Fara í efni

HVORT ER BETRA AÐ VITA EÐA VITA EKKI?

Gott hjá Sjónvarpinu að taka upp fréttina um einkavæðingu á gamla fólkinu á Landakoti.  Þetta var frétt kvöldsins. Átakanlegt var að hlusta á hina pólitísku handlangara á Landspítalanum, sem þú nefnir svo Ögmundur, réttlæta ruglið. Svo kemur Guðlaugur Þór, heilbrigðisráðherra í viðtal og þvær hendur sínar; þetta mál kemur honum ekkert við. Það gerði hann í læknaritaraútvistuninni. Það mál snerist um eitthvert fólk, sagði hann okkur, sem væri honum allsendis  óviðkomandi! Heldur maðurinn að við séum fífl? Eða hvað? Er Guðlaugur Þór kannski að segja rétt frá; að hann viti ekki neitt? Er kannski verið að vinna að markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins  úti í bæ og ráðherrann lesi bara um niðurstöðurnar í blöðunum? Getur verið að Guðlaugur Þór sætti sig við að sitja í stúku og fylgjast með - ekki sem gerandi heldur verandi? Kannski er það lóðið að ráðherrann viti ekki neitt. En væri það betra?
Sunna Sara