Fara í efni

ÍSLENSK MÚNKHÁSENSTJÓRNMÁL

Öll rámar okkur eitthvað í hann Múnkhásen og sögurnar sem af honum voru sagðar, til dæmis þegar hann kvaðst hafa dregið sjálfan sig upp úr síki á hárinu. Gott ef asninn hans fylgdi ekki með knapa sínum við þessa dæmalausu björgun. Enginn stóð Múnkhásen framar í sjálfsblekkingu – nema ef vera skyldi að nú í byrjun 21. aldarinnar hafi Múnkhásen hinn þýski eignast verðugan keppinaut hér uppi á Íslandi. Að sjálfsögðu er það ríkisstjórnin okkar sem ég hef hér í huga; að hún keppi nú við Múnkhásen um hvor hafi gengið lengra í sjálfsblekkingu, hún eða Múnkhásen. Tilraunir íslensku ríkisstjórnarinnar við Múnkhásenmetið er margþættar og tengjast sölu Símans. Í fyrsta lagi að reyna að fá þjóðina til að trúa því að kaupi hún af sjálfri sér sínar eigin eignir komi hún til með að hagnast á öllu saman. Þetta býr að baki því að reyna að fá lífeyrissjóðina og sem allra flesta aðila í þjóðfélaginu til að kaupa arðvænlegar þjóðareignir. Þetta er kallað dreifð eignaraðild og er oft til umfjöllunar í leiðurum Morgunblaðsins. Spurningin er svo að sjálfsögðu hvor eignaraðildin sé dreifðari, eignarhald margra fjárfesta eða þjóðarinnar allrar. Í öðru lagi segir ríkisstjórnin að þegar arðvænlegar þjóðareignir eru seldar þá sé hægt að framkvæma nánast út í hið óendanlega, reisa sjúkrahús, bæta vegakerfið og svo framvegis. Í þriðja lagi sé sala slíkra eigna óendanlega mikilvæg fyrir neytendur því þeir komi til með að græða svo mikið á samkeppni. Hyggjum aðeins nánar að þessu.

Nú hefur verið ákveðið að selja Símann á 66,7 milljarða króna. Það eru miklir peningar. Mikilvægt er að skoða þessa sölu í réttu samhengi. Árið 2001 átti líka að selja Símann en vegna ýmissa erfiðleika sem upp komu neyddist ríkisstjórnin til að hætta við. Þá hafði verið sett á fyrirtækið verðmiði upp á 40 milljarða króna. Rándýrir sérfræðingar ríkisstjórnarinnar höfðu ákveðið það verð. Nú hafa hins vegar fengist 26,7 milljarðar umfram það sem átti að selja Símann á 2001. Og ekki nóg með það. Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu nema arðgreiðslur á núvirði á þeim fjórum árum sem liðin eru 11,528 milljörðum króna! Þetta þýðir að þjóðin hefur "grætt" á því að ekki tókst að selja árið 2001 rúma 38 milljaðra eða nákvæmlega 38.000.228 milljónir króna! Þetta er blákaldur raunveruleikinn, hvað sem mönnum svo finnst um hann. Þetta færir okkur heim sanninn um hve hverfull þessi heimur er. Eitt hefur þó ekki reynst vera hverfult og það er að Síminn hefur skilað í ríkissjóð arði sem nemur gríðarlegum upphæðum á undanförnum áratugum.

En ef slæmt var að selja Símann fyrir 40 milljaðra árið 2001, er þá gott að selja hann núna; eru 66,7 milljaðrar góður kostur núna? Hér er á það að líta að Síminn er geysilega stöndugt fyrirtæki. Í fyrra greiddi Síminn í skatta um hálfan milljarð króna. Skatttekjur ríkisins af Símanum blikna hins vegar þegar aðrgreiðslurnar eru annars  vegar. Hann hefur verið gerður upp með rúmlega tveggja milljarða kr. hagnaði undanfarin ár eftir skatta. Síminn hefur því skilað miklu í ríkissjóð. Hann hefur greitt 30% arð af liðlega 7 milljarða kr. hlutafé að nafnvirði sem gerði t.d. á síðasta ári 2.110 millj. kr. og af því fékk ríkið 99%. Á þessu ári námu arðgreiðslurnar rúmum sex milljörðum eða sex þúsund, þrjúhundruð og þrjátíu milljónum króna, allt peningar sem runnu – og renna -  í ríkissjóð.
En þetta segir ekki alla söguna. Það segir kannski enn meiri sögu að Síminn skilaði frá rekstri í fyrra 7.400 millj. kr. tæpum. Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir voru nákvæmlega 7.381 millj. kr. Veltufé frá rekstri var 6.800 millj. kr.
Þarna er því geyisleg fjármunamyndun á ferðinni og hrikalegt til þess að hugsa hvaða gullkvörn ríkisstjórnin er að selja frá þjóðinni.

Skynsamlegasti kosturinn væri að sjálfsögðu að halda Símanum í eigu þjóðarinnar.

Hvað þá með þá röksemd að þetta muni koma neytendum til góða. Auðvitað á tíminn eftir að leiða í ljós hver framvindan verður en eins og sakir standa verður ekki annað séð en að hér stefni í einokun, í besta falli fákeppni. Og halda menn að kaupendur Símans séu í góðgerðarstarfsemi; þeir hafi einfaldlega ekkert haft við 66,7 milljaðra að gera og hafi viljað setja þá í uppbyggingu í þágu samfélagsins? Nei, þeir ætla að græða á Símanum. Auðvitað ætla þeir að ná hverri einustu krónu til baka frá notendum þjónustunnar og gott betur. Við munum borga brúsann, 66,7 milljarða auk arðs að lágmarki 15 til 25% ofan í vasa hinna nýju eigenda.

