Fara í efni

UNDIR WOLFSANGELFÁNA: VINIR OKKAR Í ÚKRAÍNU

Það hefur verið makalaust að fylgjast með fréttaflutningi af ástandinu í Úkraínu. Deilan er máluð þannig að hún snúist nánast einvörðungu um yfirgang Rússa (Pútíns) og gefið er í skyn að allri mótstöðu við valdhafa í Kænugarði sé handstýrt frá Kreml. Ekki er svo mikið sem tiplað á tánum í kringum tvö mjög mikilvæg smáatriði í kringum þennan fréttaflutning. Það fyrsta er það að andspyrnan gegn stjórnvöldum í Kænugarði er ekki í höndum fámenns liðs handbenda Moskvu, heldur er sá hópur innan Úkraínu sem er á móti stjórninni sem tók völdin í kjölfar EuroMaidan beinlínis stærri en þeir sem fylgja henni. Hin staðreyndin er sú að hersveitirnar sem stefna nú á stóráhlaup á austurhluta Úkraínu eru að verulegum hluta skipaðar nasistum. Slíkir hópar hafa haldið íbúum stóru borganna í hálfgerðri gíslingu með gegndarlausum árásum, og staðið fyrir myrkraverkum á vígstöðvunum innanlands. Hópana sem við erum að styðja, beint og óbeint, ættum við að fordæma, ekki að dæla fé í. Þeir sem halda þessum staðreyndum frá fréttaskýringum sínum um það hvað á sér stað í Úkraínu ættu að hugsa sinn gang.

Klofin þjóð, en allir hafa sama rétt

Í Úkraínu búa um 41 milljón manna. Þéttbýlustu svæðin eru í austri og suðaustri þar sem iðnaður er einnig mestur. Stærstu þjóðernishóparnir eru þeir sem skilgreina sig sem Úkraínumenn (77,8%) og svo þeir sem skilgreina sig sem Rússa (17,3%) en margir þeirra sem skilgreina sig sem Úkraínumenn í austurhluta landsins tala rússnesku að móðurmáli. Landsmenn eru mjög klofnir í afstöðu sinni til margra kjarnaþátta samfélagsins, t.d. afstöðu til Sovétstímans, þjóðernishyggju, samskipta við Rússland, og afstöðu til sósíalisma eða þjóðernishyggju. Landið skiptist nánast í tvennt hvað þessi kjarnamál varðar, þar sem íbúar austur-Úkraínu hafa tilhneigingu til að líta hlýjum augum til Sovét-tímans, vilja gjarnan góð samskipti til Rússlands, eru tortryggnir á þjóðernishyggju og eru oftar en ekki hliðhollir sósíalískri hugmyndafræði. Í vestrinu er algengari andstaða gegn notkun á rússneskri tungu, þjóðernishyggja er algengari og tortryggni ríkir gagnvart sósíalisma. Í vestri er frekar litið til Evrópusambandsins og Sovéttíminn er ekki hátt skrifaður.


Þessi klofningur kom vel fram í forsetakosningunum árið 2010. Kosningarnar fóru fram í tvennu lagi þar sem enginn klár sigurvegari kom fram í fyrri kosningunum, og því þurfti að velja á milli tveggja efstu frambjóðendanna í síðari kosningum. Þetta voru annars vegar Viktor Yanukovych og Yulia Tymoshenko hins vegar. Yanukovych var meðlimur í stjórnmálaflokknum Partija rehioniv (miðjuflokkur sem talar fyrir auknum áhrifum héraðsstjórna), og Tymoshenko í Batkivshchyna (Föðurland, miðjuflokkur þjóðernissinna) og einnig fyrrverandi forsætisráðherra landsins. Hún var leiðandi í hinni svokölluðu „appelsínugulu byltingu“ árin 2004 og 2005. Niðurstaða seinni hluta forsetakosninganna 2010 var sú að um 49% kjósenda völdu Yanukovych en um 46% kusu Tymoshenko. Hér einnig var mjög mikill munur milli austurs og vesturs, þar sem íbúar í austri kusu frekar Yanukovych en íbúar í vestri kusu Tymoshenko.

Mjög svipaðar niðurstöður komu fram í þingkosningunum 2012. Þeir stjórnmálaflokkar sem nutu mest fylgis í austri voru Partija rehioniv, sem talaði fyrir auknum áhrifum héraðsstjórna og hallast til vinveittra samskipta við Rússland, og svo kommúnistaflokkur Úkraínu. Í Vesturhluta Úkraínu voru stærstu flokkarnir Föðurlandsflokkurinn (Batkivshchnyna) undir stjórn Yuliu Tymoshenko, Svoboda-flokkurinn sem er ofur-þjóðernissinnaður flokkur og svo UDAR flokkur hnefaleikakappans Vytalis Klitskos. Heildarniðurstaðan var sú að þeir flokkar sem fengu mest fylgi í austri sigruðu með naumindum.

