Fara í efni

GRUNDVALLARGILDUM FÓRNAÐ

Á árum áður beittu íslensku hægriöflin ætíð sömu slagorðum til að fæla kjósendur frá vinstriflokkum á borð við Alþýðubandalagið og VG. Þau snerust um að atkvæði til þeirra væri kastað í glundroða og óstöðugleika. Vinstriflokkarnir, sögðu hægrimenn, væru þjakaðir af klofningi og átökum. Menn kæmu sér ekki saman um neitt og eyddu tíma í rifrildi og rökræður og hræddu úr landinu viðskipti. Hægrimenn í Sjálfstæðisflokknum eyddu ekki tíma í rifrildi, heldur stunduðu bissniss. Sér til sönnunar bentu hægrimenn á það að vinstristjórnir fyrri ára næðu aldrei að klára kjörtímabil, heldur sprungu vegna sundrungar. Ísland gæti ekki lifað með slíkum glundroða. Stóra slagorð hægrimanna var ætíð hið sama: Stöðugleiki.

              Það er mjög greinilegt að smám saman tóku forystumenn meintra vinstriflokka, VG og Samfylkingarinnar síðari, þetta til sín og settu sér það markmið að afsanna slíkar fullyrðingar. Þeir skyldu sýna fram á að vinstriflokkar gætu vel náð þessum stöðugleika sem kjósendur virtust þrá svo mjög. Aðferðarfræðin sem beitt var til að ná þessu markmiði var þess eðlis að engu líkara var en að þessir flokkar væru að ganga beint í gildru sem á endanum gerði þessa flokka óþekkjanlega og ómögulegt að greina þá frá hægriflokkum fyrri tíma. Þeir sjálfir gátu svo fært sig tvö skref í átt að hreinu auðræði. Sú aðferðarfræði fólst í því að einangra „róttæka“ hluta hvers flokks fyrir sig en hampa þeim sem höfðu skoðanir sem menningarelíta fjölmiðlanna sætti sig best við. Forðast skildi að ræða um nokkuð það sem gæti skapað nokkuð sem líktist rökræðu. Þetta gilti sérstaklega um stærri grundvallaratriði, eins og um aðkomu landsins að viðskipta- og hernaðarbandalögum, uppbyggingu samhjálparkerfis og valdeflingu hinna vinnandi stétta og öreiga. Slík mál voru sett ofan í skúffu og þau skyldu helst ekki rædd meir.

Þetta skilaði vissulega þeim árangri að meint vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttur náði að klára heilt kjörtímabil. Þeim hafði tekist að afsanna fullyrðingar hægrimanna. Þó að þessi aðferðarfræði hafi aldrei verið tjáð beint er augljóst að hún var til staðar undir yfirborðinu og hefur bæði haldist og dreift úr sér meðal áður vinstrisinnaðra grasrótarhópa sem sýna af sér sömu taugaveikluðu tilhneigingar til að fæla ekki frá grandvararlausa meðlimi sem hafa ekki róttækar skoðanir, eða hafa ekki kafað mikið lengra en kvöldfréttir Ríkissjónvarpsins til að komast að því hvað er satt og rétt í heimsmálunum.

              En með því að leggja þessa ofuráherslu á að styggja engan og forðast sundrung hafa vinstriflokkarnir tapað tilgangi sínum, misst hjartað sem gerði þá mikilvæga og fórnað sínum allra mikilvægustu málefnum. Það sem hægrimenn kölluðu sundrung og óstöðugleika var nefnilega einmitt það sem gerði slíka flokka mikilvæga. Þetta voru oftar en ekki umræður og gangrýni sem hafði þann tilgang að finna sannleikan í hverju máli, horfa undir yfirborðið og að gæta þess að grundvallargildi félagsskaparins væru virt og höfð í hávegum. Það teljast til grundvallargilda að styðja fátækt alþýðufólk um allan heim, að hampa réttundum þeirra sem troðið er á og þá oft gegn yfirgangi þeirra sem mest völd hafa. Það er grundvallaratriði að skilja það að sannleikurinn er til sölu, opinbera þarf áróðursherferðir hernaðarbandalaganna og að þær fréttir sem fyrst berast af vettvangi eru gjarnan langt frá því að vera réttar. Það eru grundvallargildi að það sé almenningur sjálfur sem taki ákvarðanir um það hverjir njóta ávaxta erfiðis vinnumarkaðarins, að ríkið bjóði öllum þegnum sínum upp á heilbrigðisþjónustu án skilyrða, að borgaraleg réttindi almennings séu heilög og að utanríkisstefna byggist á friði, samtölum og samvinnu, en ekki yfirgangi, ofbeldi og þvingunum. Þetta eru allt erfið og flókin málefni sem beinlínis krefjast tilfinningahita og sérstaklega gagnrýni. Það er landlægur misskilningur að gagnrýni sé af hinu illa og sé samnefnari fyrir rifrildi og eyðileggingu. Gagnrýni er nauðsynlegt tæki sem notað er til að reyna á það hvort fullyrðingar eigi við rök að styðjast og að hverju ákvarðanir leiði. Sé hún kerfisbundin fjarlægð til að tryggja „sátt“ og „stöðugleika“ verður niðurstaðan ætíð sú sem hentar þeim öflugustu og frekustu hverju sinni. Við hljótum svo að spyrja að leikslokum, hver er tilgangurinn með flokkum og grasrótarhópum sem stefna að því að valda engum bárum í kyrru vatninu. Þegar algjörum grundvallaratriðum er fórnað á altari stöðugleikans, hvað stendur þá eftir annað en enn einn skriffinnskuhópurinn sem vinnur  með óstöðvandi framgangi auðvaldsins? Er einhver ástæða til að leggja þá ekki einfaldlega niður og leyfa fagfólki að sjá um formsatriðin?