Fara í efni

HVIMLEIÐAR RADDIR FORTÍÐAR

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 25.06.11
Ég hef orðið var við að margir furða sig á framgöngu forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins í tengslum við kjarasamninga. Í stað uppbyggilegs samtals inn í samfélagið hefur málflutningurinn einkennst af gífuryrðum, svikabrigslum og ásökunum af pólitískum toga um »stjórnleysi« og »forystuleysi« ríkisstjórnarinnar. Alveg sama hvað gert er, alltaf er verið að svíkja þá Vilmund Jósepsson og Vilhjálm Egilsson. Þessum neikvæða tón úr ranni SA höfum við ekki átt að venjast í langan tíma og alls ekki nú síðustu árin, í aðdraganda hrunsins þegar Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráðið lágu á spena stjórnvalda, hvöttu þau til dáða og fengu nær undantekningalaust sínu framgengt. Einhvers staðar held ég að ég hafi séð að Viðskiptaráð hafi beðist opinberlega afsökunar á framferði sínu en slíku hefur ekki verið til að að dreifa af hendi Samtaka atvinnulífsins.

Stóra svikabrigslamálið nú í sumarbyrjun er að ég sem ráðherra samgöngumála, skuli ekki hafa viljað setja á vegatolla til að ráðast í sérstakar flýtiframkvæmdir í tilteknum afmörkuðum stórframkvæmdum en þess í stað viljað halda mig við ódýrari lausnir, sem þó skapa fleira fólki vinnu. „Þú hefur lagaheimildina, þú getur sett á tolla," var mér sagt, og skipti þá engu þótt ég benti á andstöðu samfélagsins, tugþúsundir undirskrifta, andstöðu sveitarstjórnarmanna og þingmanna að ógleymdum atvinnurekendum, sem tugum saman hafa skrifað mér og kvartað yfir forsvarsmönnum sínum. Þrátt fyrir þetta leyfði formaður SA sér að segja að sú staðreynd að ég lyti ekki boðvaldi sýndi fram á „getuleysi ríkisstjórnarinnar" og „forystuleysi" að „láta einn mann stoppa svona mikilvægt mál..." ...framkvæmdir „upp á tugi milljarða...".

Þrátt fyrir skýran þjóðarviljann leyfa menn sér að segja upp í opið geðið á þeim tugum þúsunda sem hafa látið vilja sinn í ljósi að það sé einn maður, undirritaður, sem sé að „bregðast" og „svíkja" og nú síðast krefjast blessaðir mennirnir þess í bræði sinni að mér verði vikið úr ríkisstjórninni: „Verkstjórar stjórnarsamstarfsins hljóta að bregðast við og sjá til þess að innanríkisráðherra snúi af villu síns vegar. Takist það ekki er vart annar kostur en að fela öðrum að fara með samgöngumálin í ríkisstjórninni."

Hvernig væri nú að Samtök atvinnulífsins snéru sér að því í framtíðinni að semja um kaup og kjör, vinnutíma og réttindi launafólks og hættu að halda almennu launafólki í gíslingu með það að markmiði að ná fram þröngum sérhagsmunum og þá einnig að sveigja þjóðfélagið á gamalkunna braut út í frjálshyggjufenið.

Þessi vinnubrögð og sú vanvirða við lýðræðið sem þau endurspegla mun sem betur fer brátt heyra til liðinni tíð.

Þetta er fyrst og fremst hvimleitt en ekki til að gera sér mikla rellu út af. Stóryrtar hótanir og mikið loft, en innistæðan engin. Það finn ég á þeim viðbrögðum sem ég verð var við þessa dagana, ekkert síður frá félagsmönnum þeirra Vilmundar og Vilhjálms en frá launafólki sem blöskrar yfirgangur þeirra.