Stjórnvöld í Úkraínu höfðu sýnt slæmar hliðar á sér. Yulia Tymoshenko var hneppt í varðhald fyrir 10 ákæruliði sem sneru að spillingu, reyndar sum hver nokkuð gróf (Kiev Post, 2011). Margir litu á þann gjörning sem dæmi um pólitískar ofsóknir. Þeir sem tóku þátt í appelsínugulu byltingunni svokölluðu árið 2004 höfðu líka biturt eftirbragð. Þau mótmæli snerust að miklu leyti um að brögð virtust vera í tafli þegar Viktor Yanukovych vann forsetakosningarnar 2004. Stuðningsmenn helsta mótframbjóðandans, Viktor Yushchenko, héldu á göturnar og kröfðust afsagnar Yanukovych. Eitrað var fyrir Yushchenko sem varð lífshættulega veikur og Rússar grunaðir um græsku þar. Úkraína var eitt fátækasta land Evrópu, og margir litu öfundaraugum í vesturátt. Mótmælendur héldu aftur á göturnar og undir lokin sagði Yanukovych af sér og Yuschenko og svo Yulia Tymoshenko tóku við forsetaembættinu. Þau héldu því í gegnum mikla kreppu til ársins 2010 þegar Yanukovych vann á ný.

Þannig var pólitískt landslag Úkraínu 2013-14 þegar Maidan-byltingin átti sér stað. Tilefni mótmælanna var viðsnúningur Yanukovych í samningsgerð við Evrópusambandið og í kjölfarið samningar sem hann gerði fyrir hönd landsins við Rússland.

Maidan

Mótmæli gegn stjórn Yanukovych hófust í nóvember 2013 undir nafninu EuroMaidan (Evróputorgið), sem vísaði í vilja mótmælenda til að tengjast meira Evrópusambandinu en fjarlægjast Rússland. Aftur var mjög mikill munur á þessari afstöðu í austri og vestri. Á meðan krafa um afsögn Yanukovych og ný stjórnvöld ómaði um Kænugarð og fleiri borgir í vesturhluta Úkraínu, héldu íbúar borga í austurhlutanum sínar eigin kröfugöngur, gegn Maidan og með stjórnvöldum (Kusch, 2013).

ÚKRAÍNA JK2.JPG

Mótmælin í Kænugarði voru tiltölulega friðsöm allt til miðbiks janúar 2014. Þá samþykkti þingið lög gegn mótmælum sem hefðu þrengt verulega að tjáningar- og fundarfrelsi. Þann 16. janúar mættu í mótmælin vel þjálfaðir og vopnaðir hópar af mótmælendum, margir með mjög vafasöm merki, og hófu það sem átti eftir að hljóta nafnið „bylting reisnarinnar“. Þessi bylting var mjög blóðug. Hátt í 100 manns misstu lífið á næstu dögum, rúmlega 15.000 þurftu að leita á sjúkrahús og 100 manns „hurfu“. Forsetinn og stjórnvöld létu undan og 21. febrúar skrifaði forsetinn undir sáttarmiðlunartillögu þess efnis að breytingar yrðu gerðar á stjórnarskránni sem gæfu þinginu meira vald, og samþykkt var að efna til nýrra forsetakosninga á árinu. Þingið samþykkti hins vegar daginn eftir að fjarlægja Yanukovych tafarlaust úr embættinu og halda kosningar strax 25. febrúar. Þær kosningar verða seint taldar lýsa vilja hins almenna borgara í Úkraínu, enda var nánast engin kosningaþátttaka í austurhluta landsins, þar sem andstæðingar Maidan-mótmælanna töldu kosningarnar ólöglegar, en í vesturhlutanum var þátttakan einungis um 60%. Þessar kosningar voru samt haldnar og sigurvegari, með rúmlega 50% atkvæða, var milljarðamæringurinn Petro Poroshenko. Í sigurræðu sinni sagði hann helstu markmið sín að brjóta á bak aftur andspyrnuna í austur Úkraínu, slíta stjórnmálasambandi við Rússland, afnema rússnesku sem opinbert tungumál og bindast Evrópusambandinu sterkari böndum. Yanukovych flúði land þann 22. febrúar 2014 enda óttaðist hann um líf sitt.

Þessa yfirferð á pólitískum klofningi í Úkraínu er mikilvægt að hafa í huga af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að þær erjur sem ríkja í Úkraínu eru ekki milli meirihluta landsmanna sem studdu EuroMaidan og svo fámenns hóps uppreisnarmanna sem láta stjórnast af Moskvu, heldur er um tvo nánast jafnstóra hópa landsmanna að ræða. Íbúar þeir sem eru andsnúnir Maidan-stjórnvöldum hafa að minnsta kosti jafnmikinn rétt til að berjast fyrir sínu og talsmenn Maidan.

Almenningur í Austur Úkraínu mótmælti Maidan

Strax í desember 2013 voru haldnar mótmælagöngur gegn Maidan-byltingunni í austurhluta Úkraínu (Kushch, 2013), en eftir að Euromaidan-sinnar náðu pólitískum völdum í Kiev í janúarmánuði 2014 keyrði um þverbak víða í Austurhlutanum. Þau landsvæði í Úkraínu þar sem mest andspyrna var gegn nýjum stjórnvöldum voru stjórnarsvæðin (oblast) í kringum borgirnar Donetsk og Luhansk, en einnig á Krímskaganum og í öðrum stjórnarhéröðum í austurhlutanum, allt frá Odessa og Mariupol og norður eftir austurhlutanum. Þetta eru helstu iðnaðarsvæði Úkraínu og liggja þau nokkurn vegin á milli fljótanna Dnéper og Don til rússnesku landamæranna.

