Fara í efni

iPod Í LAUNAUMSLAGIÐ

Sæll Ögmundur.  Þú skrifar á heimasíðu þína þann 13.9.sl grein með yfirskriftinni ÞAÐ ÞARF AÐ JAFNA KJÖRIN Í LANDINU. Ekki efast ég um vilja þinn til þess að vinna að því og ég er sammála þér í því að hátt gengi krónunar hefur ekki skilað sér að fullu í lægra vöruverði, enda kröfur um háa arðsemi til eiganda hafðar í fyrirrúmi.  Það er gaman að sjá hvernig hinar ýmsu verslunarkeðjur bregðast við þegar erfitt reynist að manna fyrirtækin, og auglýsingar eftir starfsfólki bera ekki árangur.  Þá eru starfsmönnum send heim bréf þar sem fyrirtækið óskar eftir aðstoð við að fá fólk í vinnu. Hverjum starfsmanni sem getur útvegað nýjan starfsmann sem vill koma til vinnu fyrir ofurlaun um 100 þúsund á mán er heitið iPod minni að gjöf. Það er þó skilyrt því að nýi starfsmaðurinn haldi út í sex mánuði  (ekki mikið mál á slíkum ofurlaunum). Til að auðvelda starfsmanninum að ná í nýjan starfsmann fær sá nýi líka slíkt tæki eftir fjóra mánuði í starfi.  Þegar maður sér þetta og skoðar launataxtana sem verkalýðsfélagið samdi um fyrir þetta fólk grunar mann að félagið vilji hafa þetta svona áfram því þetta fólk skilar töluverðum peningum inn til þess en ávinnur sér lítil réttindi því það stoppar svo stutt við. Síðan gumar félagið sig að markaðslaunum.  Annað sem öll verkalýðsfélög ættu að fara að hugsa um þegar þau standa í samningnum er að semja um krónutölu ekki prósentur því það eru þeir sem hæst hafa launin sem græða mest á því?

Með kveðju
Sigurbjörn Halldórsson