Fara í efni

ÍSLANDSTÖFFARAR: BJÖRK, LILJA OG SIGURRÓS


Því miður missti ég af fyrstu tónleikaatriðunum í Laugardalnum í kvöld, auglýstum Radium og Ólöfu Arnalds.  Radium á ég eftir að kynnast, líka Ólöfu Arnalds sem allir sem til þekkja segja að sé á leið í fyrstu deild. Til hamingju með það Ólöf. Enginn deilir um að í fyrstu deildinni eru hins vegar Björk sem sannaði í kvöld hvað það er sem til þarf til að fanga heiminn! Það gerði Sigurrós líka. Í gærkvöldi hlustaði ég á Benna Hemm Hemm á útgáfuhátíð Draumalands Andra Snæs fyrir enskumælandi markað í Norræna húsinu. Þá rann það upp fyrir mér - eða kannski á ég að segja að ég hafi fengið staðfest - það sem ég áður vissi, að til er orðinn hinn íslenski tónn; íslenskt sérkenni í tónlist! Glæsilegt fólk! Gæsahúð og unaðstilfinning!!
Mikið er stórkostlegt að finna fyrir baráttu þessa fólks fyrir náttúru Íslands. En þá er kominn þriðji töffarinn sem ég vil nefna. Það er hún Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, skákdrottning, baráttukona  og súperpenni. Einu sinni sagði ég við Illuga Jökulsson, rithöfund, þegar hann var reglubundin rödd í morgunútvarpi RÚV að við þyrftum hvorki verkalýðshreyfingu né stjórnarandstöðu á meðan við hefðum hann. Auðvitað meinti ég þetta með fyrirvörum. Hinum sömu og þegar ég segi að á meðan íslenska velferðarsamfélagið og náttúra Íslands á að hana Lilju með penna í hönd þá er ekki öll von úti. Illugi var rekinn frá Ríkisútvarpinu. Verður Lilja rekin af leiðarasíðu Moggans? Það væri rökrétt í sjálfsherpingi og ritskoðun samtímans. Skyldi Björg Eva hafa fengið orð í eyra fyrir brilljant ritstjórnarpistil sinn í 24 Stundum á föstudag. Spyr sá sem ekki veit. En sá spyr sem grunar. Grunar af margra ára reynslu. En mikið held ég að Þjórsá sé ánægð með Björgu Evu!

Pistill Guðfríðar Lilju í Morgunblaðinu í dag og leiðari Bjargar Evu í 24 stundum í gær:

Reykás handa hræddri þjóð

Ragnar Reykás segir alltaf það sem fólk vill heyra.

Hann byrjar öll viðtöl á hástemmdum yfirlýsingum um ígrundaðar skoðanir sínar á líðandi stund. Fimm mínútum seinna er hann svo kominn á öndverða skoðun og talar jafnstoltur og sannfærður og áður. Korteri seinna er hann kominn annan hring.

Einn daginn er Reykás á móti álverum, næsta dag fylgjandi. Einn daginn er Reykás á móti einkavæðingu, næsta dag fylgjandi. Einn daginn er Reykás höfuðandstæðingur, næsta dag besti vinur. Einn daginn talar Reykás fyrir umönnunarstéttum, næsta dag fyrir auðjöfrum.

„Ég vil vernda Þjórsá!“ hrópar Reykás. Svo tekur hann glaðbeittur skóflustungur og skrifar undir samninga. „Ég berst gegn spillingu!“ hrópar Reykás. Svo ræður hann vini og flokksbræður í öll störf og nefndir. „Ég er á móti eftirlaunafrumvörpum!“ hrópar Reykás. Svo byrjar hann að skjálfa. „Ég er á móti hrefnuveiðum,“ hrópar Reykás. Svo halda veiðarnar áfram. „Ég vil rannsókn!“ hrópar Reykás og allt ætlar um koll að keyra. „Hvílíkt hugrekki! Hann talar! Og það með stóra bróður við hlið sér!“ Svo verður engin rannsókn. „Ég er friðarsinni!“ hrópar Reykás. Svo býr hann til varnarmálastofnun þar sem milljarðarnir flæða. Það eru víst þannig útgjöld sem mest þarf á að halda í kreppunni.

Það er þó eitt mál þar sem Reykás sýnir staðfestu: Hann vill ganga í Evrópusambandið.

Og þó. Ekki einu sinni þar er hann allur þar sem hann er séður. Fyrir kosningar gleymist allt í einu að setja aðild að ESB á dagskrá. Málinu er snyrtilega ýtt til hliðar og vart á það minnst þegar það er ekki alveg í tísku. Best að herma frekar eftir hinum: Lofa kraftaverkum í velferðarmálum, stóriðjuhléi, stöðugleika í efnahag, barnvænu samfélagi, félagshyggju.