Rússnesk stjórnvöld og Pútín forseti skiptu sér beint af Úkraínudeilunni þegar, strax 22. febrúar, aðilar innan rússneska hersins skipulögðu ásamt heimamönnum í Kiev, innlimun Krímskaga í Rússland. Þann 23. febrúar tóku hersveitir hliðhollar Rússum stjórn yfir stjórnarbyggingum í Sevastopol, höfuðborg skagans, og afvopnuðu úkraínskar öryggissveitir þar. Í kjölfarið var skipulögð þjóðaratkvæðisgreiðsla þar sem kjósa átti um það hvort íbúar Krímskaga vildu slíta sig úr stjórnarsambandi við Úkraínu og tengjast Rússlandi. Þetta var gert þann 16. mars og í kosningum með um 83 prósenta mætingu kusu tæp 97 prósentur þátttakenda að slíta stjórnarsambandi við Úkraínu. Þetta kom ekki sérstaklega á óvart enda er meirihluti íbúa Krímskagans rússneskumælandi og tengslin við Rússland höfðu haldist frá því ríkisstjórn Krúsjefs ákvað að færa skagann inn í úkraínska sovétlýðveldið.

Þessi innlimun Krímskagans í Rússland var fordæmd á Vesturlöndum, eins og í Úkraínu, enda var aðkoma Rússlands og forseta þess mjög bein og augljós. En frá sjónarhóli þeirra sem óskuðu eftir þessari breytingu gaf aðferðarfræðin við stjórnarskiptin í Kiev mánuði fyrr fordæmið. Ef hægrisinnarnir í Euromaidan fengu blessun fyrir að taka völdin af kosinni stjórn og forseta, í óþökk vinstrisinnanna, þá væri eðlilegt að hið sama gilti um þá. Ef við hér á Vesturlöndum lítum svo á að Maidan-byltingin hafi verið réttlætanleg á þeim forsendum að meirihluti íbúa vildi hana, þá byggir andstaða við byltinguna í Sevastopol á skoðunum, en ekki prinsippum.

Odessa

Mótmæli gegn Maidan spruttu upp víðar í suðaustur Úkraínu og í lok apríl voru hávær mótmæli haldin í hinni sögufrægu borg, Odessa. Mótmælin í Odessa fengu þó sorglegan endi annan maí 2014, þegar fasískir hópar og fótboltabullur eltu uppi stóra hópa mótmælenda og hröktu þá inn í höfuðstöðvar verkalýðshreyfingar í borginni og brenndu þá þar inni. Samkvæmt skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna brunnu 42 til bana í árásinni (OUNHCHR, 2014). Þessi árás á mótmælendur voru sem köld gusa í andlitið á þeim sem litu á valdaránið sem endurkomu nasista. Ekki voru viðbrögð Vesturlanda mjög uppbyggjandi við þessum atburði. Stephen Harper, þá forsætisráðherra Kanada, lét hafa eftir sér að þessi atburður væri merki um „hægfara innrás Pútíns“ (Harper, 2014).

Aðskilnaðarsinnar í Donbass

Donetsk og Luhansk stjórnarsvæðin eru sameiginlega kölluð Donbass. Þetta er mikil flatneskja án náttúrulegra varnargarða, en jafnframt þéttbýlasta svæði Úkraínu. Fólksflutningar þangað hófust fyrir alvöru á Sovéttímanum þegar fólk leitaði í vinnu í hinum stóru verksmiðjum borganna. Tengslin við Rússland hafa ætíð verið sterk á þessu svæði. Það  á ekki að koma neinum á óvart, ef menn hafa einhvern áhuga á því að skoða málin frá fleiri hliðum en einni, að íbúar þarna hafi gripið til vopna og neitað að viðurkenna hina nýju stjórn, sérstaklega í kjölfar atburðanna í Odessa. Þetta er ekki einungis vegna fylgispektar við þá stjórn sem almenningur hafði þó kosið, heldur risti þetta dýpra. Þegar svo stór hluti af hinni nýju byltingu talar opinberlega um að hreinsa landið af Rússum, sósíalistum og öðru óæskilegu fólki, hvaða val hafði þetta fólk í raun og veru?

Stór hluti íbúa í Donetsk og Luhansk vildi fara sömu leið og Krímverjar gerðu, að skilja héruðin frá Úkraínu og annað hvort lýsa yfir sjálfstæði eða ganga inn í Rússland. Þetta varð fljótlega mjög líkt stríðsátökunum í Kalda stríðinu. Austur og Vestur mættust í þriðja ríki. Hersveitir nýrra stjórnvalda nutu stuðnings frá Natoríkjunum, en Donbass skæruliðarnir frá Rússlandi. Á milli varð almenningur og hann átti eftir að þurfa að þjást mikið næstu árin. Stjórnvöld í Kiev kölluðu sína herferð and-hryðjuverkaaðgerðir, en í austri var talað um baráttu fyrir tilverurétti sínum.

