Fara í efni

JÓHANNES Í BÓNUS OG FRUMSKÓGAR-LÖGMÁLIN

Kæri Ögmundur.
Ég les vefsíðu þína ásamt öðrum vefsíðum nokkuð reglulega og tel að þín skari langt frammúr.  Því langar mig að skrifa smá pistil um samtíðarmann sem ég ber mikla virðingu fyrir. Þessi maður hefur verið í sviðsljósinu undanfarin ár og þá sérstaklega nú er fyrirtæki sem hann er hluthafi í Glitnir, er í fjárhagslegum vanda og ríkið hefur eignast að 75% af.
Ég mun ekki fara lengra út í Glitnismálið né bankana sem virðast vera að hrynja eins og spilaborgir allt í kringum okkur, enda hef ég litla þekkingu á þeim ósköpum sem gengið hafa á í þjóðfélaginu.  
Nema það, að ég vil ekki villa sýn á mér. Ég var persónulega eindregið á móti því að bankarnir yrðu seldir til einkaeignar, ásamt einkavæðingunni yfirleitt án strangra laga og reglna sem athafnamenn yrðu að fara eftir.
Ég kynntist Jóhannesi Jónssyni þegar hann var verslunarstjóri fyrir Sláturfélag Suðurlands, þar sem ég var reglulegur viðskiptavinur. Ég hef nokkra reynslu í verslun og fyrirtækjum og dáðist að dugnaði Jóhannesar og eiginkonu hans við reksturinn.  Þau ráku verslun Sláturfélagsins með áhuga og röskleika, eins og að þau ættu verslunina persónulega.  Ég dái þá athafnamenn sem eru þetta samviskusamir í þágu annarra eða stofna eigin starfsemi upp á eigin spýtur, fjármagna þær og drífa þær áfram með heilbrigðum dugnaði.  Ég virði einskis afætur þjóðfélagsins sem standa í fjármálablekkingum og stela eignum almennings sem mikið hefur verið haft fyrir að eignast.
Jóhannes sagði mér að hann ætlaði að koma eigin verslun á laggirnar, og hafa lítinn íburð, leggja alla áherslu á góða vöru, og selja hana eins ódýra og mögulegt væri.  Jóhannes sagði mér að hann ætlaði að skapa svo mikla veltu að hann gæti keypt vöru í slíku magni að hann fengi hana enn ódýrari, sem hann mundi láta viðskiptafólk sitt síðan njóta góðs af. Hann ætlaði að skíra fyrirtækið Bónus og lét listræna stúlku sem vann fyrir hann hjá SS, teikna einfalda mynd af sparibaukssvíni sem merki fyrirtækisins.  Ég hafði minn vafa á að þetta væri hægt, eða nokkuð vit væri í því, en Jóhannes vann í þessu samkvæmt útliti og innrætti sínu, eins og víkingur, og honum tókst þetta allt með mikilli prýði eins og alþjóð er kunnugt. 
Ég tel varla of mikið sagt að Jóhannes Jónsson í Bónus hafi lækkað matarverð fyrir almenning Íslands um allt að 40% sem er ekkert smáræði sem verður að virða og þakka. Þetta gerði hann og hafði jafnvel gott uppúr því um leið eins og raun ber vitni.  Jói í Bónus keyrði lengi gamla bíladruslu, en er nú búin að fá sér almennilega bifreið og á það fullkomlega skilið.  Fólk og stjórnmálamenn skulu hafa í huga að Jóhannes gerði sín bestu meistaraverk í verslun, vel áður en hin orðlagða einkavæðing var sköpuð af pólitíkusunum.  Íslenskir athafnamenn hafa einmitt sýnt sýnar bestu hliðar og náð bestum heilsteypum árangri, áður en einkavæðingin kom til sögunar.  
Svo vildu pólitíkusarnir allt í einu gera eins og stóribróðir í Ameríku gerði það, opna fjósdyrnar upp á gátt, láta sólina skína inní í gáttina til að æsa nautin og gefa nautpeningnum lausan tauminn á túninu. Þeir sem hafa verið í sveit og hafa séð beljunum hleypt út á vorin eftir veturlanga inniveru, vita hvað ég er að fara. Þær eru hamslausar og stjórnlausar, og fullar orku og gelgju svo lengi að þær eru ekki siðaðar til og látnar aftur á básinn.
Eins var - og er - með orkufull ofurmenni sem allt í einu er hleypt af bás hefðarinnar, án laga né reglna til að fara eftir.  Þetta er raunar ekki þeim að kenna, heldur bóndanum, eða stjórnmálamönnunum, ríkisstjórninni, sem þjóðin greiðir offjár til að stjórna þjóðfélaginu, en þeir segja samt að þeir ætli að stjórna sem allra minnst.  Semsé að gera sem allra minnst fyrir kaupið sitt. Heiðalegu fólki þykir lítið til þeirra komið sem ætla sér meira kaup en þeir eru virði, og ætla í ofanálag að gera sem allra minnst fyrir umbjóðendur sína. Slíkt er ekki talið heiðarlegt!
Einkavæðingin skapaði eiginlega athafnafrumskóg án laga og "leikreglna" sem athafnamönnunum bæri að fara eftir. Það er of langt mál að fara út í þá sálma, en ofurhugi eins og Jóhannes í Bónus lét sér ekki segjast, en fór að skvetta úr klaufunum vítt og breitt, jafnvel erlendis samkvæmt hinum nýja boðskap einkavæðingarinnar og lét ekkert beisla sig, né fjötra sig.  Þá fór Bónus í skugga annarra athafnanna og nú er komið sem komið er!  Mér vitandi hefur Jóhannes Jónsson í Bónus aldrei brotið lög vísvitandi, enda þótt fyrirtæki sem hann hefur verið viðriðin, hafi verið dregin fyrir dómstóla, þá hefur hann aldrei verið dæmdur brotlegur maður.
Ég fullyrði að það ólán athafnamanna í frumskógi einkavæðingarinnar sem raun ber vitni, sé aðallega að kenna illa undirbúinni einkavæðingu, án leikreglna og nauðsynlegra laga og eftirlits. Einkavæðing er skaðleg heimska og mikill misskilningur, án nákvæms og rækilegs undirbúnings, strangra laga, skýrra leikreglna og eftirlits!   Hér er um að kenna pólitíkusunum sem stóðu ekki í stykkinu og hugsuðu ekki nógu vel um þjóðarhag, hag almennings!  
Þjóðinni, þá kjósendum, ber því að beita spjótum sínum að pólitíkusunum sem hafa staðið að niðurrifi íslenska þjóðfélagsins undanfarin 20+ ár og hafa eyðilagt það á ýmsa vegu!
Í friðsömu "lýðræðislegu" þjóðfélagi eins og okkar, verður að treysta því að kjósendur sjái að sér og geri sínar skyldur með hugrekki, sóma og láti ekki bjóða sér það óþjóðlega athæfi, undirferli og sukk, sem hefur einkennt umrædd stjórnvöld.
Ég tel ekki réttlátt að setja blett á mannorð Jóhannesar Jónssonar í Bónus af pólitískum ástæðum, eða af persónulegum ástæðum, eða vegna þess að hann varð farsæll í þeim jarðvegi sem pólitíkusarnir veittu honum með einkavæðingunni!
Helgi