Sorglegast af öllu er sú staðreynd að lífeyrissjóðirnir séu komnir í spilið. Ég áfellist þá þó alls ekki. Þeir þurfa að sækjast eftir skynsamlegri ráðstöfun fjármuna. Það sem er hins vegar sorglegt við þeirra hlutskipti er að í reynd eru þeir að festa kaup á eign, fyrir hönd umbjóðenda sinna, launafólksins, sem þeir áttu fyrir. Þjóðin er að selja sjálfri sér og hún er að kaupa af sjálfri sér.

En ef þetta er sorglegast hvað er þá hlálegast? Það er náttúrlega málflutningur ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin segist ætla að nota hluta söluandvirðisins til að bæta fjarskiptakerfið í dreifðum byggðum. Skattborgaranum verður nú ætlað að taka yfir fjármögnum verkefna sem áður voru innifalin í rekstrarverkefnum Símans. Hér má ekki gleyma að innstreymi söluhagnaðarins er til skamms tíma. Endurnýjun dreifikerfa og úrbætur þar sem þeirra er þörf hverju sinni, er verkefni án enda.

Munkhásenverðlaunin fær ríkisstjórnin svo fyrir að ætla að nota hverja krónu söluhagnaðarins nokkrum sinnum. Davíð ætlar að reisa sjúkrahús, Halldór ætlar að bæta vegasamgöngur – eða væntanlega fylla eitthvað upp í niðurskurðargatið sem myndaðist þegar kosningaloforðin voru svikin. Í gegnum þessar blekkingar sér þjóðin. En skyldi ríkisstjórnin átta sig á þessu. Eða er henni farið líkt og Múnkhásen, sem taldi sig hafa bjargað sér og asna sínum að draga þá upp úr síki sem þeir voru sokknir í á hárinu á eigin höfði. Mér finnst málflutningur ríkisstjórnarinnar bera mikinn keim af Múnkhásen. Hún rekur eins konar Múnkhásen stefnu. Þetta eru íslensk Múnkhásen stjórnmál.   

-----------------------------------------

Hér að neðan er svar fjármálaráðherra við fyrirspurn frá Steingrími J Sigfússyni frá því í vetur um hagnaðargreiðslur frá Símanum í hálfan annan áratug. En eins og segir í pistlinum hér að ofan þarf einnig að hyggja að rekstrarhagnaði fyrir afskriftir til að sjá þá verðmætamyndun sem á sér stað í þessari stofnun. Þá þarf að hafa í huga það sem einnig er bent á, að í rekstrareikingi Símnas er að finna liði sem ríkisstjórnin ætlar skattborgara framtíðarinnar að axla.


    1.      Hverjar eru heildargreiðslur Landssíma Íslands hf., áður Pósts og síma hf., áður Pósts og síma, til ríkissjóðs á arði eða skil á hagnaði eða aðrar greiðslur til ríkisins sem eiganda frá upphafi til og með þeim arðgreiðslum sem ákveðnar hafa verið á yfirstandandi ári að ósk ríkisins, uppfært til núgildandi verðlags og sundurliðað eftir árum?
    Fjármálaráðuneytið hefur kannað greiðslur frá Landssímanum hf. og forverum hans til ríkissjóðs. Eftir því sem næst verður komist var enginn arður greiddur fyrr en frá og með árinu 1989. Í meðfylgjandi töflu koma fram arðgreiðslur frá þeim tíma, samtals að fjárhæð 20,1 milljarður kr. Á verðlagi mars 2005 nema þær 23,9 milljörðum kr.
    Arðgreiðslur hafa verið óverulegar þar til fyrir þremur árum. Í tengslum við fyrirhugaða sölu á hlutabréfum ríkisins í Landssíma Íslands var skoðað hvort breyta mætti fjárhagsskipan fyrirtækisins þannig að heildarandvirði það sem ríkissjóður fengi fyrir eign sína ykist án þess að rekstrarhæfi fyrirtækisins skertist. Ákveðið var að lækka eiginfjárhlutfallið með sérstaklega hárri arðgreiðslu á árinu 2005, eða 6,3 milljörðum kr., eins og fram kemur í töflunni.


Ár

Arðgreiðsla í ríkissjóð

Vísitala neysluverðs

Arður á verðlagi mars 2005

2005

6.330

241 ,5

6.330

2004

2.085

234 ,6

2.146

2003

2.087

227 ,3

2.146

2002

835

222 ,6

906

2001

565

212 ,4

642

2000

565

199 ,1

685

1999

565

189 ,6

720

1998

595

183 ,3

784

1997

860

180 ,3

1.152

1996

860

177 ,1

1.173

1995

860

173 ,2

1.199

1994

850

170 ,3

1.205

1993

820

167 ,8

1.180

1992

940

161 ,2

1.408

1991

550

155 ,4

855

1990

500

145 ,5

830

1989

250

126 ,7

477

Samtals

20.117

23.839

Meðaltal frá 1989

1.402


    2.      Hver er meðaltalsársupphæð viðkomandi greiðslutímabils og hve mörg ár er sú upphæð að skila ígildi söluandvirðis Símans ef miðað er við 40 milljarða kr.?
    Meðaltalsarðgreiðsla sl. 17 ára, eða frá árinu 1989, nemur 1,4 milljörðum kr. Sú fjárhæð yrði 281/2 ár að ná 40 milljörðum kr.
http://www.althingi.is/altext/131/s/1092.html