Mótmælendur gegn stjórnarskiptunum í Kiev lýstu yfir sjálfstæði Donetsk og aðskilnaði frá Úkraínu undir nafninu „Donetskaya Narodnaya Respublika“ þann 7. apríl 2014. Vopnaðir hópar sóru að verja landsvæðið ef til innrásar kæmi. Hið sama gerðist í Luhansk 27. apríl. Ákveðið var að halda „þjóðaratkvæðagreiðslu“ þar sem hægt var að velja á milli þess að breyta engu, að auka sjálfsstjórn héraðsins, eða að ganga til ríkjasambands við Rússland. Fleiri borgir í austur Úkraínu fylgdu í kjölfarið. Aðskilnaðarsinnar gerðu áhlaup á lögreglustöðvar og opinberar byggingar og náðu fljótlega völdum.

Stjórnvöld í Kiev hófu hernaðaraðgerðir gegn aðskilnaðarsinnum þann 13. apríl. Herinn og aðrar vopnaðar sveitir umkringdu borgirnar og hófu meðal annars sprengiárásir. Yfirvöld í Úkraínu héldu því fram að þau myndu ná stjórn yfir landinu innan 48 klukkustunda, en annað kom á daginn. Aðgerðin var kölluð „and-hryðjuverkaaðgerð“ af stjórnvöldum, en skæruliðarnir reyndust miklu harðari en þeir áttu von á og náðu að yfirbuga hersveitir í fjöldamörgum aðgerðum og náðu af þeim vopnum. Þetta þótti nokkur niðurlæging fyrir forsetann, Poroshenko. Ríkisstjórn hans ákvað æ harðari aðgerðir til að svelta íbúa þessa landsvæða til hlýðni. Öll félagsleg aðstoð frá ríkinu, t.d. atvinnuleysis- og örorkubætur, var stöðvuð, vöruflutningar til landsvæðanna voru bannaðir og herinn, fullur af vestrænu fé, reyndi að loka fyrir alla umferð til og frá yfirráðasvæðum uppreisnarmanna. Líklega hefði þetta tekist ef ekki hefði komið til leynilegra, en ólöglegra, vöruflutninga frá Rússlandi.

Rússar hafa verið úthrópaðir fyrir að styðja uppreisnaröfl í austri með allskyns vöruflutningum og með hernaðaraðstoð, og Pútín má svo sannarlega fá á sig gagnrýni almennt. En það er samt ekki annað hægt en að bera í bætifláka fyrir það. Í augum Rússa hlýtur ástandið í Donbass að hafa litið þannig út að verið væri að murka lífið úr fólki sem leit á Rússa sem vini þeirra, og voru margir hverjir Rússar. Var það í rauninni raunhæfur möguleiki að slík aðstoð myndi ekki eiga sér stað?

Stríðið milli úkraínuhers og aðskilnaðarsinna í Donbass hefur varað frá 2014. Yfirvöld í Kænugarði kölluðu aðgerðina í fyrstu „and-terroristaaðgerð“ en árið 2018 breyttu þeir um nafn og kölluðu nú „Joint Forces Opearions“ og skilgreindu nú óvininn sem Rússland. Rússneskir stríðsmenn hafa tekið virkan þátt í þessari deilu og Rússland hefur stutt héruð aðskilnaðarsinna. Í stríðinu hafa um 4600 hermenn stjórnvalda látist, en um 5700 hermenn aðskilnaðarsinna. Um 3400 almennir borgarar í Donbas hafa látist í átökunum (UNHR, 2021). Rúmlega 33 þúsund hafa hlotið örkuml vegna stríðsátakanna og tæp milljón manns hafa flúið land. En því miður hafa örlög almennings fengið minni athygli en stórpólitík Rússlands og Vesturveldanna.

Hersveitir fasista í Maidan

Nú víkur að þætti þeirra sem stóðu að baki Maidan-uppreisninni og þeim sem Evrópusambandið, Bandaríkin og NATÓ leggja nú allt kapp á að styðja. Þann 22. febrúar 2014 þegar Yanukovych flúði land tók ný bráðabirgðastjórn við. Þetta var ekki gæfulegur hópur. Að minnsta kosti fjórir ráðherrar hinnar nýju bráðabirgðastjórnar komu úr röðum nýnasískra stjórnmálaafla.

Þjóðvarnarráð Úkraínu var nú undir stjórn Andriy Volodymyrovych Parubiy. Pólitískur ferill hans er athyglisverður. Árið 1991 stofnaði hann stjórnmálaflokkinn Соціал-національна партія України, sem á ensku útleggst sem „social-national party of Ukraine“, and-kommúnískur flokkur þjóðernissinna. Sá flokkur breytti um nafn árið 2004 og kallaðist eftir það Svoboda (Frelsi). Árið 1998 stofnaði Parubiy svo skæruliðahópinn SNPU, ofurþjóðernissinnaðan hóp vígamanna. Hann átti svo eftir að flakka milli stjórnmálaflokka á borð við „Föðurlandið“ og „Fyrir Úkraínu“. Meðal afreka hans í aktívisma var að berjast fyrir því að Stepan Bandera, stríðshetja úkraínskra nasista í seinni heimsstyrjöldinni, fengi viðurkenningu sem þjóðhetja. Parubiy stýrði beinlínis hernaðaraðgerðum stórra hópa vígamanna á meðan á Maidan-byltingunni stóð (Perry, 2014) og eftir að menn hans höfðu náð völdum sá hann um yfirstjórn á aðgerðum gegn „aðskilnaðarsinnum“ eins og þeir í austri sem vildu ekki þessa nýju fasistastjórn voru nú kallaðir á Vesturlöndum (Parry, 2014). Hann hefur síðan einbeitt sér að því að berja á Rússum og stjórnarandstæðingum og gerir það af mikilli grimmd.

