Fara í efni

JÁ, EN ÞAU BYGGÐU SUNDLAUG Á ÁLFTANESI!


Í dag lauk tveggja daga ráðstefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um sveitarstjórnarmál. Ráðstefnan þótti gagnleg mjög. Ég kom til að hlýða á erindi sem flutt voru annars vegar um sameiningu sveitarfélaga sem Sigurður Tómas Björgvinsson flutti. Mæltist honum vel í fróðlegu erindi. Sama á við um Karl Björnsson, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem fjallaði  um fjármál sveitarfélaganna.
Þar komu fram sláandi upplýsingar um skuldastöðuna. Árið 2007 voru sveitarfélögin í plús um 2,8 milljarða (peningalegar eignir 138,4 milljarðar og vergar skuldir 135,6 milljarðar). Áætlun fyrir þetta ár - árið 2010 -  gerir ráð fyrir 67,2 milljarða hreinni skuld! (peningalegar eignir 143,1 milljarður og vergar skuldi 210,3 milljarðar).

Sveitarfélögin munu banka upp á
Staðan er með öðrum orðum hrikaleg. Ætla má að mörg sveitarfélög komi til með að banka upp á hjá ríkinu. Álftanes hefur bankað upp á. Fleiri munu koma á eftir.
Menn fóru geyst á Álftanesi, heyrist sagt. Sundlaugin kostaði of mikið og annað eflaust líka - það örlar á hneykslunartón í umræðunni. Nú þurfi að hafa vit fyrir íbúum á Álftanesi.
En stöldrum við. Álftanes vildi byggja fyrir aldraða, þjónustukjarna og aðstöðu til íþróttaiðkana fyrir ungviðið og svo má áfram telja. Vildi styrkja innviði samfélagsins. Já, og það var byggð sundlaug. Fín sundlaug sem menn koma langt að til að njóta.
En síðan kom hrunið. Og í kjölfarið sprenging í lánskjörum. Skuldirnar ruku upp.
Skuldir þessa litla samfélags eru miklar, taldar í milljörðum - þó ekki fleiri en nemur fingrum  annarrar handar (þegar hrein staða er gerð upp). Á  sama tíma og menn beina vísifingri að Álftanesi er verið að afskrifa skuldir fyrirtækja í milljarðavís, ekki bara sem nemur fingrum annarrar handar heldur beggja handa, tánna allra og það tífalt. Það þykir sumum fjármálavesírum ekki tiltökumál. Það eru Álftnesingar sem ekki kunnu fótum sínum forráð!

Var rétt gefið?
En á eitt að gilda um fyrirtæki, annað um samfélag? Ætti þetta kannski að vera öfugt? Að sveitarfélag væri látið njóta betri fyrirgreiðslu en fjármálamenn og fyrirtæki? Þarf ekki að skoða til hvaða verkefna lánsfjármagnið rann? Hvort það var í hallir og einkaþotur eða til uppbyggingar samfélags? Þetta þarf nefndin sem nú rýnir ofan í buddu Álftnesinga að íhuga. Hún þarf líka að skoða greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Hefur Álftanes setið við sama borð og aðrir? Ég spyr. Ekki bara hér. Ég mun spyrja um það á  Alþingi hvort rétt hafi verið gefið.
Álftnesingar byggðu vissulega fína sundlaug. En er það mesti glæpur Íslandssögunnar? Á að jafna sundlaug og þjónustukjarna fyrir aldraða saman við bruðl hrunverja? Að sjálfsögðu ekki. Álftnesingar byggðu engar hallir og ástunduðu ekki bruðl. Á undanförnum árum hafa Álftnesingar þvert á móti sýnt samfélagslega ábyrgð, frumkvæði og kraft. Ekki síst í umhverfismálum. (sjá hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/frumkvaedi-alkftaneslistans-ad-verndun-skerjafjardar-og-graenn-trefill-erlu )

Þörf á uppstokkun?
Það á að hlusta á Álftnesinga. Ekki segja þeim fyrir verkum. Ef til standa skipulagsbreytingar eða sameining við önnur sveitarfélög þá á ekki að ræða það eins og skipulagsverkefni að ofan. Ekki tala yfir hausamótunum á fólki. Á þessu hefur örlað.
Það á að stofna til lýðræðislegrar umræðu um skipulagsmál. Ekki bara á Álftanesi heldur víðar.
Skyldu Reykvíkingar, Hafnfirðingar, Kópavogsbúar, Garðbæingar og Seltirningar vera tilbúnir að hugsa upp á nýtt; að stokka upp yfirstjórn og endurskoða landamæri á þéttbýlissvæðinu í heild sinni? Nú þarf að hugsa margt upp á nýtt. Því miður er fjárhagsvandi Álftnesinga ekki einstakur.