Fara í efni

Í tilefni Morgunblaðsleiðara



Birtist í Mbl. 24.03.2003
Morgunblaðið spyr í leiðara fimmtudaginn 20. mars hvers vegna Íslendingar eigi að veita Bandaríkjamönnum stuðning í árásum þeirra á Írak. Í leiðaranum sem er óvenju fyrirferðamikill er reynt að svara þessu. Í fáum orðum er röksemdafærslan á þessa leið: Bandaríkjamenn hafa verið okkur góðir í gegnum tíðina. Nú sé svo komið að þeir "telja að stuðningur þessarar fámennu þjóðar hér skipti þá máli. Með því endurgjöldum við mikilvægan stuðning þeirra við okkur á undanförnum áratugum. Í þeim yfirlýsingum, sem íslenzk stjórnvöld hafa gefið vegna Íraksdeilunnar felst að við viljum halda áfram því nána samstarfi, sem við höfum átt við þennan volduga bandamann okkar í vestri. Það mun koma að því í framtíðinni að við Íslendingar þurfum á ný á stuðningi Bandaríkjamanna að halda. Það myndi koma okkur á óvart, ef hann væri þá ekki til staðar."

Með öðrum orðum: Kaup kaups. Ekki er það rishá afstaða. Í rauninni er verið að segja að það sem komi mér vel sé gott, og þeir sem gera mér gott eigi allan minn stuðning skilið. Þetta kallast eigingirni. Reyndar finnst mér það hugtak ekki fyllilega ná yfir þessa afstöðu því hún  er verri en svo. Mér þykir það beinlínis vera siðlaust  að leggja málin þannig upp að afstaða okkar til málefna eigi fyrst og fremst að ráðast af okkar eigin hagsmunum en ekki mati okkar á því hvað er rétt og sanngjarnt. Þetta stríðir gegn öllum siðalögmálum sem siðfræði og trúarbrögð hafa boðað um aldir. Niðurstaðan samkvæmt þessari formúlu er sú að íslenska þjóðin sé til sölu. Í Morgunblaðsleiðaranum er þetta þó ekki alveg svona slæmt. Þar er spurt: "Verðskuldar sá málstaður, sem Bandaríkjamenn og Bretar berjast fyrir í Írak, stuðning okkar? Og einhverjir munu segja sem svo: Þrátt fyrir þau sögulegu rök, sem hér hafa verið nefnd, getum við Íslendingar ekki fylgt Bandaríkjamönnum í hverju sem er. Og það er rétt." 

Síðan veltir Morgunblaðið vöngum yfir málstaðnum, hversu góður hann sé og kemst að þeirri niðurstöðu að það kunni að hafa verið rangt af hálfu Bandaríkjamanna að veita Saddam Hussein þann stuðning sem honum var veittur fyrr á tíð og má skilja á leiðarahöfundi að hann sakni þess að þetta skuli ekki hafa verið viðurkennt sem mistök. "Í umræðum nú er hins vegar hvergi minnzt á að þar hafi verið gerð mistök og að af þeim megi læra í umgengni við aðra einræðisherra með harðstjórnartilburði. Má ganga út frá því að aðförin gegn harðstjóranum í Írak sé til marks um að framvegis verði brugðist með sama hætti við fólskuverkum annarra einræðisherra?" Þessari spurningu er ekki svarað í leiðaranum. 

Tvennt hef ég við málflutning Morgunblaðsins að athuga. Í fyrsta lagi hefði verið nær að snúa leiðaranum við. Spyrja fyrst um málstaðinn og ef hann væri metinn verðugur þá væri að sjálfsögðu rétt að styðja bandamanninn sem heldur hinum góða málstað á lofti. Í leiðaranum eru áherslurnar hins vegar gagnstæðar.

Í öðru lagi held ég að það sé rangt hjá Morgunblaðinu að Bandaríkjamenn hafi að eigin mati gert nokkur mistök varðandi stuðning við Saddam Hussein fyrr á tíð. Þeir studdu hann til valda að vel yfirveguðu ráði. Þegar Bandaríkjamenn síðan misstu ítök í grannríkinu Íran við fall keisarastjórnarinnar þar árið 1979 hvöttu þeir einræðisherrann Saddam Hussein til stríðsátaka við Írana og studdu stjórn hans með ráðum og dáð, sendu henni vopn og peninga fékk hún ómælda frá Kuveit. Henry Kissinger fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna talaði um Saddam Hussein sem "góða skúrkinn"  (he is a good crook) þar sem hann væri Bandaríkjamönnum þóknanlegur og vel nýtilegur í valdataflinu í Austurlöndum.

Og þá að efnahagsforsendunum. Í Írak er vitað um 112,5 milljarða tunna af olíu í jörðu og talið að í landinu kunni að finnast helmingi meira eða 250 milljarðar tunna, eins mikið og í Saudi Arabíu, mesta olíuframleiðsluríki heimsins. Olíuna þjóðnýttu Írakar á fyrri hluta áttunda áratugarins. Áður hafði hún að mestu leyti verið í höndum bandarískra og breskra fyrirtækja. Í fréttum erlendrar útvarpsstöðvar eftir að innrásin hófst heyrði ég bandaríska olíumenn tala af ákafa um einkavæðingu olíunnar í Írak, nú væri stundin að renna upp og mikið yrði það gott fyrir írösku þjóðina töldu þeir þegar olíulindirnar hefðu verið einkavæddar!

Mitt mat er að í Íraksmálinu sé sannleikurinn sá að valdapóltískir og efnahagslegir hagsmunir ráði gerðum Bandaríkjastjórnar, fremur en "hinn góði málstaður". Það er góðra gjalda vert að styðja vini sína. En það eiga menn því aðeins að gera að málstaður þeirra sé góður. Það er málstaður Bandaríkjamanna í þessu máli hins vegar ekki. Þess vegna eigum við ekki að styðja árásirnar á Írak.