Bandaríkjamenn höfðu ekki miklar áhyggjur af því að ný stjórnvöld í Úkraínu störfuðu svo náið með nasistaöflum, þvert á móti. Þeir áttu með þeim fjölda vinalegra funda og studdu þá með ráðum og dáð. Eftir fund bandarísku þingmannanna Johns McCains og Pauls Ryans með Paruiy í Washington DC árið 2017 birti Ryan yfirlýsingu þar sem segir: „Ég var stoltur af því að ganga til liðs við Parubiy forseta til að endurnýja milliríkjasamskipti okkar við Rada… Þessi gagnkvæma áætlun stuðlar að nánari pólitískum, efnahagslegum og öryggistengslum milli löggjafarþinga okkar“ (Norton, 2017).

Hakakrossar á vígstöðvunum

ÚKRAÍNA JK3.JPG

Áhorfendum ZDF í Þýskalandi brá í brún yfir fréttatímanum í byrjun september 2014. Blaðamenn norska fjölmiðilsins TV 2 höfðu fylgt úkraínska hernum að austurvígstöðvum sínum þar sem þeir murkuðu lífið úr íbúum Urzuf í austurhluta Úkraínu (NBC News, 09.09.2014). Í kjölfar fréttanna reyndu þó blaðamenn í vestri að réttlæta þennan gjörning á þeim forsendum að þetta væri bara „rómantismi“ og að þessir hermenn væru nú að berjast gegn rússneskri yfirráðahyggju (Parry, 2021).

Þetta hefði þó ekki átt að koma á óvart. Fréttamönnum BBC brá einnig í brún í kjölfar Maidan-byltingarinnar að sjá að þeir sem hrósuðu sigri á götum Kiev borgar voru margir hverjir skreyttir nasistafánum, Wolfsangelfánum, ss-merkjum og ýmsum öðrum merkjum nýnasista. Þeir voru í fullum herklæðum og gengu ógnandi um göturnar. Þetta voru hersveitirnar sem höfðu hrakið stjórnvöld í útlegð (BBC, 2014). Í viðtölum við forsprakka nokkurra þessara hópa kom skýrt fram að meðal þess sem vakti fyrir þessum hluta mótmælenda var að hreinsa Úkraínu af minnihlutahópum á borð við Rússa og koma á fasísku skipulagi.

 Dæmi um hópana sem við erum að styðja

ÚKRAÍNA JK4.JPG

Tengsl Maidan-byltingarinnar og þau stjórnvöld sem tóku við í kjölfar hennar við ný-fasíska hópa í landinu hafa fengið hljóða velþóknun vestrænna fjölmiðla. Ef voðaverk þessara hópa voru ekki hunsuð voru þau oftar en ekki réttlætt með vísunum í Pútín.

Ofbeldishóparnir sem við höfum sett okkur í sæti með í Úkraínu eru fjölmargir. Samkvæmt breska dagblaðinu the Guardian eru mestu harðjaxlarnir sem herja á íbúa austurhluta Úkraínu Azov hersveitirnar svokölluðu. Þessar hersveitir halda Wolfsangelfánanum á lofti og sumir hafa hakakrossinn á arminum (Walker, 2014). Önnur áberandi hreyfing vígamanna er Aidar, en Amnesty International hefur sakað hana um mikil grimmdarverk á borð við pyntingar og aftökur án dóms og laga (Amnesty International, 2014). Right Sector (Pravyi Sektor) er hreyfing um 10 þúsund sjálfboðaliða sem berjast fyrir ný-fasisma og harðri hægristefnu. Þeir hafa farið mikinn í höfuðborginni og lamið þá sem sýna merki um að styðja ranga aðila. Pólitískur armur þeirra hefur myndað kosningabandalag við Svoboda og aðrar nýfasískar hreyfingar í landinu.

En þessir ofbeldishópar virðast ekki njóta mikils stuðnings í Úkraínu. Kosningabandalag Pravyi sektor og Svoboda náði þannig einungis um þriggja prósenta fylgi í síðustu þingkosningum. Þeir þurfa hins vegar ekki að örvænta, enda fá þeir stuðning úr annarri átt.

Fjármögnun úr vestri

Bandaríkin og Evrópusambandið hafa skipt sér að innanríkismálum Úkraínu allt frá því að Sovétríkin liðu undir lok. USAID stærir sig af því að hafa dælt þremur milljörðum Bandaríkjadala til valinna hópa í Úkraínu (USAID, 2022). Þessi afskipti USAID fóru í fyrstu fram í gegnum einkahlutabréfasjóðinn Western NIS Enterprise Fund (WNISEF), sem tók að sér að aðstoða þarlenda viðskiptajöfra að einkavæða allt sem einkavæða mátti í landinu.

