Fara í efni

INGIBJÖRG, GEIR OG NATÓ

 Já, Ögmundur....
I
ngibjörg Sólrún Gísladóttir hefur svo sannarlega oft skipt um lit, skoðun og hlaupið útundan sér trekk í trekk. Í gegnum síðustu ár hefur hún að mínu mati ekki orðið til að auka hróður Samfylkingarinnar nema síður sé.  Ég vil taka svo djúpt í árinni að segja að upp á síðkastið hafi hún hreinlega orðið allri íslensku þjóðinni til skammar, ekki bara sínum eigin flokki!  Ekki gleyma því að þetta er manneskja sem veitir þeim flokki forustu sem bauð sig fram í síðustu alþingiskosningum sem jafnaðar og félagshyggju flokkur, og þeir sem kusu flokkinn trúðu því.  Hún hlýtur nú að hafa loks opnað augu þess fólks sem lét blekkjast þá, og mun vonandi sjá villu síns vegar í næstu alþingiskosningum!
Sunna Sara segir á síðunni þinni að Ingibjörg Sólrún hafi á sínum tíma mótmælt veru Íslands í NATO með þátttöku í Keflavíkurgöngu. Síðar barðist hún gegn inngöngu Íslands í EES og varð borgarstjóri Reykjavíkur af þeim orðstír, en hún hljóp þá útundan sér enn og sveik málstað Íslands í deilunni um EES; hljóp svo frá störfum sínum í borgarstjórn til að bola Össuri frá sem formanni Samfylkingarinnar, til að komast á þing, og nú er sem er. Ingibjörg hefur nú flogið með einkaþotu til Rúmeníu á NATO fund í fangi Geirs Haarde. Það er ekki hægt að kenna Geir um undirferli og siðleysi Ingibjargar, því hann hagar sér akkúrat samkvæmt sjálfum sér og sínum, svo hans áhangendur verða ekki fyrir neinum vonbrigðum með hann...Fólk gerir engar siðferðisköfur til Geirs...eins og Samfylkingarmannskapurinn hlýtur að gera gagnvart formanni sínum. Öðru neita ég að trúa!
Parið hefur setið NATÓ fundinn í Rúmeníu, við sama borð og Georg Bush sem er svo alræmdur og illa liðinn að honum er hvergi boðið á mannamót hvorki heimafyrir, né erlendis, nema kannski í Rúmeníu og þjóðfélögum af því tagi; þjóðfélögum sem eru vönkuð og ringluð, nýskriðin undan erlendum járnhæl og liggja nú á bæn um að komast undir forræði nýrra herra. Jafnvel samflokksmaður Bush sem er í framboði sem arftaki hans í Hvíta húsinu, vill ekki láta sjá sig með honum, eða kannast opinberlega við hann. Íslenska parið veit hins vegar ekkert eftirsóknarverðara en fá að sitja til borðs með Georg þessum Bush og lætur leigja undir sig einkaþotu til að verða ekki of sein í matinn. Það mega þau vita að íslenskri þjóð er ekki skemmt.
Erindi Bush og NATÓ til Rúmeníu er að umkringja og þrengja enn að Rússum með kjarnorkuhlöðnum eldflugum eins og fyrridaginn, sem aftur þvingar Rússa til að hervæðast á ný sér til varnar. Það endurnýjar kaldastríðið og gerir vonir mannkynsins um frið, að engu. Fólk má minnast þess að það var einmitt NATÓ sem á sínum tíma var kveikjan að Varsjábandalagi Austur-evrópuþjóðanna, og þá kaldastríðinu. Ætli Ingibjörg Sólrún sé búin að gleyma þeim kostnaðarsama hildarleik? 
Það var víst ekki nóg að gera Íslendinga að samsærisþjóð Bandaríkjanna í innrás þeirra í Írak, með böðulshernámi þar, pyntingum og fjöldamorðum. Nú á að endurvekja NATÓ sem árásarsamkundu, ekki Varnarbandalagi Norðuratlandshafsþjóðanna eins og NATÓ var ætlað. Er þetta það sem utanríkisráðherra Íslands, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og  forsætisráðherra Íslands, Geir Haarde ætla að vera hlutaðeigendur að, við sama borð og Georg Bush, óvinsælasti forseti í sögu Bandaríkjanna heima sem heiman. Ég spyr eins og Ögmundur Jónasson Alþingismaður: Að hverjum er þetta fólk að gera grín? Þykir því virkilega svívirðing við íslensku þjóðina, vera eitthvað grín?  Eða er það að gera grín að sjálfu sér, en er svo þrælspilt að það sjái ekki villur síns vegar?  Spyr sá sem ekki veit!
Það er ekki auðvelt fyrir okkur almenning að skilja framferði sem þetta af hálfu óbrenglaðra Íslendinga. Mér er ekki kunnugt um að neitt það hafi hent formann Samfylkingarinnar persónulega sem skýri eða afsaki þetta ótrúlega framferði. Undir hennar stjórn er Samfylkingin orðinn falskur og undirförull flokkur. Var þetta, sem flokkurinn aðefst nú, stuðningurinn við stríðsrekstur í Írak og Afganistan og skefjalaus undirgefni við erlenda hernaðar- og auðhyggju á kostnað íslensku þjóðarinnar - var allt þetta fyrirséð? Ef svo er þá býr þessi stjórnmálaflokkur yfir meira falsi og undirferli en ég hafði hugarflug til að ætla. Ég var í hópi þeirra sem hlustaði á formann flokksins Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, og veit um marga aðra sem vildu taka hana trúanlega. Getur verið að hún hafi alla tíð verið að bíða eftir tækifæri til að svíkja yfirlýstan málstað sinn og kjósendur sína!  Glottandi Geir er eins og hann og hans fólk er og hefur verið. Honum til bóta, má með sanni segja að hann hefur ekkert breyst og notar Ingibjörgu óspart, allt frá því að þau kysstust á Þingvöllum! 
Kveðja,
Úlfur