Fara í efni

ILLUGI OG VATNIÐ

Svo segir mér hugur að Illugi Gunnarsson, fyrrum aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar, sé á leið í pólitík. Hann gerist sífellt fyrirferðarmeiri í þjóðmálaumræðunni og heldur m.a. úti föstum pistli í Fréttablaðinu. Víðar kemur Illugi við sögu.
Illugi Gunnarsson á vissulega fullt erindi inn á vettvang stjórnmálanna. Hann er rökfastur og góður fyrir sinn málstað. Nema þegar hann skrifar um vatn. Það gerði Illugi í Fréttablaðspistli sínum um helgina. Ekki var það góð grein. Það er mikil dirfska – mér liggur við að segja fífldirfska - að nota vatn og reynsluna af einkavæðingu vatnsveitna sem dæmi um ágæti einkaframtaksins. Hvað þá reynslu af einkavæðingu vatnsveitna í þriðja heiminum! Þar hefur reynslan nefnilega verið hrikaleg. Niðurlagsorðin í grein Illuga eru þessi: "Andstæðingum einkaframtaksins hefur tekist að hægja á þátttöku einkafyrirtækja í vatnsdreifingu í þriðja heiminum. Það er hræðilegt fyrir þær hundruð milljónir manna sem þar með þurfa að bíða lengur eftir því að fá vatn á viðráðanlegu verði. Ábyrg afstaða hlýtur að vera sú að hvetja til þess að fátæk ríki nýti sér kunnáttu og þekkingu vatnsfyrirtækja. Eða hvað yrði sagt ef einkaframtakið væri ábyrgt fyrir 97% vatnsdreifingar í þriðja heiminum og milljarður manna hefði ekki aðgang að vatni?"
Nú berast þær fréttir einmitt frá þriðja heiminum að fjölþjóðlegu vatnsfyrirtækin séu að draga sig þaðan vegna þess að ekki sé nægilega mikið upp úr krafsinu þar að hafa. Þess í stað beini þau sjónum sínum nú fyrst og fremst að hinum iðnvædda heimi, þá ekki síst Evrópu. Mikil rannsókn hefur nýlega verið gerð á vatnsveitumálum í Evrópu (sjá m.a. HÉR). Rannsóknin leiðir í ljós að einkavæðing vatnsveitna hafi nær alltaf gefist illa. Ástæðuna hefði ég haldið að menn af pólitísku sauðahúsi Illuga Gunnarssonar væru tilbúnir að leiða hugann að: Í vatnsveitumálum fyrirfinnst engin samkeppni. Reynslan er sú að vatnsfyrirtækin skipta markaðnum á milli sín og hafa síðan samráð um verðlag. Neytandinn er þess vegna algerlega á þeirra valdi. Afleiðingin er hærra verðlag og lakari þjónusta. Þetta eru óvéfengjanlegar staðreyndir. Koma þessar staðreyndir íslenskum hægri mönnum ekkert við?   
Sjá ennfremur HÉR