raforkuverðs, ofurskuldsetningar og síðan gjaldþrota [„bankaformúlan“]. Þá er það skelfileg tilhugsun að dreifikerfið (Landsnet) lendi í höndum braskara og fjárglæframanna (eða glæpasjóða). Sú hætta er alltaf fyrir hendi þegar um er að ræða opinber fyrirtæki, sérstaklega ef þau eru arðsöm. Fjárglæframenn eru alltaf tilbúnir að hirða gróðann en vilja að sama skapi ekkert með tapið hafa. Almenningur má eiga það.

            Einn stærsti kosturinn við Brexit er sá að útgangan heggur talsvert skarð í nauðhyggjuna sem ríkt hefur um Evrópusambandið. Nauðhyggjan gengur öll út á það að fylgja verði ESB í einu og öllu og að ekkert þjóðríki Evrópu geti lengur tekið sjálfstæða ákvörðun um eitt né neitt. Íslensk stjórnvöld eru t.a.m. mjög þjökuð af þessari nauðhyggju að ekki sé minnst á flokka í stjórnarandstöðu. Nú nýlega birtist nauðhyggjan þannig að kaup á rússnesku bóluefni til Íslands eru sögð háð samþykki lyfjastofnunar Evrópu.[i] En hvað þá með aðra sem fengið hafa sama bóluefni, óháð nefndri stofnun?

            Fullvalda ríki, hver sem þau eru, eiga að sjálfsögðu að gera samninga beint við önnur ríki. Ef menn hræðast hótanir og „refsiaðgerðir“ í kjölfarið þá sýnir það auðvitað best að menn eru ekki í góðum félagsskap! Samband sem beitir hótunum er ofbeldissamband. Þessi mál þarf að skoða í mun víðara samhengi. Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru 193.

            Alþjóðaviðskipti eiga ekki að byggjast á því að þjóðríki lokist inn í ríkjasambandi eins og ESB heldur hinu að eiga viðskipti við sem flest ríki heimsins. Aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni[ii] [WTO[iii]] eiga 164 ríki [ESB hefur aðild að WTO[iv]]. Það er grunnur sem hægt er að byggja á. Til samanburðar eru 27 ríki í Evrópusambandinu. Þau ríki hafa einnig sjálfstæða aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni.

            Sumir virðast gefa sér að „nóg sé búið að ræða orkumálin“. Það er hættulegur hugsunarháttur! Þau á að sjálfsögðu að ræða „endalaust“, halda umræðunni sívakandi – eða svo lengi sem þarf til þess að þingmenn láti af meðvirkni sinni og taki þjóðarhagsmuni fram yfir aðra hagsmuni. Ekkert kemur valdaklíkunni betur en þöggun og það að fólk hætti að ræða málin. Valdaklíkunni á að halda rækilega við efnið! „Kurteisistal“ á ekki vel við í þessu sambandi enda þótt kurteisi sá alla jafna góðra gjalda verð. Eftir því sem mál eru rædd lengur og betur eru meiri líkur fyrir því að línur skýrist, að lygi og blekkingar komi upp á yfirborðið.

            Það sem stuðningsmönnum „þöggunar“ þykir óþægilegt er að ákvarðanir t.d. um innleiðingu orkupakka þrjú tengjast beint ákveðnum stjórnmálaflokkum [stjórnarflokkunum fyrst og fremst] og vilja helst ekki horfast í augu við það að „þeirra flokkur“ hafi brugðist svona illilega. Þó svo að þeir séu í hjarta sínu sammála gagnrýni á innleiðingu orkupakkans þá vegur einfaldlega flokkshollusta þyngra á metum, þegar allt kemur til alls. Það er hluti af meðvirkninni sem oft hefur komið til tals. Reynsla undanfarinna ára sýnir þó að fylgi stjórnmálaflokka hreyfist meira en áður var. Fáir geta lengur treyst á „fastafylgi“. Það er vel.

            Ef fram fer sem horfir geta vélmenni [„róbótar“] sem hægast leyst íslenska þingmenn af hólmi, vélmenni með gervigreind en þó ekki „gervidómgreind“ eins og einkennir marga þingmenn. Reyndar er því spáð að vélmenni muni í mjög auknum mæli koma við sögu, jafnvel við dómstóla.[v] Margir munu þeir kjósendur verða sem leggja langtum meira traust á vélmenni með gervigreind en íslenska þingmenn með gervidómgreind. Það verður að segjast eins og er. Vélmenni með gervigreind er almennt betur treystandi til þess að taka réttar ákvarðanir en meðvirkum þingmanni [hefðbundnum].

Reynslan í Bretlandi

            Þótt Bretland sé nú gengið úr Evrópusambandinu er komin talsverð reynsla af einkavæðingu orkumálanna og orkustefnu ESB þar í landi. Það er með öðrum orðum reynslan af orkupökkunum.[vi] Steve Thomas, prófessor í orkustefnu, við Háskólann í Greenwich, er í hópi þekktra breskra fræðimanna á því sviði. Árið 2010 voru sex stórir rafmagnsframleiðendur í Bretlandi [og eru enn]. Fjórir þeirra voru í erlendri eigu [EDF, RWE, EON, Iberdrola]. Thomas nefnir allnokkur atriði sem einkenna breska orkumarkaðinn:

  • heildsölumarkaður í Bretlandi síðan 1990;
  • samkeppni í smásölu allra síðan 1998;
  • hæsta hlutfall viðskiptavina í Evrópu sem skipta um veitur;
  • eftirlitsaðili [„reglari“] til staðar síðan 1989;
  • eignarhaldi á flutningskerfi skipt upp árið 1990;
  • eignarhaldi á dreifkerfi skipt upp [unbundled] síðan 2002;
  • sex stór fyrirtæki eru samþætt í framleiðslu- og veitustarfsemi sem hafa mikla hagsmuni af því að heildsölumarkaður virki ekki;
  • heildsölumarkaður hefur aldrei verið „fljótandi“, veitir ekki áreiðanlegt verð og myndar þess vegna ekki heildsöluverð, veitir ekki vísbendingu til fjárfestinga [investment signal] og hvetur ekki til þess að nýir aðilar taki þátt á markaðnum. Mest af raforkuframleiðslunni fer ekki í gegnum heildsölumarkað [líklega um 1% raforkuframleiðslunnar fer í gegnum opinn „spot market“]. Merkir að verðið er mjög óáreiðanlegt;
  • sex stór fyrirtæki veita minni notendum rafmagn frá eigin orkuverum en öðrum frá „markaðnum“, það merkir að minni notendur fá ekki rafmagn í gegnum heildsölumarkað;
  • smásölumarkaðir eru í raun sex staðbundnir fákeppnismarkaðir [tvíkeppnismakaðir, duopoly]. Fyrrum einokunarfyrirtæki hefur um 60-70% hlutdeild, British Gas hefur 20-30%, og aðrir fjórir aðilar skipta með sér restinni [svona virkar „neytendaverndin“ í Bretlandi á hinum einkavædda raforkumarkaði!]
  • flestir raforkunotendur (neytendur) finna ekki bestu verð í boði;
  • alvarleg óánægja með samkeppni í smásölu. Verð hækkar hratt en lækkar hægt, hagnaður eykst og hlutfall þeirra sem skipta um veitur [switching rate] lækkar;
  • 20% þeirra sem skipta um veitu eru sama fólkið. Flestir neytendur skipta aldrei um veitu eða skipta einu sinni yfir í samning um "tvíorku", þ.e. gas og rafmagn;[vii]

Að lokum

            Áfram verður haldið í næstu grein að ræða breska raforkumarkaðinn. Menn geta rétt ímyndað sér hvernig ástandið verður á Íslandi með sama áframhaldi. Breski markaðurinn er stór en engu að síður sjást verulegir meinbugir á honum. Það er greinilegt af framansögðu að „neytendaverndin“ sem sumum íslenskum ráðherrum er töm á tungu hefur látið á sér standa í Bretlandi.

            Besta neytendavernd sem hugsast getur í orkumálum er að halda innviðafyrirtækjum, eins og á við um framleiðslu og dreifingu á rafmagni, í opinberri eigu og virða vilja almennings. Ekki böðlast áfram eins og Alþingi Íslendinga hefur gert. Þ.e.a.s. lýðræðislegur vilji kjósenda á að skila sér í orkustefnu stjórnvalda og opinberra fyrirtækja. Athugandi vær að kjósa t.d. stjórn Landsvirkjunar beint af almenningi á Íslandi og losa þannig aðeins um tangarhald valdaklíkunnar sem ógnar öllu sem kalla má lýðræði.

            Þá er það hárrétt gagnrýni sem komið hefur fram, hjá sumum íslenskum sérfræðingum á sviði orkumála, að það nær engri átt að ræða innleiðingu orkupakka fjögur innan EFTA á meðan dómsmál eru rekin í Noregi vegna innleiðingar orkupakka þrjú! Verði það niðurstaðan í Noregi að aukinn meirihluta þurfi í norska Stórþinginu fyrir innleiðingunni gæti sú niðurstaða breytt mjög miklu um framhaldið. Eftir þeirri niðurstöðu á að sjálfsögðu að bíða. Ef vafi leikur á því að undirstöður húss (grunnurinn) séu í lagi er ekki skynsamlegt að bregðast við með því að byggja nýja hæð ofan á húsið. Góðar stundir.

[i]      Sjá einnig: Corporate Europe Observatory. (11.02.2021). Vaccine scarcity: how the EU’s appeasement of Big Pharma damages COVID-19 response. https://corporateeurope.org/en/2021/02/vaccine-scarcity-how-eus-appeasement-big-pharma-damages-covid-19-response

[ii]    Sjá einnig: VanGrasstek, C. (2013). The history and future of the World Trade Organization. World Trade Organization. https://www.wto.org/english/res_e/booksp_e/historywto_e.pdf

[iii]   Sjá: WTO. https://www.wto.org/

[iv]    Sjá t.d.: World Trade Organization. The European Union and the WTO. https://www.wto.org/english/thewto_e/countries_e/european_communities_e.htm

[v]     Chadwick, J. (2020, October 20). Robots that analyse body language to determine guilt 'with 99% accuracy' will replace human judges in 50 years, expert claims. DailyMail. Retrieved March 26, 2021, from https://www.dailymail.co.uk/sciencetech/article-8858753/Robot-judges-replace-humans-courtroom-50-years.html

[vi]    Sjá einnig: Ofgem. EU legislation. https://www.ofgem.gov.uk/gas/wholesale-market/european-market/eu-legislation

[vii]  Florence School of Regulation. (2013, December 13). Case Example on Energy Markets: the UK Power Market by Steve Thomas [Video]. Youtube. https://www.youtube.com/watch?v=-ADj1C52Ow4