Mest fé og afskipti komu í gegnum stofnunina National Endowment for Democracy (NED) sem stofnuð var á Reagan-árunum til að hvítþvo pólitísk afskipti á erlendri grundu og losa CIA frá óvinsælli laumustarfsemi. Fjáraustur NED til pólitiskra hópa hófst árið 2004 í gegnum það sem þeir kölluðu „democracy funds“. Þetta fé var notað í áróðursstarfsemi og til að hafa áhrif á kjósendur og mótmælendur í Úkraínu.

Evrópusambandið og Evrópuráðið hafa einnig  haft pólitísk afskipti af innanríkismálum Úkraínu frá dögum appelsínugulu byltingarinnar (Shapovalova, 2010). Þetta fé og annar stuðningur fór nærri einungis til hópa sem vildu umbylta úkraínsku samfélagi og hljóta það að teljast gróf inngrip í innanríkismál Úkraínu. Við getum rétt ímyndað okkur viðbrögðin við því ef borðinu væri snúið við og Úkraína myndi fjármagna mótmæli og pólitískt umrót í einhverju vestrænu ríki. Nóg var um andköf yfir ásökunum um að Rússar beittu sér fyrir dreifingu falsfrétta til að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Fjáraustur Vesturlanda í Úkraínu er töluvert ágengari en það.

Bandarískir stjórnmálamenn voru mjög grófir í afskiptasemi sinni að Úkraínu á dögum Euromaidan. Á meðan á Maidan-uppreisninni stóð mætti til að mynda sjálfur John McCain, öldungadeildarþingmaður, til Kiev til að halda ræðu fyrir mótmælendur og stappa í þá stálinu. Hann átti einnig kvöldverði með stjórnarmönnum í þjóðernissinnaflokknum Svoboda og ráðlagði um næstu skref. Enn grófari voru afskipti Victoriu Nuland, sem þá var aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna fyrir Evrópu. Strax í desember 2013 lýsti hún því yfir á fundi með samvinnustofnun Úkraínu og Bandaríkjanna að hún hefði ferðast til Úkraínu í þrígang frá því að mótmælin hófust til þess að styðja baráttuna gegn þáverandi stjórnvöldum í Úkraínu. Árið 2015 birtust svo upptökur af símtali Nulands við þáverandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, Geoffey Pyatt, þar sem þau ræða fjálglega um það hvaða aðilar væru bestir til að taka við stjórnartaumunum eftir að byltingunni lyki. Nuland og Pyatt ræddu beinlínis um það hver ætti að taka við Úkraínu. Rétti maðurinn innanlands væri Arseniy Yatsenuyk. Hann varð einmitt forsætisráðherra á milli 2014 til 2016. Á meðan samtali Nulands og Pyatt stóð var samt Yanukovych enn réttkjörinn og löglegur forseti landsins (Carpenter, 2017). Nuland og Pyatt fóru mjög vandlega í saumanna og ræddu um að Joe Biden, þá varaforseti Bandaríkjanna, væri rétti maðurinn til að stýra alþjóðaþætti byltingarinnar, enda vanur maður í stjórnarskiptaaðgerðum.

Strax í kjölfar Maidan byltingarinnar hélt svo sjálfur Zbigniev Brzesinski, þjóðaröryggisráðgjafi Carters og Obama, erindi í “Woodrow Wilson Center for Scholars” í Washington DC., einum öflugasta “think tank” heims. Í erindinu hvatti Brzesinski bandarísk stjórnvöld að færa nýjum stjórnvöldum í Kiev vopn sem væru sérstaklega hönnuð fyrir andspyrnustríð í borgum. Ögra ætti Rússlandi að ráðast inn í Úkraínu og koma því í langt, dýrt og blóðugt stríð sem myndi veikja Rússland (Brzezinski, 2014). Það er engu líkara en þetta sé að verða opinber stefna Bandaríkjamanna og hegðun þeirra nú verður að túlkast út frá því. Þetta er grimmileg vitfirring.

Þann 18. júní 2019 tilkynnti bandaríska Varnarmálaráðuneytið að það hygðist gefa 250 milljónir Bandaríkjadala til kaupa á hergögnum fyrir úkraínsk stjórnvöld. Samtals hafði Varnarmálaráðuneytið þá gefið Úkraínu 1,5 milljarða Bandaríkjadala til að halda styrjöldinni í Úkraínu gangandi (Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, 2019). Þessir milljarðar Bandaríkjadala enduðu ekki í höndum neinna kórdrengja.

Baksvið nasismans

Nasistahóparnir sem við á Vesturlöndum hvetjum nú til dáða spruttu ekki upp úr engu. Þegar Þýskaland nasista réðst inn í Úkraínu voru margir í Vesturhluta landsins sem tóku þeim fagnandi og mynduðu sína eigin nasistahópa sem voru við stjórnvölinn allt til loka stríðs. Sumir gengu til liðs við Schutzmannschaft, leynilögreglu þýskra nasista auk þess sem sérstakar SS sveitir Úkraínu, „Galizien“ og „Waffen-Grenadier-Division der SS“. Þessar sveitir byggðu sjálfar og sáu um einangrunarbúðir og myrtu mikinn fjölda fólks. Alls létust um sjö milljónir óbreyttra borgara í Úkraínu á einungis fjórum árum, margir þeirra féllu fyrir hendi þessara nasistasveita.

