Fara í efni

Impregilo, breska þingið, mútur og spilling

Í Brennidepli í gær er vitnað í fréttaflutning af tilraunum fulltrúa Impregilo til að bera sakir af fyrirtækinu um að það tengist spillingu og mútum. Einkum var stuðst við frétt Morgunblaðsins í gær. Ég hvet fréttamenn til að lesa það sem sagt er í þessum stutta Brennidepilspistli um útboðin og mikilvægi þess að útboðsgögnin verði gaumgæfð. En aftur að ásökunum um mútur og spillingu. Í breska þinginu eru starfandi fjölmargar nefndir, þar á meðal nefnd sem kallast The International Development Committee og hefur það hlutverk að fylgjast með ráðuneyti alþjóðlegrar þróunar eða The Department for International Development. Nefnd þessi stóð árið 2001 að gerð skýrslu fyrir breska þingið um áhrif spillingar í þróunarlöndum og kallaði til ýmsa sérfræðinga og stofnanir í þeim tilgangi að líta á málið frá sem víðustu sjónarhorni. Meðal þeirra var fræða- og rannsóknafyrirtækið The Corner House sem skilaði til nefndarinnar skýrslu um nýleg dæmi um spillingu breskra fyrirtækja og fyrirtækja sem á alþjóðavettvangi njóta bakstuðnings breskra fjármálafyrirtækja. Skýrslu þessa er að finna á eftirfarandi vefslóð:

http://www.parliament.the-stationery-office.co.uk/pa/cm200001/cmselect/cmintdev/39/39ap06.htm 

Þessi skýrsla er afar athyglisverð lesning og þótt ekki sé sérstaklega fjallað um ítölsk fyrirtæki þá kemur Impregilo óþægilega oft við sögu í þessari frásögn af spillingu í hinum alþjóðlega verktakabransa. Í frétt Morgunblaðsins frá í gær kemur fram að talsmaður Impregilo hafi sagt að aldrei hafi neitt sannast á Impregilo í meintu mútumáli í Afríkuríkinu Lesotho, „enda hafi dómstóll vísað málinu frá og fyrirtækið eigi ekki yfir höfði sér neina ákæru þar í landi“. Í þessu sambandi er rétt að nefna tvö atriði sem koma fram í bresku skýrslunni. Í fyrsta lagi að rannsóknir sem gerðar hafa verið á meintum mútugreiðslum í Lesotho á vegum Alþjóðabankans fóru fram fyrir luktum dyrum og voru ekki gerðar opinberar þrátt fyrir kröfur þar að lútandi. Hitt varðar bæði siðferði og lög. Lesotho-framkvæmdin hófst á meðan kynþáttastjórnin var enn við völd í Suður-Afríku og var þá í gildi alþjóðlegt viðskiptabann. Það bann tók einnig til Lesotho sem heyrði undir Suður-Afríku. Fyrirtækin sem komu að framkvæmdunum voru því siðferðilega mjög á hálum ís þegar þau bjuggu til sjóð í London sem „þvoði“ peningagreiðslur til og frá Lesotho. Þetta var í besta falli á mörkum hins löglega ( „was of borderline legality ...“ ) segja skýrsluhöfundar.

En hverfum nú til Suður-Ameríku. Í skýrslunni er fjallað um Yacyreta stífluna í Argentínu og Itaipu stífluna í Brasilíu. Þarna kom Impregilo heldur betur við sögu. Hér á eftir fer orðréttur kafli úr skýrslunni:

„Both the World Bank-funded Itaipu Dam and the Yacyreta dam on the Parana River have been beset by corruption allegations. Brazilian journalist Paulo Schilling and Paraguayan ex-legislator Ricardo Canese have described the building of Itaipu as „possibly the largest fraud in the history of capitalism. Itaipu was originally projected to cost some $3.4 billion, but skim-offs by the military rulers of Paraguay and Brazil and their colleagues contributed to the cost skyrocketing to around $20 billion.“ Meanwhile, the Yacyreta dam was famously described by Argentinian president Carlos Menem as a „monument to corruption“.   Impregilo and Dumez led a joint venture as main contractor.“

Þarna er samningum í tengslum við aðra stífluna lýst sem „hugsanlega mesta svikamáli í sögu kapítalismans“ og um hina segir fyrrverandi forseti Argentíu að hún sé „minnisvarði um spillingu“. Þarna voru viðsemjendur Landsvirkjunar annar stærsti verktakinn. 

Þarf ekki að skoða þessa viðsemjendur okkar eitthvað betur og það áður en flaggað er þeim til heiðurs?