Fara í efni

ÍRAKSSTRÍÐIÐ OG FRAMSÓKNARFLOKKURINN

Birtist í Blaðinu 10.03.07.
Athygli vekur hvernig Framsóknarflokkurinn reynir nú eina ferðina enn að hlaupa frá umdeildum verkum sínum í Stjórnarráðinu undanfarin 12 ár. Einna ósvífnastur er hvítþvotturinn vegna stuðnings ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við innrásina í Írak. Nú kannast Framsóknarflokkurinn ekki við sínar fyrri gjörðir.
Þegar ráðist var inn í Írak fyrir fjórum árum, féllst ríkisstjórn þessara flokka á að Ísland væri sett á lista hinna „viljugu“, eða „staðföstu“ þjóða eins sumir stuðningsmenn stríðsins þýddu enska hugtakið „willing nations“. Þessi makalausi listi yfir þær þjóðir sem voru undirgefnastar Bush-stjórninni bandarísku, þjónaði lengi vel mjög mikilvægu pólitísku hlutverki í áróðursherferð hennar til að réttlæta innrásina í Írak.
Fyrir alla þá sem tóku þátt í umræðu um þetta efni á þessum tíma er með ólíkindum að verða nú vitni að tilraunum Framsóknarflokksins til að láta sem þessi listi hafi aldrei verið á ábyrgð og meira að segja ekki með vitund íslenskra stjórnvalda. Listinn hafi verið einhliða fréttatilkynning Bandaríkjastjórnar!

Fengu boð um að vera á lista Bush

Þetta stenst að sjálfsögðu engan veginn enda var því aldrei mótmælt af hálfu íslenskra stjórnvalda þegar Bush veifaði listanum hróðugur hvar sem hann fór. Framsóknarforsystan þarf þá líka að svara því hvers vegna þáverandi utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, hafi ekki mótmælt margítrekuðum yfirlýsingum Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, um að Ísland hefði beinlínis verið sett á listann að beiðni bandarískra stjórnvalda og að það hefðu íslensk stjórnvöld gert með ánægju.
Í DV 21. mars 2003, segir: „Davíð Oddsson forsætisráðherra segir að aðild Íslands að „bandalagi staðfastra þjóða“ sem styðja tafarlausa afvopnun Íraka með vopnavaldi sé eðlilegt og rökrétt framhald þeirrar afstöðu, sem margoft hefur komið fram af Íslands hálfu... „Það var sjálfgefið því að auðvitað höfðu Bretar og Bandaríkjamenn fylgst með því að íslensk stjórnvöld höfðu slag í slag lýst þessari afstöðu. Þegar við fengum boð um að fá að vera í hópi hinna staðföstu bandalagsþjóða svikumst við að sjálfsögðu ekki undan merkjum,“ segir Davíð.“
Nú er það Framsóknarflokkurinn sem svíkst undan merkjum. Framsóknarflokkurinn er ekki að hlaupast undan merkjum Bush og félaga því ekki mótmælir flokkurinn hersetunni í Írak. Listinn hefur litla sem enga pólitíska þýðingu nú, nema þá að fyrir mannorð íslensku þjóðarinnar er bráðnauðsynlegt að má nafn okkar af honum. Nei, Framsókn er ekki að svíkja Bush og  félaga. Hún er að reyna að koma aftan að íslenskum kjósendum með því að reyna að telja þeim trú um að eitthvað allt annað hafi verið uppi á teningunum en raunverulega var. Það er óheiðarlegt.