Um leið og Sovétríkin liðuðust í sundur spruttu upp hópar sem sóru hollustu sína við þessar gömlu nasistasveitir. Stærst þeirra var áðurnefnd Svobodahreyfing, en fleiri stjórnmálaflokkar, vígahópar og þrýstihópar fyrir hreinni Úkraínu spruttu upp um leið. Þessir hópar voru meðal þeirra sem fengu fjármögnun frá NED, USAID og Evrópusambandinu og þetta eru hörðustu vígasveitirnar sem nú umkringja „aðskilnaðarsinnana“, og almenning, í austurhluta landsins. Þeim hefur einungis vaxið ásmegin síðan. Í upphafi nýs árs, þann fyrsta janúar s.l., héldu Pravi Sektor, Svoboda og fleiri hreyfingar nasista upp á afmæli Stepans Bandera með mikilli viðhöfn, pomp og prakt, í höfuðborginni (sjá myndband á Steigen, 2022).

Í hinni makalaust einsleitu og blekkjandi fjölmiðlaumfjöllun sem við höfum fengið frá málefnum Úkraínu er þessari staðreynd sópað undir teppi.

Ef einhver á erfitt með að skilja hvers vegna íbúar í Donbass og öðrum svæðum Úkraínu berjast á móti núverandi valdhöfum í Kænugarði verður sá að spyrja sig, hvað annað er í boði? Fyrir utan það að hafa flæmt frá stjórnvöldum aðila sem voru þó lýðræðislega valdir, þá voru allra fyrstu verkefni nýrrar ríkisstjórnar þau að afnema réttindi rússneskunnar, hreinsa landið af óæskilegum hópum og fara með hótunum í garð þeirra íbúa sem ekki voru sammála þeim. Það versta var þó það að úkraínsk stjórnvöld notuðu nú kinnroðalaust hersveitir skipuðum yfirlýstum nasistum og ofbeldismönnum. Enn voru þeir til sem mundu eftir því þegar þeir síðast sáu hermenn með hakakrossa, ss-merki og hauskúpur á einkennisbúningum sínum. Lái þeim það hver sem vill að vilja berjast til síðasta manns til að koma í veg fyrir að slík stjórnvöld næðu völdum í sínum heimabæ.

Misheppnuð stjórn í leit að blórabögglum

Hin nýja þjóðernissinnaða ríkisstjórn sem tók við í kjölfar Maidan reyndist mikil vonbrigði fyrir þá sem höfðu vonast til þess að spilling myndi minnka og hagur vænkast ef það tækist að losna við fráfarandi stjórnvöld. Stuðningsmaður Maidan í háskólanum í Manchester kallaði uppreisnina misheppnaða árið 2016 og sagði: „Árið 2014 benti Mannréttindavaktin (HRW) á aukna hættu á ofbeldi af pólitískum hvötum, svo sem ólöglegu farbanni, mannránum og líkamsárásum auk ofbeldis lögreglu og annarra. Árið 2015 var þróunin í átt til versnandi ástands. Reyndar komst HRW að því að stjórnarhersveitir og uppreisnarmenn með stuðningi Rússa hefðu notað klasasprengjur í vopnuðum átökum í Austur-Úkraínu og það án þess að úkraínskir ​​saksóknarar hefðu rannsakað það í heild sinni. Einnig, samkvæmt HRW, hafði enginn marktækur árangur náðst árið 2015 varðandi ábyrgð gerenda misnotkunar á Maidan mótmælunum 2014. Á heildina litið eru alvarleg brot á réttarríkinu, tjáningarfrelsi og fjölmiðlafrelsi ásamt hómófóbíu og umburðarleysi enn útbreidd, meðal annarra mannréttindabrota“ (Belousov, 2016).

Nú stendur Úkraína eftir með enn spilltari stjórnvöld, mikið hrap í lífskjörum og óánægðan almenning. Við svoleiðis aðstæður er aðeins eitt að gera: Finna blóraböggul. Þar eru Rússar og aðskilnaðarsinnarnir í austurhlutanum fullkomnir.

Stríð gegn Rússlandi?

Vegna þess að varla er til sú fréttaskýring á málefnum Úkraínu að nafnið Pútín komi ekki fram í aðalhlutverki, þá er nærri öruggt að einhver líti á þessa yfirferð sem einhvers konar afsökun á framferði Rússa eða að hér sé Pútín mærður. En þessi grein fjallar alls ekki um Rússland eða Pútín, heldur um Úkraínu og Úkraínumenn, hvort sem þeir búa í austri eða vestri. Það sem „alþjóðasamfélagið“ ætti að spyrja sig út í er, hvers vegna hefur ekkert verið gert gegn yfirgangi fasískra afla í Úkraínu, hvers vegna hefur Evrópusambandið leyft það að íbúar í austurhluta Úkraínu séu sveltir inni og þurfi að lifa við sprengjuregn dag og nótt árum saman? Hvar eru áherslurnar á réttindi almennings í Úkraínu? Þetta kemur okkur við, einnig hér á Íslandi. Með því að horfa í gegnum fingur sér á glæpi Maidanstjórnarinnar, ofbeldishópa á þeirra vegum, og gríðarlegan vopna- og fjáraustur frá bandamönnum okkar í Nato höfum við tekið afstöðu. Vita menn hverja er verið að styðja?