“Nei, nei, nei, nei, nei! Þetta er ekki einkavæðing! Þetta er ekki einkavæðing!“ hrópar Reykás á hverjum degi á meðan glimrandi samvinna tekst með stóra bróður að gera gallað heilbrigðiskerfi enn verra fyrir þorra almennings en betra fyrir þá sem vilja græða.

En enn er von: Þótt Reykás sé áhrifagjarn og agnarsmár, og röddin sé margfalt skrækari, háværari og ákveðnari en innistæða er fyrir, þá hefur hann vissulega tiltekna kosti. Það er hægt að treysta því að hann sé alltaf tækifærissinnaður, alltaf teygjanlegur og sveigjanlegur í verki þótt orðin segi annað. Með betri félagsskap gæti hann því hugsanlega gert ágæta hluti og snúið í allt annan hring.

Ragnar Reykás mun án efa fjölmenna á tónleikana í Laugardalnum í dag til verndar náttúru Íslands. Hann mun slá um sig og klappa og kinka kolli til viðstaddra og brosa og jafnvel hrópa húrrahróp á réttum stöðum þótt líklega skilji hann samviskuna eftir heima.
Á mánudag mætir hann svo glaðbeittur í vinnuna og skrifar upp á fleiri virkjanir og álver.
Ragnar Reykás: Stjórnmálaafl handa hræddri þjóð.
liljagretars@gmail.com
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir

Leiðari Bjargar Evu Erlendsdóttur í 24 Stundum:

Grunnhugsun Samfylkingar

Óhætt er að skála fyrir Landsvirkjun og Sjálfstæðisflokknum þessa dagana. Álver á Bakka, virkjanir í Þjórsá, aukin framleiðsla álversins í Straumsvík og nýtt álver í Helguvík. Þetta er fagra Ísland ríkisstjórnarinnar. Samfylkingin virðist sjálf ennþá trúa því að flokkurinn haldi fram nýrri sýn í atvinnu- og umhverfismálum en hér hefur ríkt undanfarna ára tugi. Fagra Ísland er þó orðin fullkomin andstaða þess sem Samfylkingin boðaði þjóðinni fyrir síðustu kosningar. Stóriðja áfram ekkert stopp, var það ekki stefna Framsóknar? Hver er nú munurinn?

 

Það er talsverð kokhreysti hjá Samfylkingunni að segja að skoðanakönnun Fréttablaðsins sem sýnir andstöðu almennings við frekari stóriðju sé - "öflugur stuðningur við grunnhugsunina í stefnu Samfylkingarinnar um Fagra Ísland." Hvernig Ísland er það og hver er eiginlega þessi grunnhugsun?

 

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra mokaði yfir trúverðugleika Samfylkingarinnar þegar hann tók skóflustungu að álveri í Helguvík á dögunum. Eftir þann mokstur þarf engum þarf að koma á óvart að Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, undirriti viljayfirlýsingu um álver á Bakka. Og ekki heldur að Þórunn Sveinbjarnardóttir standi hnípin hjá og kynni sig endurtekið sem umhverfisráðherrann sem engu vill ráða. Henni finnst leitt að fylgjast með byggingu álvers í Helguvík og undirbúning á Bakka og hún hefur samúð með fólkinu á Þjórsárbökkum. Sú samúð kemur að litlum notum, þegar grá jökullónin fara að flæða um gróin tún og fagrar byggðir Suðurlands, svo hægt verði að stækka álverið í Straumsvík. Hætt er við að einhverjum verði þá hugsað til ráðherranna sem treyst var til að verja náttúru landsins.

 

Það voru ráðherrar Samfylkingarinnar. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins voru ekki kosnir til þess að stöðva stóriðju, heldur til að halda henni áfram. Stefna Sjálfstæðisflokksins er níðsterk. Og sveitarstjórnarmenn, hvar í flokki sem þeir standa, treysta henni svo vel að þeir uppfylla óskir Landsvirkjunar umyrðalaust og virða ekki viðlits fólkið sem kaus þá. Samfylkingin er í sama báti. Hún treystir Sjálfstæðisflokknum betur en sjálfri sér og kjósendum. Þess vegna finnst henni duga að hafa grunnhugsun um fagra Ísland, sem aldrei kemst til framkvæmda, á meðan Sjálfstæðisflokkurinn lætur verkin tala.