 Heimildir

AI, 24.12.2014. Eastern Ukraine: Humanitarian disaster looms as food aid blocked. Amnesty International. Sótt 29.12.2014 frá http://www.amnesty.org/en/news/eastern-ukraine-humanitarian-disaster-looms-food-aid-blocked-2014-12-23

Amnesty International. 2014. Ukraine: Abuses and war crimes by the Aidar Volunteer Battalion in the north Luhansk region. https://www.amnesty.org/en/documents/EUR50/040/2014/en/

Belousov, M. 2016. Maidan, the aftermath: Could the EU have avoided the Ukrainian drama? Eyes on Europe. https://www.eyes-on-europe.eu/maidan-the-aftermath-could-the-eu-have-avoided-the-ukrainian-drama/

BBC. 2014 (28 febrúar). Neo-Nazi threat in new Ukraine: NEWSNIGHT. Hægt er að sjá þáttinn á https://www.youtube.com/watch?v=5SBo0akeDMY

Brzezinski, Z. 2014. The Ukraine Problem: Confronting Russian Chauvinism. The American Interest (27.06.2014). Sótt þann 3. Janúar 2022 frá https://www.the-american-interest.com/2014/06/27/confronting-russian-chauvinism/

Carpenter, T. G. 2017. America’s Ukraine Hypocrisy. Cato institute. https://www.cato.org/commentary/americas-ukraine-hypocrisy

D‘Agata, C. 2014 (6.03). Ukrainian city of Donetsk epitomizes country's crisis. CBS News. https://www.cbsnews.com/news/ukrainian-city-of-donetsk-epitomizes-countrys-crisis/

National Post. 2014 (05.05). Vladimir Putin mounting a 'slow-motion invasion' of Ukraine, Stephen Harper tells NATO. Sótt frá https://nationalpost.com/news/canada/vladimir-putin-mounting-a-slow-motion-invasion-of-ukraine-stephen-harper-tells-nato

Kiev Post. 2011 (03.11). Piling cases on Tymoshenko. Sótt frá https://web.archive.org/web/20120429232839/http://www.kyivpost.com/news/nation/detail/116273/

Kushch, L. 2013. Donetsk view: Ukraine 'other half' resents Kiev protests. BBC. https://www.bbc.com/news/world-europe-25198943

NBC News. 2014 (09.09). German TV Shows Nazi Symbols on Helmets of Ukraine Soldiers. Sótt frá https://www.nbcnews.com/storyline/ukraine-crisis/german-tv-shows-nazi-symbols-helmets-ukraine-soldiers-n198961

Norton, B. 2017. Top US officials meet with Ukrainian fascist leader Andriy Parubiy, co-founder of Nazi-style party. AlterNet. https://bennorton.com/andriy-parubiy-ukraine-fascist/

Office of the United Nations High Commissioner for Human Rights [OUNHCHR]. 2014. Report on the human rights situation in Ukraine, 15. May 2014.

Olegzima. 2012. Own work http://www.cvk.gov.ua/vnd2012/wp001.html#, CC BY-SA 3.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=22450540

Parry, R. 2014. Ukraine’s Neo-Nazis Demand Respect. Consortium News. https://consortiumnews.com/2021/12/23/robert-parry-ukraines-neo-nazis-demand-respect/

Shapovalova, N. 2010. Assessing democracy assistance: Ukraine. FRIDE, project report. Sótt þann 03.01.2022 frá https://www.files.ethz.ch/isn/130779/IP_WMD_Ucrania_ENG_jul10.pdf

Steigan, J. 2022. Nazistene i Ukraina marsjerer og USA forsikrer landet om sin støtte mot Russland. Steigan.no. Sótt af https://steigan.no/2022/01/nazistene-i-ukraina-marsjerer-og-usa-forsikrer-landet-om-sin-stotte-mot-russland/

USAID. 2019. USAID Enterprise Fund Continues To Generate Growth. Sótt frá https://www.usaid.gov/europe-and-eurasia/newsletter/feb-2019/usaid-enterprise-fund-continues-generate-growth-wnisef

USAID. 2022. Where we work: Ukraine. Sótt 27.01.2022 frá https://www.usaid.gov/ukraine

United Nations Human Rights Commission (UNHRC). 2021 (8. Október). Conflict related civilian casualties in Ukraine. Sótt frá https://ukraine.un.org/sites/default/files/2021-10/Conflict-related%20civilian%20casualties%20as%20of%2030%20September%202021%20%28rev%208%20Oct%202021%29%20EN.pdf

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna (Department of Defense). 2019 (18. Júní). DoD Announces $250M to Ukraine. Sótt þann 3. Janúar 2022 frá https://www.defense.gov/News/Releases/Release/Article/1879340/dod-announces-250m-to-ukraine/

Walker, S. 2014. Azov fighters are Ukraine's greatest weapon and may be its greatest threat. The Guardian. https://www.theguardian.com/world/2014/sep/10/azov-far-right-fighters-ukraine-neo-nazis

Þessi grein birtist einnig á neistar.is